Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Vigfús Bjarni Albertsson

Þúfurnar og hlutabréfin

Í haga - mynd: Árni Svanur Daníelsson

Guð elskar sögur sagði einu sinni nóbelsverðlaunahafi í raunvísindum þegar hann útskýrði trú sína. Sumum fannst svarið barnalegt, mér finnst það gott. Sögur af fólki, lífssögur eru svo óendanlegar. Þær eru stöðugt að verða, þær jafnvel breytast í túlkun og skilningi þegar litið er til baka og saga mín er kannski allt önnur en sagan þín þótt atburðurinn sé sá sami.

Þegar við ferðumst um eigin sálarafkima finnum við alltaf eitthvað sem er grundvallandi í lífi okkar, það getur verið margt. Þegar ég tala um grundvallandi í lífi okkar er ég að tala um verðmæti sem hafa varðveitt okkur og stutt okkur á lífsleiðinni og við tekið þátt í að varðveita.

Ég kann eina sögu af ólíku gildismati, sögu af því hvernig lífsgildi fóru ekki saman. Afi minn sem er bóndi, norður í landi, lýsti því fyrir mér hvernig menn í teinóttum jakkafötum, einkennisbúningi góðærisins reyndu að kaupa jörðina hans. Þeir hringdu fyrst og boðuðu komu síðan, fararskjótinn var stálfugl sem flaug með þá beint til bóndans. Fyrst var spjallið gleðilegt og allt var mögulegt. Erindið norður var að kaupa jörðina en hann mátti búa þar áfram og deyja þar, það var ekkert mál og kostaði ekkert. Það átti að borga með hlutabréfum í ónefndum banka sem er farinn á hausinn, fundið fé þá en í dag týnt.

Gamli maðurinn sagði að það væri gaman að fá gesti en peningana þeirra vildi hann ekki. Hann sagðist aðeins einu sinni hafa unnið sér inn pening sem honum þótti vert að tala um en það var túkall sem danskur embættismaður gaf honum þegar afi hljóp tíu ára gamall niður að á með skeyti um að það væri að hefjast ófriður í Evrópu.

Afi var viss um að áin sín og þúfurnar sínar væru dýrmætari en hlutabréfin. Hann kunni ekkert að reikna það, honum leið þannig. Einhver af þessum snillingum sagði við hann að hann væri nú ekki mjög vel gefinn að þiggja ekki bréfin í bankanum góða. Mennirnir í teinóttu fötunum sem voru tilbúnir að koma á flugvél skyldu ekki að jörðin var saga Afa míns, tilfinningar, líf, átök og farsæld.

Jörðin var söpunarverk Guðs, sköpunarverk sem hann hafði ræktað og notið uppskerunnar af. Fyrir það er hann þakklátur guði, það er ekki útreiknað.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2690.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar