Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Þórhallur Heimisson

Þegar hjálparstarfið fer í sumarfrí

1. júlí 2010

Það hefur mikið verið fjallað um það í dag, 1. júlí á því herrans ári 2010, að Hjálparstarf kirkjunnar og Fjölskylduhjálp Íslands séu komin í sumarleyfi. Engar frekari matarúthlutanir er að fá fyrir þurfandi á þeim bæjunum næsta mánuðinn.

Aðspurðir um hvað fólk eigi að gera sem á ekki til hnífs og skeiðar meðan lokun varir, ypta stjórnmálamenn öxlum og láta eins og það komi sér ekki við.

Fólk hljóti að bjarga sér. Það er ekki þeirra mál - stjórnmálamannanna.

Þeir þvo hendur sínar.

„Hvað er þetta hjálparstarf líka að fara í frí“ spyrja þeir kannski ögn pirraðir og með hneykslunartón.

Í þeirri stöðu sem nú er uppi kristallast þannig þjóðfélag okkar óvenju skýrt.

Stækkandi hópur fólks hefur á undanförnum árum lagt allt sitt traust á hjálparstofnanir til að eiga í sig og á og mat handa börnum sínum. Það á ekki í önnur hús að venda.

Þessu sama fólki er vísað frá stofnunum samfélagsins, Félagsþjónustunni og öðrum sem eiga að tryggja að enginn svelti hér á landi.

Vísað á kirkjuna.

Vísað á Fjölskylduhjálpina.

Vísað á Samhjálp.

Það sem á að vera neyðarhjálp er þannig orðið að úrræði sem áðurnefndar stofnanir  samfélagsins treysta á og þeir sem þeim stjórna, embættismenn og stjórnmálamenn.

Í stað þess sjálf að leysa úr vanda fólksins. Eins og þau eiga að gera. Samkvæmt lögum eins og félagsmálaráðherra hefur bent á.
Og þetta köllum við velferðarkerfi.

En það er skrýtið velferðarkerfi sem treystir orðið algerlega á neyðarstofnanir. Treystir á raðir af fólki sem bíður eftir matargjöfum.
Og það er undarlegt velferðarkerfi sem yptir öxlum yfir umkomuleysi fólks og segist ekki koma það við -

Sem svarar spurningunni-“Hvernig á fólk að lifa af sumarið“, með því að ypta öxlum og segja - „Ekki veit ég það!“
Af ávöxtunum skulið þið þekkja þá.

Um höfundinn2 viðbrögð við “Þegar hjálparstarfið fer í sumarfrí”

  1. Þórir Jökull Þorsteinsson skrifar:

    Sæll Þórhallur. Þakka þér þennan pistil og inntak hans. Ég get ekki setið á mér að benda þér á að sögnin að “yppa” fær fyrst téið í þátíð. Að yppa öxlum er líkast til dregið af staðaratviksorðinu upp og stundum er talað um ypparlega menn í merkingunni að þar fari hátt settir í einhverju samhengi. Hvet þig til að laga þetta í pistlinum. Menn yppa öxlum og fólk yppir öxlum í nútíð.

    Besta kveðja, Þórir.

  2. Þórhallur Heimisson skrifar:

    Þakka þér Þórir - svo lærir sem lifi. Ég skal biðja vefstjóra að laga þetta því ég kemst sjálfur ekki inn í skjalið.

    Kær kveðja Þórhallur

Allur réttur áskilinn © 2000-2018 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2096.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar