Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Hjalti Hugason

Ríki, samfélag, þjóð — og þjóðkirkja

Hér á landi starfar evangelísk-lúthersk þjóðkirkja á grundvelli 62. gr. Stjórnarskrárinnar. Ríkið, samfélagið og jafnvel þjóðin eru hins vegar ekki lúthersk í neinum hefðbundnum skilningi. Í hæsta lagi er mögulegt að segja að þessi fyrirbæri séu veraldlega, sögulega lúthersk. Með því er átt við að siðir, venjur, menning og samfélagshættir mótist að ýmsu leyti af því að hér hefur starfað lúthersk kirkja frá því um miðja 16. öld. Allt fram undir aldamótin 1900 tilheyrði þjóðin í heild þessari kirkju og mikill meirihluti hennar allt fram á þennan dag. Auðvitað hefur þessi langa saga markað spor sem enn má greina.

Grunngildi
Að svo miklu leyti sem ríkið, yfirbygging samfélagsins, löggjafar-, framkvæmda- og dómsvaldið, hefur skilgreint gildakerfi hvílir það á hugsjónum lýðræðis, jafnréttis og almennra mannréttinda. Þess vegna er t.a.m. eðlilegt að ein hjúskaparlög gildi fyrir alla óháð kynhneigð. Samfélagið, þ.e. innviðir þjóðlífsins eftir að ríkisvaldinu sleppir, hlýtur að byggja á þessum sömu grunngildum. Þar er t.d. átt við skólann, heilbrigðiskerfið og aðrar sambærilegar samfélagsstofnanir.
Þjóðin, fólkið í landinu, við sjálf, byggjum hins vegar á fjölbreyttari og óskilgreindari gildum. Þau sem mér virðast mest áberandi eru fullveldis-, sjálfstæðis- og þjóðernishyggja. Þrátt fyrir Hrun og félagslegar hrakfarir af sjálfra okkar völdum er stutt í hugmyndir um „stórasta land í heimi“, óþrjótandi möguleika okkar til að ná alheimsforystu á þessu sviðinu eða hinu og drauminn um að lifa frjáls og óháð á Ultima Thule. Við gleymum því þá að frá 1262 höfum við ekki verið óháð nema í fáein ár. Fyrst vorum við háð Norðmönnum, síðar Dönum og loks Könum frá herstöðvasamningi til 2006.
Aðeins þjóðkirkjan hefur lagalega skilgreindan gilda- eða kenningagrunn og hann er evangelísk-lútherskur. Á þeim grunni þarf hún að taka afstöðu til stefna og strauma sem gætir á vettvangi ríkis, samfélags eða þjóðar — þar á meðal einna hjúskaparlaga svo enn sé tekið nýtt dæmi.

Er þjóðkirkjuskipan verjandi?
Nú á dögum er þráfaldlega spurt: Hvers vegna að halda í þjóðkirkjuskipan og er það hægt ef grunngildi ríkisins eru lýðræði, jafnrétti og almenn mannréttindi? En óhjákvæmilega er það svo að í þjóðkirkjuskipan felst mismunun.
Jákvæð mismunun er ekki talin brjóta í bága við almenn mannréttindi svo fremi sem hún skerðir ekki frelsi annarra — í þessu tilviki annarra trúfélaga — og að fyrir henni séu málefnaleg rök. Fyrir þessu eru til alþjóðlegir og innlendir úrskurðir þegar um kirkjuskipan ræðir. Þar á meðal hæstaréttardómur frá 2007. Þjóðkirkjuskipanin brýtur því ekki gegn grunngildum hins opinbera meðan fyrir henni er pólitískur meirihluti. En hvað um hin málefnalegu rök?
Oft eru tilfærð einföld söguleg rök fyrir áframhaldandi þjóðkirkjuskipan. Hér skal litið svo á að þau séu ekki málefnaleg. Einu sinni þjóðkirkja merkir ekki alltaf þjóðkirkja! Framtíð þjóðkirkjunnar ræðst öðru fremur af þeim hlutverkum sem hún gegnir í samfélaginu og meðal þjóðarinnar.

Gild rök
Enn kýs mikill meirihluti þjóðarinnar að tilheyra þjóðkirkjunni. Óþarfi er að ætla að það stafi af vanafestu eða vanþekkingu um réttindi sín og skyldur. Meirihluti þessa fólks kallar eftir þjónustu kirkjunnar á helstu merkisdögum ævi sinnar í gleði og þraut. Önnur trúfélög hafa ekki gengið inn í þetta hlutverk nema þegar fá prósent þjóðarinnar eiga í hlut. Í þessu felast gild rök fyrir þjóðkirkjuskipan.
Þjóðkirkjan gegnir nú fáum lögboðnum samfélagshlutverkum eins og vera ber í veraldlegu samfélagi. Óformleg samfélagshlutverk hennar eru aftur á móti mörg, þau standa öllum til boða og eru endurgjaldslaus: Þjóðkirkjan rekur öflugt barna- og unglingastarf með tvímælalaust forvarnargildi. Með sálgæslu býður hún upp á stuðningsþjónustu fyrir þau sem glíma við lífsvanda af ýmsu tagi. Með kærleiksþjónustu (díakóníu) hefur hún á síðustu áratugum veitt þeim sem standa höllum fæti aukinn félagslegan stuðning. Með innanlandsaðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar hefur hún byggt upp vaxandi efnahagsaðstoð við þau sem búa við skort. Í helgihaldi býður hún öllum sem þiggja vilja griðarstað og griðarstund í stríðum straumi áreita og krafna daglegs lífs. Þetta eru allt gild rök fyrir þjóðkirkjuskipan.
Þær aðstæður kunna að skapast á komandi misserum að þjóðkirkjan verði að veita enn meiri og enn betri þjónustu á öllum þessum sviðum til að verða betri evangelísk–lúthersk þjóðkirkja, þ.e. kirkja sem líður og stríðir með þjóð sinni.

Um höfundinn5 viðbrögð við “Ríki, samfélag, þjóð — og þjóðkirkja”

 1. Matthías Ásgeirsson skrifar:

  Ég las þennan pistil í Morgunblaðinu fyrir stuttu og var afskaplega ánægður að fá svo góðan stuðning við málstað minn og annarra sem berjast fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju. Greinin sýnir vel að flest rök fyrir því sambandi standa ekki.

  Eftir standa tvö rök. Annars vegar þau að stór hluti þjóðarinnar sé skráður í kirkjuna og hins vegar að kirkjan sinni mörgum verkefnum.

  Ég verð að samt að játa að ég sé ekki að þessi rök haldi. Hvar setur höfundur t.d. markið? Gilda fjöldarökin ef 75% íslendinga eru í Þjóðkirkjunni? 70%, 60%? Svo er það staðreynd að íslendingar eru skráðir í kirkjuna við fæðingu þannig að erfitt er að halda því fram að fólk hafi tekið meðvitaða ákvörðun um þetta “val”.

  Varðandi góðu verkin, þá eru þetta að sjálfsögðu hringrök. Kirkjan sinnir ýmsum verkum vegna þess að hún fær gríðarlegt fé frá ríkinu, sambandið er semsagt forsendan fyrir þessum góðu verkum og því erfitt að segja að góðu verkin séu forsenda fyrir sambandinu.

  Þvert á móti má færa góð rök fyrir því að aðrir geti sinnt flestum þessum verkum og þá án tengsla við tiltekin trúarbrögð. Ef ríkið, sem allir þegnar landsins eru hluti af óháð trú, kostar eitthvað ætti það að sjálfsögð ekki að vera hluti af starfssemi eins tiltekins trúfélags.

  Þannig er ekkert sem segir að samfélagsverkefni kirkjunnar muni öll leggjast niður þó slitið sé á tengsl ríkis og kirkju.

 2. Gudmundur Pálsson laeknir skrifar:

  Komid thid sael öll sömul. Áhugaverd grein.

  Margir ( sérlega utankirkjufólk og trúlaust fólk,… en einnig mjög trúad fólk ) hafa tjád ósk um adskilnad kirkju og ríkis. Thaer óskir eru af ýmsum rótum runnar eins og vera ber. Adrir hafa maelt sérlega á móti thví og telja thad jafnvel ógerlegt vegna ýmissa atrida ma. fjárhagslegra. Mér thaetti fródlegt ad heyra hvad höfundur og etv. adrir lesendur segja um thetta og thá sérstaklega hvort adskilnadur myndi STYRKJA EDA VEIKJA trúarlíf í landinu. Thad finnst mér mikilvaeg spurning.

  Einnig spurning í framhaldi af grein thinni og lýdraedishefd thjódkirjunnar: Er rétt ad hafa thjódaratkvaedagreidslu um tengsl kirkju og ríkis? Gód kvedja.

 3. Gudmundur Pálsson laeknir skrifar:

  Athugasemd mín er skrifud án thess ad ég hafdi séd innlegg Matthíasar Ásgeirssonar hér ad ofan. Ég tel rétt ad thad komi fram. Kvedja GP

 4. Matti skrifar:

  Umræðuhefð þjóðkirkjunnar er ákaflega forvitnileg.

 5. Halldór Logi Sigurðarson skrifar:

  Það að meirihluti Íslendinga sé skráður í Þjóðkirkjuna er vandamálið við Þjóðkirkjuna í sjálfu sér. Fólk er einfaldlega of latt til þess að skrá sig úr kirkjunni og of fáfrótt til þess að vita að ef það er í Þjóðkirkjunni borgar það 10.000 kr. aukalega á ári, flestir í þjónustu sem þeir nýta ekki neitt. Síðan halda allir áfram að skrást í Þjóðkirkjuna vegna laganna um að barn sé “automatically” skráð í trúfélag móður, a.k.a., Þjóðkirkjuna í flestum tilfellum og fæstir vita af þessu. Síðan halda flestir Íslendingar að það þurfi að skíra börn til þess að þau fái nafn og þar með halda þau einnig að þau þurfi að gera allt í kirkju. Fáfræði er ástæðan fyrir því að svo margir eru skráðir í Þjóðkirkjuna.

  “Jákvæð mismunun er ekki talin brjóta í bága við almenn mannréttindi svo fremi sem hún skerðir ekki frelsi annarra — í þessu tilviki annarra trúfélaga — og að fyrir henni séu málefnaleg rök.”
  Þjóðkirkjan er á allan hátt neikvæð mismunun, þar sem ALLIR, hvort sem þeir séu trúalausir eða í öðrum trúarbrögðum þurfa að borga til Þjóðkirkjunnar. ÞAÐ er mismunun, og einstaklega neikvæð þar sem ríkið (sá sem talar fyrir þjóðina á alþjóðvettvangi) hampar sérstaklega einu trúfélagi ofar öðrum.

  “Óformleg samfélagshlutverk hennar eru aftur á móti mörg, þau standa öllum til boða og eru endurgjaldslaus[…]”
  Endurgjaldlaus? Þjóðkirkjan kostar ríkið þó nokkra milljarða á ári. Er það endurgjaldslaust?

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3761.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar