Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Þorgeir Arason

Ísraels Guð?

Frá Gaza svæðinu - mynd: http://www.flickr.com/photos/gloucester2gaza/3387693413/

Á hvítasunnudag leysti ég sóknarprest Egilsstaðakirkju af við fermingarmessu. Við kirkjukórinn sungum hátíðartónlag sr. Bjarna Þorsteinssonar við athöfnina, en upphafsvíxlsöngur (introitus) hátíðar heilags anda hefst í Bjarnatóninu á þessum orðum Saltarans: „Lofaður sé Guð, Drottinn, Ísraels Guð!“

Í fermingarveislu síðar um daginn tók athugull kirkjugestur mig tali. Hann hafði hnotið um orðalag tónlagsins og vildi vita hvers vegna sérstaklega hefði verið minnst á Ísrael í þessu samhengi. Spurningin kom mér skemmtilega í opna skjöldu og svör mín báru þess nú merki að ég hafði lítið velt málinu fyrir mér. Þó tókst mér að muldra eitthvað á þá leið, að Ísrael væri í orðum helgihaldsins aðeins táknmynd Guðs ríkisins, en ekki væri sérstaklega átt við Ísraelsríki nútímans. Úr varð skemmtilegt samtal, þar sem í ljós kom að viðmælandinn – sem reyndist mun betur heima í stöðu mála fyrir botni Miðjarðarhafs en presturinn – vildi að Íslendingar gripu til róttækari, pólitískra aðgerða gegn Ísrael en áður höfðu þekkst.

Þeir sem nokkuð hafa gluggað í Biblíuna vita, að í Gamla testamentinu er Ísrael hin útvalda þjóð Guðs, sem hann á í sérstöku kærleikssambandi við. Ísrael er þó langt frá því að vera fullkominn sonur. Það gengur á ýmsu í samskiptum Guðs og lýðs hans, þar sem þjóðin bregst Guði margoft og hlýtur gjarnan refsingu fyrir vikið. Hið einstaka hlutverk Ísraels í hjálpræðissögunni er hins vegar framar öðru fólgið í að vera þjóð Messíasar, frelsara allrar veraldar. „Hann gerði heiðingja og Ísraelsmenn að einum,“ skrifar Páll postuli (Efes. 2.14).

Þegar talað er um Ísrael í helgihaldi og táknmáli kirkjunnar til okkar daga (t.d. þegar vitnað er í lofsöng Símeons í útfararathöfninni), má því segja að orðið sé notað í yfirfærðri merkingu yfir alla kristna menn. „Ísrael“ er lýður Guðs, sem Kristur frelsaði með blóði sínu á krossi. Þegar Guð er lofaður með orðum hvítasunnuvíxlsöngsins, þá lofum við Guð sem gerði alla menn að „Ísrael,“ þ.e. að sínum börnum.

Ísraelsríki nútímans er því alls ekki hin útvalda þjóð Guðs á þann hátt að henni leyfist sú framkoma sem henni þóknast við aðrar þjóðir – og allra síst við þá, sem gott vilja gera í samfélagi þeirra. Samtalið í veislunni á hvítasunnudag kom upp í hugann í gær, þegar fréttir bárust af því að Ísraelsmenn hefðu ráðist á skipalest aðgerðasinna, sem var að flytja hjálpargögn til Gasasvæðisins. Ljóst er að farþegar í skipalestinni hafi ekki brugðist friðsamlega við truflun Ísraelsmanna, en eftir stendur sá ásetningur ísraelsku árásarmannanna, að gera þeim óleik, sem vildu standa með þjáðum Palestínumönnum.

Íslensk stjórnvöld íhuga nú að bregðast við þessum atburðum með táknrænum aðgerðum á borð við þær að slíta stjórnmálasambandi við Ísraelsmenn. Auðvitað eru tvær hliðar á öllum málum. Þó er þetta vel, því að sá sem beitir ofbeldi að fyrra bragði á aldrei að njóta vafans. Kristnir menn ættu heldur ekki að koma honum til varnar, því að útvalning Guðs felur ekki í sér réttlætingu á ofbeldisverkum. Hún felur umfram allt í sér kærleikssamband Guðs og manns, sem skilyrðislaust á að hvetja manneskjuna til kærleiksverka. Gyðingar voru farvegur frelsarans til heimsins, en þeir þurfa á boðskap hans og hjálpræðisverki að halda, engu síður en við hin.

Biðjum Jerúsalem friðar – og stöndum með þeim sem eru beittir órétti! Þannig lofum við Ísraels Guð!

Um höfundinn3 viðbrögð við “Ísraels Guð?”

 1. Jón Ómar skrifar:

  Takk fyrir þennan góða pistil Þorgeir.

  Kv. Jón Ómar

 2. Jakob Ævarsson skrifar:

  Ágætis punktur Þorgeir.
  Örsnögg athguasemd þó. Hafa ekki gyðingar þó útvalningslega heimild til að okra á útlendingum skv. Móse?

  Kv. Jakob

 3. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson skrifar:

  Má ég fá svar við því af hverju þú fjarlægir rökstudda gagnrýni mína á þessa grein þína, sem ég setti hér inn um daginn? Þú þekkir greinilega ekki upphaflega merkingu á Am Nivchar. Þú ert að gera gyðingum upp hluti sem gyðingar hafa aldrei haldið fram eða gert, og það í nafni kirkju þinnar. Þú ert á hálli braut.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3647.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar