Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Vigfús Bjarni Albertsson

Gjafir þjónustunnar

HandtakEr það ekki dýrmætt að tilheyra þjónustu sem á snúast um að vera með fólki? Þannig líður mér. Ég veit að ég verð ekkert betri fyrir vikið, gleðin mín er ekkert um það að vera öðruvísi en annað fólk, sá sem allt veit og allar leiðir rata. Gleði mín er um að fá að kynnast fjölbreyttu mannlífi. Stundum er mikil gleði og stundum er mikil sorg. Flestum hjörtum virðist svipa saman í lífsgöngunni, gleðigöngunni og í sorgargöngunni.

Gleði mín er um að fá að ganga við hliðina á fólki, fá að kynnast hugsunum þess, oft þarf að ríkja trúnaður, stundum leiðsögn sem einkum felst í leit og svörum fólksins sjálfs. Miklu oftar er það mitt að spyrja en að gefa svör, kannski að hjálpa fólki að tala saman. Oft hitti ég fólk aftur, þá er stundum leiðin önnur, aðrar hugsanir og aðrar glímur. Kannski aðrar spurningar og stundum breyttar niðurstöður.

Mér fannst það fallegt þegar mér var einu sinni sagt af lífsreyndum presti vestanhafs, hvað orðið heilagt merkti fyrir honum, það sem væri frátekið. Í hans huga merkti orðið heilagt, samfylgd þar sem trúnaður væri og að yfir mörk væri ekki stigið. Allt fas þessa manns bar vott um virðingu, hann spurði af áhuga, hann reyndi ekkert að framkvæma kærleik með miklum snertingum, hann þurfti ekkert að breyta röddinni. Hann hvíldi sáttur í sér. Gamansemi hans var ekki biturt háð í ætt við óbeislaða kaldhæðni heldur gamansemi hlýjunnar, aðallega á sinn kostnað. Sönn þjónusta við fólk og eigin lífsglíma hafði skapað hans fas. Hann hafði þegið gjafir þjónustunnar.

Í þjónustu erum við stöðugt að kynnast okkur sjálfum, það fylgir allri samfylgd með fólki. Við þurfum sem samferðafólk að vita um líf okkar, þekkja tilfinningar okkar. Við þurfum að skynja hvenær lífssögur okkar þvælast fyrir samskiptum okkar við annað fólk. Við þurfum að vita hvort lífssögur okkar séu að skapa fordóma. Kærleikur og fordómar geta aldrei farið saman til lengdar.

Gjafir þjónustunnar er dásamlegar, sr. Árni Bergur Sigurbjörnsson kenndi mér að orðið auðmýkt væri að eiga mikið af mýkt. Það er ein af stórum gjöfum þjónustunnar. Kristur leiði mig þá leið. Ég rata ekki alltaf sjálfur.

Vigfús B. Albertsson, sjúkrahúsprestur.

Um höfundinn4 viðbrögð við “Gjafir þjónustunnar”

 1. Arna Grétarsdóttir skrifar:

  Takk kæri sr.Vigfús fyrir góða hugvekju. Mikið þótti mér vænt um að þú minntist sr. Árna Bergs heitins. Hann hafði svo sannarlega áhrif á okkur mörg. Lýsingar þínar á fasi prestsins lífsreynda vestanhafs gæti nú vel hafa átt við sr. Árna Berg.

 2. Sigurbjörn Þorkelsson skrifar:

  Frábær pistill Vigfús, takk fyrir mig.

 3. Gunnlaugur A. Jónsson skrifar:

  Fínn og fallegur pistill Vigfús Bjarni. Ég tek undir með Örnu um það sem hún segir um Árna Berg heitinn, þann góða dreng sem ég sakna mikið. Og raunar kom mér annar maður einnig í hug, sem við þekkjum báðir, vestur-íslenski presturinn og prófessorinn, Daniel J. Simundson. Bestu þakkir.

 4. Bjarni Karlsson skrifar:

  Gott að lesa þetta Vigfús nafni

  Takk

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3621.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar