Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Sigfinnur Þorleifsson

Ég trúi á Guð en grýlur ei

já gott fólk

þetta heitir líka skilnaður

hjá okkur kynvillingunum

þið verðið bara að kyngja því


(Ingunn Snædal, Komin til að vera, nóttin, Bjartur 2009). Hárbeitt kaldhæðni skáldsins hittir mig í hjartastað, gagnkynhneigðan prestinn. Í aldanna rás hefur kirkjan orðið að kyngja ýmsu, þegar hún sem stofnun viðurkenndi með trega eftir á það sem í dag telst sjálfsagt og eðlilegt. Þar má nefna hlutskipti kvenna sem hallaði mjög á en lengi vel stóðu konur engan veginn jafnfætis körlum hvað varðar mannréttindi og gera ekki fyllilega enn. Þessa mismunun studdi kirkjan ljóst og leynt eins og sjá má til að mynda í orðum og gerðum helgisiðanna.

Séu þeir siðir skoðaðir þá er ljóst að um aldir var áherslan á undirgefni konunnar, og textar ritningarinnar valdir með það í huga að konan gerði sér ljósar skyldur sínar og stöðu líkt og ríkjandi viðhorf bauð. Þannig stendur til að mynda í hjónavígsluritúalinu í handbók presta frá 1852 með tilvísun í postulann Pál:

„Kvinnurnar veri bændum sínum undirgefnar… eins og söfnuðurinn er Kristi undirgefinn, svo skulu og einnig kvinnurnar bændum sínum í öllu.“

Þannig voru viðteknar hugmyndir og hagsmunir feðrasamfélagsins teknar fram yfir orð Krists um frelsi manneskjunnar og jafnstöðu frammi fyrir Guði og náunganum.

Ég trúi á Guð en grýlur ei, sagði þjóðskáldið forðum. Það er hægt að nota texta ritningarinnar til að ógna og hræða, allt veltur það á lesskilningi okkar og túlkunum. Ættum við ekki fremur að lesa fagnaðarerindið, eins og við nefnum boðskapinn um Krist, með Krist fyrir sjónum? Til blessunar og vaxtar öðrum mönnum? Það var ekki að ófyrirsynju að Kristur dró saman öll boð og bönn og setti þau fram í kröfunni um að elska Guð og aðrar manneskjur og virða náungann á sama hátt og við kjósum að við séum virt. Þessi nálgun nægir mér, með henni verður mér m.a. ljóst (ég harma það að vísu að hafa ekki áttað mig á því miklu fyrr) að kynhneigð á ekki að greina okkur hvert frá öðru. Við erum öll manneskjur sköpuð í Guðs mynd og því óendanlega dýrmæt í augum hans.

Og samt stendur enn þá fast í koki sumra þjóna kirkjunnar að samkynhneigðir vilji eiga hlut í hjónabandinu eins og aðrir jafnréttháir og fullgildir einstaklingar. Við beitum margvíslegum og misvitrum rökum, vitnum í lagabálka úr hinu gamla lögmáli, sem Kristur sjálfur hafnaði og við höfnum alla jafnan sjálf, vísum til hefðarinnar eins og hún sé óumbreytanleg skikkan Skaparans, og klæðum fordóma okkar í fleiri áþekka búninga. Segjumst þó elska alla tilætlunarlaust en viljum samt í nafni kærleikans að þau séu nákvæmlega eins og við í háttum sínum og hegðan.

Áður var vitnað til fortíðar í handbókartexta um hjónabandið frá árinu 1852. Í helgisiðabók íslensku þjóðkirkjunnar frá árinu 1910 kveður strax við annan og betri tón og nú er komið árið 2010 og þörfin brýn fyrir nýjan söng. Nú þegar fyrir liggur frumvarp á Alþingi um ein hjúskaparlög ætti kirkjan að taka því fagnandi. Í stað þess að heilsa samkynhneigðum með litla fingri vinstri handar fyrir aftan bak ættum við þjónar kirkjunnar að sjá sóma okkar í því að blessa hjónabönd þeirra með báðum höndum og mikilli gleði. Nema við viljum sitja ein að hjónaskilnuðum?

Um höfundinn5 viðbrögð við “Ég trúi á Guð en grýlur ei”

 1. Gudmundur Pálsson laeknir skrifar:

  Thú ordar thetta vel Sigfinnur og manneskjulega. En hvernig ber okkur thá ad skilja afstödu hinna ýmsu kristnu söfnuda td. kathólskra og orthodoxa og reyndar flestra annarra kristinna safnada sem hafna vidhorfi thínu vardandi hjónaband samkynhneigdra.

  Eru their bara gamaldags? Hafa rangan skilning? Eda ber íslenskri kirkju ad fara sínar eigin leidir í thessu óhád thví hvad “kristnin í heiminum” telur almennt vera rétt.

  Nú vitum vid ad sjónarmid theirra helgast ekki af óvild í gard samkynhneigdra heldur ákvednu gudfraedilegu vidhorfi og fastheldni vid sidi og Heilaga ritningu. Er thad etv. skammsýnt thegar á heildina er litid, eins konar grýlutrú ?

 2. Stefan skrifar:

  Kærleikur til allra konu og karla
  Um hvað snýst þessi umræða, erum við hinir svo kölluðu bókstafstrúuðu(þeir sem þrá að fara eftir vilja og orði Guðs)í einhverjum haturs áróðri og hatast út í samkynheigða? Nei síður en svo.
  Mér finnst þín fyrsta skylda sem þjónn Guðs, að flytja Orð hans án málamiðlunar. Biblían er skýr og það eina sambúðar form sem hún viðurkennir er hjónaband karls og konu. Í Augum Guðs er óvigð sambúð ekkert betri heldur en sambúð tveggja samkynheigðra.
  Mér finnst ekki mikil kærleikur fólgin í því að blekkja fólk og segja að eitthvað sé í lagi og að Guð blessi eitthvað sem hann gerir ekki. Ef við ætlum að vera kristin verðum við að leyfa orði Guðs að móta okkur og lifa samkvæmt því. Um leið og við förum að tína eitthvað út úr Biblíunni sem hentar tíðarandanum erum við komin í slæm mál. Mér þykir það vænt um samkynhneigða að ég get ekki logið upp í opið geð á þeim. Ég kýs að tala sannleika í kærleika, ég kýs það þótt vera kunni að tíðarandinn geri gys af mér. Eftir stendur þetta,
  Við verðum að velja, velja tískusveiflur tíðarandans eða velja að standa og falla með orði Guðs.
  Hvað velur þú kæri Sigfinnur ?
  kv Stefan

 3. Edda Möller skrifar:

  “Biblían rannsakist í ljósi þjóðfélagsins sem skóp hana. . . Biblían túlkist í ljósi samfélagsins sem notar hana.” Þetta voru einkunnarorð dr. Þóris Kr. Þórðarsonar prófessors og biblíuafstöðu hans. (af facebooksíðu Gunnlaugs A. Jónssonar prófessors.)

 4. Gudmundur Palsson laeknir skrifar:

  Maetir menn og kennarar Thórir Kr. og Gunnlaugur. Thad má samt ekki gleymast sem er adalatridid ad Biblían er lesin fyrst og fremst og er skilin í ljósi trúarinnar. Thessi gildi trúarinnar eru eilíf og grídarlega dýrmaet. Thad er thví mikilvaegt ad standa vörd um thau.

 5. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  „Kvinnurnar veri bændum sínum undirgefnar… eins og söfnuðurinn er Kristi undirgefinn, svo skulu og einnig kvinnurnar bændum sínum í öllu.“

  Þannig voru viðteknar hugmyndir og hagsmunir feðrasamfélagsins teknar fram yfir orð Krists um frelsi manneskjunnar og jafnstöðu frammi fyrir Guði og náunganum.

  Sigfinnur, hvar í guðspjöllunum fjórum segir Jesús eitthvað sem er í andstöðu við þessi orð? Hvar segir Jesús að konan eigi ekki að vera undirgefin eiginmanni sínum?

  Síðan vil ég benda þér á að í einni af játningum kirkjunnar þinnar er konum sagt þetta:

  Eins skuluð þér, eiginkonur, vera undirgefnar eiginmönnum yðar eins og það væri Drottinn, eins og Sara hlýddi Abraham og kallaði hann herra, og börn hennar eruð þér orðnar, er þér hegðið yður vel og látið ekkert skelfa yður. (1Pt 3.1, 6; Ef 5.22).

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2583.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar