Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Ólöf I. Davíðsdóttir

Ánauð Lasarusar

Vinir Jesú ömuðust við því að kona nokkur hefði keypt dýr ilmsmyrsl sem hún hellti rausnarlega yfir höfuð Jesú stuttu fyrir dauða hans. Rök þeirra voru þau að það hefði verið hægt að gera margt fyrir fátæklinga fyrir þessa peninga. Hefði þeir boðið fram lista til sveitastjórnarkosninga hefði þeir gert kosningaloforð Besta flokksins, „Alls konar fyrir aumingja!“ að sínu. Jesús svaraði vinum sínum því að það ætti alltaf að annast hag fátækra (Markúsarguðspjall 14:3-9). Það á ekki að hugsa um fátæka bara þegar það lítur vel út.

Sagan um ríka manninn og Lasarus ómar af sama stefi (Lúkasarguðspjall 16:19-31). Um langa hríð hafði fátæki maðurinn Lasarus legið við dyr ríka mannsins án þess að vera svo mikið sem virtur viðlits. Hann var svangur og veikur án nokkurs viðurgjörnings nema róta í heimilissorpinu ef hann fyndi þar eitthvað sér til saðningar. Þegar ríki maðurinn, fyrrverandi eftir dauða sinn, sýpur á seyðinu í helju án nokkurrar svölunar, vill hann gera Lasarus að hlaupatík tilveru sinnar. Þrátt fyrir að vera sokkinn dýpra en hægt er að hugsa sér heldur hann áfram að gæta eigin hagsmuna og hygla sínu fólki eftir krókaleiðum braskarans.

Það er hægt að braska með fleira en peninga. Sumir braska með fólk og grunngildi tilverunnar. Ríki maðurinn þekkti sitt heimafólk, enda af sama sauðarhúsi og hann. Eins og hann höfðu bræður hans sagt sig úr lögum við grunngildi samfélagsins. Þeim dygðu ekkert annað en undur og stórmerki til að skipta um pól í hæðina. Þetta er krafan um auðsveipni náttúrulögmála, aftengingu orsaka og afleiðinga, viðleitnin til að móta siðferðið að eigin heimsmynd. Það er enga iðrun að sjá í atferli hans. Það er sagt að það sé of seint að iðrast eftir dauðann. Orðatiltæki á yfirleitt ekki að taka bókstaflega eftir orðanna hljóðan heldur eftir merkingu þeirra. Þessi saga, eins og orðatiltækið, sýnir að það geta orðið þau hvörf í lífinu að ekki verði aftur snúið. Sumt verður ekki aftur tekið og það þarf að taka afleiðingum þess. Það er mikill misskilningur að álíta að iðrun breyti öllu aftur til fyrra horfs. Iðrun er viðbrögð einlægni og heilinda sem umsnúa fyrra atferli okkar og afstöðu. Þegar um iðrun er að ræða duga ekki vettlingatök sýndarmennskunnar. Yfirlýsingar með réttlætingu eigin afsakana eru ámóta hjákátlegar og ætla að slökkva elda vítis í eigin sál með vatnsdropa sem drýpur af fingurgómi. Hvað þá heldur þegar ætlast er til að sá sem afræktur er veiti vinargreiða og prísi sig sælan fyrir að fá að vera með sem peð á spilaborði braskarans. Brask með peninga er alltaf brask með fólk.

Það verður ekki braskað með þá kröfu skýlausu kröfu guðsríkis að við vinnum að réttlæti, höfum miskunnina að leiðarljósi og lifum í auðmýkt (Míka 6:8). „Aumingjunum“ hefur stórlega fjölgað hér á landi með atvinnuleysi og afkomuógn í formi skuldabyrðar, skerðinga og verðhækkana á nauðsynjum og þjónustu. Þeim er stefnt hraðbyri að jöðrum samfélagsins. Óhrein eins og Lasarus sem sleiktur var af hundum, er þeim íþyngt með salti í sárin með því vera upp á góðgerðarstofnanir komin. Velferðarsamfélagið víkur sér undan. Gríðarlegum mannauð er sóað með aðgerðaleysi og velferð fjölskyldna er stefnt í voða með sofandahætti. Á meðan fjórðungar heimila í landinu berst við loga kröfuhafahelvítisins, ýmist í formi lánadrottna eða hækkandi framfærslukostnaðar, heldur vatnsdropadansinn áfram.

Fátækt er ekki einangrað fyrirbæri. Hún er alheimsplága. Nýtt efnahagsundur mun ekki bjarga okkur heldur trúfesti við grunngildi tilverunnar: réttlætið, miskunnsemina og auðmýktina. Með þessi gildi að leiðarljósi getum við metið kosti okkar til ákvarðana og framkvæmda sem virða manngildi og þar með sanna guðsdýrkun. Fátækt er ekki náttúrulögmál. Afléttum ánauðaroki fátæktarinnar.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2372.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar