Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Kristín Þórunn Tómasdóttir og Árni Svanur Daníelsson

Að skilja ríki og kirkju

Dómkirkjan og Alþingishúsið

Það er liðin tíð á Íslandi að stjórnmál, vísindi og listir lúti kenningarvaldi eða sjónarmiðum kirkjunnar. Aðgreining hins opinbera frá trúarsetningum er óumdeilanlegt fyrirkomulag um vestrænan heim og einkenni nútímans. Það þýðir hins vegar ekki að ríkisvaldið sé ósnortið af veruleika trúar og trúfélaga eða tengsl kirkju og ríkis séu ekki til staðar í einhverri mynd á hverjum tíma.

Krafan um „algjöran aðskilnað“ ríkis og kirkju missir að okkar mati marks því hún horfir fram hjá veigamiklum atriðum sem er nauðsynlegt að hafa í huga til að skilja ríki og kirkju.

Í fyrsta lagi snúast tengsl ríkis og kirkju um stöðu trúarbragða í menningunni og hvernig hið opinbera tengist þeim í samfélaginu. Undir þetta fellur hvernig trú, trúfélög og trúarbrögð móta einstaklinginn í nútímanum, viðhorf hans, lífstúlkun og mannskilning. Trú er persónulegs eðlis en samt ekki einkamál hvers og eins. Samspil einstaklings og samfélags er gagnvirkt að þessu leyti og á sér stað í hinu opinbera rými.

Í öðru lagi lúta tengsl ríkis og kirkju að því hvernig hið opinbera hefur bein afskipti af starfsemi trúfélaga í gegnum lagasetningar og reglugerðir. Hér ber að horfa til þjónustu sem ríkið innir af hendi í þágu allra trúfélaga, vegna þess að framlag þeirra til samfélags og velferðar eru metin. Ríkið þjónustar trúfélög m.a. með innheimtu sóknargjalda, sem eru einmitt ekki bein framlög hins opinbera.

Í þriðja lagi þarf að huga að sérstakri stöðu þjóðkirkjunnar sem stærsta trúfélags í landinu með auknar skyldur og ábyrgð þess vegna. Um það hefur Hæstiréttur fjallað og komist að því að núverandi tengsl ríkis og trúfélagsins þjóðkirkjunnar brjóti ekki gegn jafnræðisreglu ríkisins eða séu óeðlileg út frá mannréttindasjónarmiðum.

Annars skiljum við ekki ríki og kirkju.

Um höfundinn19 viðbrögð við “Að skilja ríki og kirkju”

 1. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Ríkið þjónustar trúfélög m.a. með innheimtu sóknargjalda, sem eru einmitt ekki bein framlög hins opinbera.

  Hvað eigið þið við með þessu? Sóknargjöld eru einmitt bein framlög hins opinbera, þó svo að upphæðin sé reiknuð út frá trúfélagaskráningu fólks.

  Auk þess er það vafasamt að segja að krafan um algeran aðskilnað horfi fram hjá þessum atriðum, t.d. erum við sem erum fylgjandi aðskilnaði ekki að horfa fram hjá því “hvernig hið opinbera hefur bein afskipti af starfsemi trúfélaga í gegnum lagasetningar og reglugerðir”, við viljum einmitt breyta því. Við erum einmitt með það í huga, ekki að horfa fram hjá því.

  Sama gildir um þriðja punktinn, að Þjóðkirkjan telji sig eiga rétt á meiru vegna þess að hún er svona stór (og að það sé víst ekki mannréttindabrot, markið sett hátt!), er ekki atriði sem fylgjendur aðskilnaðar horfa fram hjá, við bara teljum þetta ekki vera gildan punkt. Ekki frekar en að stærsti stjórnmálaflokkur landsins eigi að vera sérstakur ríkisflokkur.

 2. Skúli skrifar:

  Takk fyrir þessar góðu grein með margslunginni yfirskrift! Vitaskuld er það “gildur punktur” að stærð þjóðkirkjunnar (í tíma og rúmi) veiti henni sérstöðu. Jafnrétti trúarhópa er ekki það sama og trúfrelsi. Stærð og saga kirkjunnar hefur afgerandi áhrif - rétt eins og er með stjórnmálaflokka sem verða kannske ekki “ríkisflokkar” heldur fá greiðari aðgang að ríkisstjórn - krafti stærðar sinnar.

  Þetta er að sama skapi forsendan fyrir því að hið opinbera vinni með kirkjunni enda heldur kirkjan utan um minningarsjóð þjóðarinnar og þar með er hún ríkulegur þáttur af menningu hennar.

 3. Kristín Þórunn skrifar:

  Hæ Hjalti!

  Takk fyrir punktana þína.

  1. Við meinum einmitt að innheimta sé þjónusta, ekki framlög.
  2. Trúfélög starfa í landinu, á mörgum sviðum. Um þau gilda lög sem hið opinbera setur. Alveg eins og ríkið setur lög um orkuveitur, íþróttafélög, verkalýðsfélög. Það meikar ekki sens að líta svo á að starfssemi trúfélaga eingöngu eigi að vera undanþegin lögum.
  3. Hliðstæðan við stjórnmálaflokk hittir ekki í mark. Við bendum á hæstaréttardóminn sem styður þá sýn að þjóðkirkjan vegna sérstöðu sinnar beri skyldur og ábyrgð sem önnur trúfélög hafa einfaldlega ekki.

 4. Kristín Þórunn skrifar:

  Tek undir það sem Skúli segir enda er það mikilvægt að hafa í huga í öllu samtali um ríki og kirkju á Íslandi hér og nú.

 5. Toshiki Toma skrifar:

  Kæru Kristín og Árni, ég þakka ykkur fyrir þennan pistil.

  Eflaust þurfum við, sem erum virk í þjóðkirkju, að ræða um þetta mál meira og betur en hingað til. “Þjóðkirkjukerfi” er samfélagskerfi sem þjóðinn bjó til löngu fyrir. Þótt það hefi virkað vel í sögunni, er það líka sátt að þetta kerfi er með bæði kost og galla.

  Mér sýnist það sé eftirsóknarvert, ekki bara óhjákvæmilegt, að endurskoða málið almennilega, þannig að almeningur geti séð skýrt hvers konar kostir og gallar eru við í raun. Að endurskoða málið á ekki við hvort maður sé með eða á móti “þjóðkirkjukerfinu”. (allavega er kjarni kirkjunnar fagnaðarerindið en ekki kerfi sem hún notar)

  Og ég óska þess innilega að málið verði tekið upp með frumkvæði kirkjunnar sjálfrar, en ekki vegna þrystingar að útan.
  Að minu mati, skiptir það miklu máli.

  bestu kveðjur,
  Toshiki

 6. Baldvin skrifar:

  Sóknargjöld eru hluti tekjuskatts. Ríkissjóður heldur nú eftir þessum hluta tekjuskatts þeirra sem eru skráðir utan trúfélaga.

  “Innheimta” ríkisins á sóknargjöldum er tálsýn.
  ef um innheimtu félagsgjalda væri að ræða hefði fólk val um að ganga úr félaginu og sleppa þannig við þessi félagsgjöld.
  Sóknargjöldin eru ekkert nema kirkjuskattur. Eða trúvilluskattur, eftir því sem við á. Það að fólk hafi eitthvað val um það hvert þessi skattur rennur er aukaatriði.

  Sóknargjöldin eru því framlag ríkisins til trúfélaga. Það er engan veginn hægt að tala um einhverja “innheimtuþjónustu” í því samhengi.

 7. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Vitaskuld er það “gildur punktur” að stærð þjóðkirkjunnar (í tíma og rúmi) veiti henni sérstöðu. Jafnrétti trúarhópa er ekki það sama og trúfrelsi. Stærð og saga kirkjunnar hefur afgerandi áhrif - rétt eins og er með stjórnmálaflokka sem verða kannske ekki “ríkisflokkar” heldur fá greiðari aðgang að ríkisstjórn - krafti stærðar sinnar.

  Skúli, ég sagði að við sem styðjum aðskilnað teljum það ekki gildan punkt að stærð Þjóðkirkjunnar réttlæti ójafnrétti.

  1. Við meinum einmitt að innheimta sé þjónusta, ekki framlög.

  En það er ekki um neina innheimtu á sóknargjöldum að ræða. Sóknargjöld eru framlög frá ríkinu til trúfélaga, og upphæð hennar ræðst af trúfélagaskráningu fólks. Hvaða “innheimtu” ertu að tala um?

  2. Trúfélög starfa í landinu, á mörgum sviðum. Um þau gilda lög sem hið opinbera setur. Alveg eins og ríkið setur lög um orkuveitur, íþróttafélög, verkalýðsfélög. Það meikar ekki sens að líta svo á að starfssemi trúfélaga eingöngu eigi að vera undanþegin lögum.

  Það talar auðvitað enginn um að trúfélag verði algjörlega undanþegin lögum.

  3. Hliðstæðan við stjórnmálaflokk hittir ekki í mark. Við bendum á hæstaréttardóminn sem styður þá sýn að þjóðkirkjan vegna sérstöðu sinnar beri skyldur og ábyrgð sem önnur trúfélög hafa einfaldlega ekki.

  Af hverju segirðu að líkingin við stjórnmálaflokk hitti ekki í mark? Ég get vel ímyndað mér það að það verði sett einhver sérstök ábyrgð á stóra ríkisflokkinn, t.d. gert alla starfsmenn hans að opinberum starfsmennum. Ef það væri gert þá gætum við huggað okkur við það að tilvist ríkisflokks bryti ekki gegn neinum mannréttindum!

 8. Skúli skrifar:

  Sæll Hjalti. Ég sagði að jafnrétti trúfélaga sé ekki markmið þar sem stærðarmunur er slíkur sem raun ber vitni.

 9. Matti skrifar:

  > Stærð og saga kirkjunnar hefur afgerandi áhrif

  > …

  > Stærð og saga kirkjunnar hefur afgerandi áhrif

  Er ekki í lagi að skoða þá sögu örlítið betur? Við gætum t.d. byrjað á því að skoðað hvernig kirkjan komst yfir þær jarðir sem hún átti í byrjun tuttugustu aldar.

  ps. Ekki segja mér að þessi grein hafi birst á leiðarasíðu Fréttablaðsins?

 10. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  Takk fyrir viðbrögðin Hjalti Rúnar, Skúli, Toshiki, Baldvin og Matti.

  Ég tek undir með þér Matti, það er full ástæða til að ræða eignamál kirkjunnar frekar, margir virðast alls ekki nógu vel upplýstir um það og miklir fordómar vaða uppi.

 11. Matti skrifar:

  Hvaða fordómar vaða uppi um það mál Árni Svanur? Gætir þú nefnt dæmi?

 12. Matti skrifar:

  Já og hvaða almannatengill (var það Einar Karl Haraldsson?) ákvað að kirkjan skyldi taka þann pól í hæðina að ekki væri hægt að aðskilja ríki og kirkju fullkomlega? Hvaðan kemur sú krafa sem þið eruð hér að svara?

 13. Jakob Hjálmarsson skrifar:

  Þakka ykkur Kristín Þórunn og Áni Svanur fyrir að vekja máls á sambandi ríkis og kirkju. Margt um þetta að segja, ég vík aðeins að einu.
  Innheimta sóknargjalda er fyrirkomulagsatriði sem ég tel að hafi leitt til góðs. Við getum talað um það sem “trúfélagaskatt” og jafnað til úrvarpsgjalds sem lengi hefur verið við lýði. Það tryggir betur jafnstöðu trúfélaga en flestar aðrar ráðstafanir sem ég þekki til og get hugsað mér. Ég tel að önnur trúfélög græði ekki síður á þessu en Þjóðkirkjan og valdi því ma að það verði ekki efnahagslegt spursmál hvernig trúfélagsaðild er háttað heldur snerti það sannfæringu manna. Trúlausir menn taka þá einnig þátt í þeim verkefnum sem kirkjur sinna með sínum hætti með því að gjöld þeirra renni í sérstakan sjóð. Hvort hann er sem stendur hliðstæður sóknarsjóðum er svo annað málsem má ræða.
  Bottom line: Sóknargjald og sóknarsjóðir eru nýttir til samfélagslegra verkefna sem flestir geta gert sér verulegt gagn að, óháð trúfélagsaðild.

 14. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Sæll Hjalti. Ég sagði að jafnrétti trúfélaga sé ekki markmið þar sem stærðarmunur er slíkur sem raun ber vitni.

  Já, og ég sagði að við teldum þetta ekki gildan punkt, þar sem að vil teljum stærðarmun ekki réttlæta ójafnréettið. Alveg eins og við myndum ekki sætta okkur við ríkisflokk, þó svo að um stærsta flokkinn væri að ræða.

 15. Baldvin skrifar:

  >Trúlausir menn taka þá einnig þátt í þeim verkefnum sem kirkjur sinna með sínum hætti með því að gjöld þeirra renni í sérstakan sjóð.

  Þetta er ekki staðan í dag. “Sóknargjald” þeirra sem standa utan trúfélaga verður nú eftir í ríkissjóði. Þeir sem standa utan trúfélaga borga því hærri tekjuskatt sem nemur sóknargjöldum annarra. Við greiðum semsagt sérstakan trúvilluskatt beint í ríkissjóð.

  >Sóknargjald og sóknarsjóðir eru nýttir til samfélagslegra verkefna sem flestir geta gert sér verulegt gagn að, óháð trúfélagsaðild.

  Hvaða gagn geta þeir sem standa utan trúfélaga gert sér að þessum samfélagslegu verkefnum trúfélaganna?

  Hver af þessum samfélagslegu verkefnum væri ekki hægt að starfrækja á veraldlegum grundvelli án aðkomu trúfélaga og á þann hátt að allir standi þar jöfnum fótum en þurfi ekki að leita til lífsskoðanafélaga annars fólks?

 16. Felicity skrifar:

  Þakka ykkur Kristín Þórunn og Áni Svanur fyrir að vekja máls á sambandi ríkis og kirkju. Margt um þetta að segja, ég vík aðeins að einu.Innheimta sóknargjalda er fyrirkomulagsatriði sem ég tel að hafi leitt til góðs. Við getum talað um það sem “trúfélagaskatt” og jafnað til úrvarpsgjalds sem lengi hefur verið við lýði. Það tryggir betur jafnstöðu trúfélaga en flestar aðrar ráðstafanir sem ég þekki til og get hugsað mér. Ég tel að önnur trúfélög græði ekki síður á þessu en Þjóðkirkjan og valdi því ma að það verði ekki efnahagslegt spursmál hvernig trúfélagsaðild er háttað heldur snerti það sannfæringu manna. Trúlausir menn taka þá einnig þátt í þeim verkefnum sem kirkjur sinna með sínum hætti með því að gjöld þeirra renni í sérstakan sjóð. Hvort hann er sem stendur hliðstæður sóknarsjóðum er svo annað málsem má ræða.Bottom line: Sóknargjald og sóknarsjóðir eru nýttir til samfélagslegra verkefna sem flestir geta gert sér verulegt gagn að, óháð trúfélagsaðild.

 17. Jakob Hjálmarsson skrifar:

  Er ekki villa í þeirri hugsun að “trúvilluskatturinn” sé ranglæti. Af hverju ætti utantrúfélagafólk ekki að gera eitthvað hliðstætt til gagns í samfélaginu og hinir? að ekki að borga meira heldur jafnt. Mínir punkatar eru að þetta er innihald holls social contract og forðar óheppilegri samkeppni sem sjá má í USA þar sem eimitt kirkja og ríki eru aðskilin.
  Vissulega væri hægt að sinna flestu af þessu á veraldlegum grunni, en af hverju ekki alveg eins svona? Allt verður þetta til fyrir áhuga fólks og hví ekki að virkja hann? (Um leið og mörgu öðru er til skila haldið.)

 18. Jón Yngvi Jóhannsson skrifar:

  Ranglætið í “trúvilluskattinum” felst í því að þeir sem tilheyra trúfélögum - hvort sem þau eru til gagns eða ógagns - geta ráðið því með skráningu sinni hvert sóknargjöldin renna. Það getum við hin trúlausu ekki. Samkvæmt núgildandi lögum má ekki viðurkenna lífskoðunarfélög sem ekki byggja á átrúnaði, breytingartillaga við lögin þess efnis var felld á sínum tíma og ég man ekki betur en þjóðkirkjan hafi staðið gegn því að félög eins og Siðmennt gætu fengið slíka viðurkenningu.

  Ef menn vilja halda í sóknargjaldakerfið er lágmark að viðurkenna þetta ranglæti og það hafa ýmsir innan kirkjunnar líka gert, síðast Hjalti Hugason i pistli hér á tru.is.

 19. Baldvin skrifar:

  Hér er talað um að sóknargjöld séu í raun innheimta en ekki skattur. Að fólk borgi í sitt trúfélag félagsgjöld en sú upphæð sé tekin af tekjuskatti þeirra svona til hægðarauka.

  Þeir sem hafa skráð sig utan trúfélaga haf ákveðið að borga ekki ´trúfélögum félagsgjöld, enda kjósa þeir að vera ekki meðlimir í trúfélögum. Samt borgum við þessi gjöld, nema hvað þau renna í ríkissjóð sem skattur.

  Við borgum semsagt jafnan skatt á við þá sem eru í trúfélagi. Við borgum svo annan skatt þar ofan á sem er eins og annar tekjuskattur og ekki eyrnamerktur nokkrum hlut á meðan trúfólk getur varið þessum peningum til að styrkja sitt trúfélag “til gagns í samfélaginu”.

  Hvernig væri að tekjuskattur væri lægri sem þessum gjöldum nemur og fólk gæti bara varið þessum peningum eins og það vill?

  Til hvers stendur ríkið í “innheimtu” fyrir félagasamtök um átrúnað á yfirnáttúru?

  Væri ekki nær að fólk borgaði bara félagsgjöld í sínu trúfélagi eins og í öðrum þeim félögum sem það kýs að vera meðlimir í? Aðrir gætu þá varið þessum fjármunum öðruvísi, t.d. látið þá renna til góðgerðarmála að eigin vali, eða til hverra annarra hluta sem þasð kýs.

  Ég er hræddur um að aðalástæðan fyrir því að þetta kerfi er enn við lýði sé sú að trúfélögin viti að þau komi til með að missa spón úr aski sínum ef fólk þurfi að taka meðvitaða ákvörðun um að greiða þeim félagsgjöld árlega.
  Það er nefnilega svo að stór hluti þjóðarinnar er algerlega sinnulaus í þessum málum og myndi glaður gera annað við þessa peninga en að halda uppi kirkjubákninu.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 6710.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar