Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Kristín Þórunn Tómasdóttir

Trúverðug kirkja

Barn heldur á krossi

Eitt stærsta vandamálið sem íslenskt samfélag glímir við í dag er spurningin um trúverðugleika. Þótt Hrunið hafi komið illa við efnahag einstaklinga og þjóðar, þá var mestur skaði unninn á trausti sem almenningur ber til stofnanna og opinberra aðila.

Kirkjan hefur ekki farið varhluta af gengisfellingu traustsins í íslensku samfélagi. Um fjörutíu prósent aðspurðra bera mikið traust til þjóðkirkjunnar samkvæmt könnun í febrúar sl. Hluti af uppbyggingu og endurreisn í íslensku samfélagi hlýtur því að vera að stofnanir og starfsfólk líti í eigin barm og spyrji hvað megi betur fara.

Hvað kirkjuna varðar hlýtur spurningin fyrst og fremst að snúast um trúverðuga guðfræði og hvernig kirkjan lifir og iðkar köllun sína í heiminum. Klaus-Peter Jörns, sem var prófessor í praktískri guðfræði í Berlín, og hefur skrifað mikið um helgihald og túlkun, heldur því fram að trúverðuleiki kirkjunnar hvíli fyrst og fremst á einlægni og heiðarleika einstaklingsins sem stígur fram og talar í kirkjunni. Engum dylst hvort sú eða sá sem talar um Guð, Jesú og lífið í heiminum, hvíli fyrir sitt leyti í þeirri trú sem er boðuð.

Honum er í þessu sambandi tíðrætt um sambandið sem við látum í ljós á milli Guðs og hins lifaða lífs hér og nú. Áskorun okkar í dag er að umgangast Guð ekki sem safnvörð sem gætir fyrri opinberanna og undraverka - heldur sem lifandi nærveru og kraft í samfélaginu fyrir heilagan anda.

Viðfangsefni trúverðugrar kirkju sé því að setja trúna fram þannig að hún sé skiljanleg í samtímanum því heimurinn sem við lifum í er heimurinn sem Guð skapar. Við lifum í nútímanum og því er nútíminn það samhengi sem við tölum í.

Framlag frjálslyndrar guðfræði inn í uppbyggingu trúverðugrar kirkju er sýnin á veruleika manneskjunnar sem ein heild en ekki brotin upp í himneskt vs. mannlegt. Það að Guð gerðist maður og lifði í Jesú Kristi er stærsti vitnisburðurinn um samstöðu Guðs með manneskjunni. Holdtekningin leyfir okkur því að trúa að aðstæður okkar séu ævinlega Guði skiljanlegar og umhugaðar.

Þrjú örviðtöl við Klaus-Peter Jörns

Trúverðug guðfræði

Trúverðug kirkja

Áskoranir guðfræðinnar

Klaus-Peter Jörns er aðalfyrirlesari á ráðstefnu um frjálslynda guðfræði í Reykholti 20.-21. maí. Þar mun hann ræða um trúverðuga guðfræði.

Um höfundinn5 viðbrögð við “Trúverðug kirkja”

 1. Birgir Baldursson skrifar:

  Þessi tvö orð, “trúverðug” og “kirkja” eiga ekki saman. Þau eru í mótsögn hvort við annað.

 2. Arna Grétarsdóttir skrifar:

  Takk fyrir þenna pistil sr. Kristín Þórunn sem vekur til umhugsunar. Flott að láta viðtölin koma í lokin!

  Mér finnst gaman að sjá hvernig orðið “kirkja” vísar ekki til stofnunnar eða húsbyggingar heldur til fólksins sem tilheyrir henni. Trúverðugleiki fólks er einmitt í brennidepli þessa mánuðina og þá er tíðrætt um ábyrgð einstaklingsins gagnvart samfélaginu.

  Spennandi ráðstefnan um frjálslynda guðfræði!

 3. Kristín Þórunn skrifar:

  Takk fyrir þessar athugasemdir. Hugtakið kirkja vísar í margar áttir eins og Arna bendir á. Mér finnst hjálplegt að lyfta einstaklingnum upp í þessu samhengi - og þar getur kirkjan (stofnunin og við sem tilheyrum henni) lært af uppbyggingarferlinu og samtalinu í kringum það.

 4. Guðbjörg Ólöf Björnsdóttir skrifar:

  Trúverðug kristin kirkja, finnst mér sú sem boðar af krafti hinn upprisna Jesú frá dauðum og um leið upprisu manna í lífi og dauða.
  Þar er að finna von í örvæntingunni og það þurfa alla manneskjur að heyra.
  Það er Guðs saga til okkar og okkar saga,
  mikilvægasta saga sem hefur nokkurn tímann verið sögð.Við getum sagt þessa sögu í kirkju og utan hennar, hvar sem er. Við öll þurfum að heyra hana,
  heyra þá sögu sem hjálpar okkur gegnum daginn,
  heyra söguna um hinn upprisna Jesú sem réttir okkur hönd sína og gefur okkur frið og upprisukraft.Það var einmitt verið að ræða um þetta í kirkjunni minni í gær.Hafið öll góðar og blessaðar stundir í Jesú nafni!

 5. Kristín Þórunn skrifar:

  Takk og amen!

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3715.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar