Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir

Lifir hann enn?

Gaza 1984Í morgun var messa í húsnæði Alkirkjuráðsins í Genf til að marka Alþjóðaviku bæna fyrir réttlátum friði í Palestínu og Ísrael. Skömmu áður en hún hófst bárust fréttir af fólskuverkum á alþjóðlegu hafsvæði – Ísraelar réðust á skip sem var hluti skipaflota er freistaði þess að flytja hjálpargögn til Gaza svæðisins. Samkvæmt fréttum hafa tíu fallið og margir særst. Í skipunum voru meðal annars fulltrúar frá kirkjum sem starfað hafa með Palestínumönnum.

Árásin ítrekar enn frekar nauðsyn aðgerða til að stuðla að réttlæti og friði fyrir botni Miðjarðarhafs.

Kynslóðir flóttamanna
Fyrir rúmum aldarfjórðungi sat ég í stofu palestínskrar fjölskyldu í Gaza og hossaði yngsta fjölskyldumeðlimnum, litlum dreng. Þau voru flóttamenn; faðirinn, móðirin og börnin voru öll fædd í flóttamannabúðum í Gaza. Þau voru afkomendur Palestínumanna sem flýðu til Gaza í stríði Ísraela og Palestínumanna árið1948. Öll dreymdi þau um betra líf, um menntun og atvinnu. Og um að snúa heim.

Ég var í Gaza í fylgd prests grísku rétttrúnaðarkirkjunnar á staðnum sem starfaði með Kirknaráði Miðausturlanda. Hann sýndi mér hjálpar- og þróunarstarf á vegum Alkirkjuráðsins á þessu litla og fjölmenna landssvæði. Ég man að í flóttamannabúðum voru holræsi opin, en ég man líka hve fólkið var elskulegt og gestrisið.

Þéttbýlasta svæði heims
Gaza svæðið er þéttbýlasta svæði heims. Það er aðeins 41 km á lengd og 6 – 12 km breitt, alls 350 ferkílómetrar. Á þessu litla landsvæði býr nú tæplega 1,5 milljón manns. Þriðjungur þeirra býr í flóttamannabúðum og um tveir þriðju eru skilgreindir sem flóttamenn.

Ég velti því fyrir mér hvað hafi orðið um fjölskylduna sem gaf mér velvild og næringu kvöldstund árið 1984. Hvað varð um litla drenginn sem sat í fangi mínu, svo sáttur og áhyggjulaus, umvafinn ást fjölskyldu sinnar. Fékk hann að læra? Að vinna? Kastaði hann steinum í hermenn þegar Intifada hófst? Hvernig var það að vaxa upp við sífellda ógn og hernám? Varð hann fyrir byssuskoti? Lenti hann í fangelsi? Lifir hann enn? Hann er ekki þrítugur enn ef hann lifir. Skildi hann búa í Gaza – ætli fjölskyldan hafi lifað af árásir Ísraela við upphaf árs 2009?

Við þessu á ég engin svör en ég veit að fyrir flesta flóttamenn í Gaza hefur ástandið bara versnað. Þeir búa ennþá í flóttamannabúðum en það hefur þrengt mjög að þeim.

Risavaxið fangelsi
Umferð um landamæri Gaza var aldrei án eftirlits en fjöldi Gazabúa vann í Ísrael í áratugi og vistir voru fluttar landleiðis. Ísraelar settu á viðskiptabann og lokuðu landamærunum fyrir þremur árum í kjölfar þess að Hamas samtökin náðu völdum í kosningum í Gaza. Síðan hefur Gaza verið kallað risastórt fangelsi. Fjölmörgum hjálparstofnunum, bæði Flóttamannastofnun SÞ, Rauða krossinum og fjölda annarra samtaka hefur verið meinað að flytja margskonar hjálpargögn til Gaza, enda segja Ísraelar að Gazabúar líði engan skort. Eigi að síður er það staðreynd að þar þurfa menn að komast af á fjórðungi þess sem flutt var inn til svæðisins árið 2005 og hjálpar- og mannréttindasamtök hafa lýst ástandinu sem hættulegu heilsufari og lífi. En Ísraelar bera líka fyrir sig öryggishagsmuni. Því skýtur skökku við að meðal þeirra nauðsynja sem Flóttamannastofnun SÞ hefur verið meinað að flytja inn eru ljósaperur, kerti, eldspítur, bækur, hljóðfæri, litir, föt, skór, teppi, kaffi, súkkulaði og sjampó.

Réttlæti og friður - Alþjóðleg bænavika
Þarna er hvorki réttlæti né friður. Á Vesturbakkanum og í Gaza eru mannréttindi brotin daglega og Palestínumenn búa við niðurlægingu og stöðuga röskun á daglegu lífi. Þeir komast ekki á akra til að afla lífsviðurværis, börnum er gert erfitt að komast í skóla, fullorðnum til vinnu; smátt og smátt er verið að skera á alla möguleika á mannsæmandi lífi og dæma fólk til fátæktar.

Alkirkjuráðið hefur starfað meðal Palestínumanna í áratugi og stutt kirkjurnar á staðnum. Lengi var lögð áhersla á margs kyns þróunaraðstoð, læknisþjónustu, þjálfun og menntun en síðari árin einnig með því að senda fólk frá öðrum löndum til að starfa meðal Palestínumanna og hjálpa þeim við daglegt líf á svæðum þar sem öryggi og mannréttindum er ógnað.

Dagana 29. maí - 4. júní stendur yfir bænavika fyrir friði í Palestínu og Ísrael. Bænavikan er á vegum Alkirkjuráðsins og er hvatning fyrir kirkjurnar til að biðja og iðja; til að biðja fyrir og með kirkjunum í Palestínu, til að kynna sér ástandið á Vesturbakkanum og Gaza, til að segja frá því og til að þrýsta á um aðgerðir til friðar. Friður verður ekki án réttlætis. Og fólkið á Vesturbakkanum og í Gaza býr ekki við réttlæti.

Um höfundinn8 viðbrögð við “Lifir hann enn?”

 1. Sigríður Guðmarsdóttir skrifar:

  Kærar þakkir fyrir þetta Adda Steina,
  Það er fyllsta ástæða til að vekja athygli á ömurlegum aðstæðum fólks á Gaza og mannréttindabrotum Ísraelsmanna þar í marga áratugi. Friður verður ekki til án réttlætis.

 2. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson skrifar:

  Sæl séra Steinunn,

  Óbeislað hatur ýmissa kritinna mann í garð gyðinga, sem er aldagamall fjandi, kemur því miður aftur upp á yfirborðið, eftir ferð svokallaðra friðarsinna til Gaza. Einnig í grein þinni, sem er full af fordómum og fyrirframgefnum skoðunum.

  Þú getur lesið um það hér, hvað mér finnst þú og félagar þínir í Samfylkingunni séuð að gera:
  http://www.postdoc.blog.is/blog/postdoc/entry/1062395/

  Kristnir menn er ofsóttir og myrtir hrottalaga á Gasa og í öðrum löndum sem vilja “frið” með því að útrýma Ísraelsríki.

  Það er ekkert réttlæti í þeirri herferð sem þú tekur þátt í gegn Ísraelsríki með trú þína í gíslingu.

  Það kallast hræsni á mínum bæ.

 3. Sigríður Rún Tryggvadóttir skrifar:

  Góð grein hjá þér Adda Steina, það er ótrúlegt að þetta skuli vera satt og skuli eiga sér stað á okkar tímu og á okkar vakt eins og sagt er!

 4. Irma Sjöfn Óskarsdóttir skrifar:

  Þakka þér fyrir þennan góða pistil - aldrei of oft erum við minnt á þetta skelfilega ástand sem ríkir og að friður verður ekki án réttlætis

 5. Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir skrifar:

  Sæll, Vilhjálmur.
  Alkirkjuráðið og Lúterska heimssambandið sem við eigum aðild að vinna með kristnu fólki á Gaza og Vesturbakkanum og styðja við starf þeirra. Ávöxtur starfsins gagnast að sjálfsögðu fleirum en kristnum en þekkingin á ástandinu kemur frá kristnu fólki á staðnum.
  Í yfirlýsingu frá Alkirkjuráðinu segir meðal annars: „We condemn the assault and killing of innocent people who were attempting to deliver humanitarian assistance to the people of Gaza, who have been under a crippling Israeli blockade since 2007.“
  Gagnrýni mín snýr að hernaðaraðgerðum Ísraelsríkis en ekki gyðingum eða gyðingatrú.

 6. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson skrifar:

  Sæl Steinunn Arnþrúður,

  það ber að harma að Lúterska heimssambandið hafi þessa stefnu. Það hefur verið sýnt fram á það með rökum, að þeir sem féllu á skipum þeim sem reyndu að brjóta hafnbann á Gaza fóru þar ekki í friðsamlegum tilgangi.

  Sömuleiðið er hægt að sýna fram á það með mjög haldbærum rökum, að sú lokun (blockade) sem Heimssambandið heldur fram að sé valdið af Ísraelríki, eru staðlausir stafir. Lestu þessa greinargerð http://www.jcpa.org/JCPA/Templates/ShowPage.asp?DRIT=2&DBID=1&LNGID=1&TMID=111&FID=443&PID=0&IID=4123&TTL=The_Myth_of_the_Siege_of_Gaza
  sem ég vona að opni augu þín og annarra sem lesa þetta. Eitt er að Lúterska heimssambandið segið mönnum hvað það á að halda, annað er sannleikur og rök:

  Hernaðaraðgerðir Ísraelríkis gegn Gaza eru því miður einvörðung til komnar vegna þess að Gyðingar/gyðingar þeir sem í Ísraelsríki búa, þurfa að verja sig fyrir þeim ógnarsamtökum sem stjórnar öllu á Gaza. Það er stjórn og samtök (Hamas), sem ekki fer leynt með það, að útrýming Ísraels og gyðinga, hvar sem þeir búa, séu aðalmarkmið þeirra. Þeir þola reyndar heldur ekki tilvist kristinna manna á Gaza, sem þeir hafa ofsótt og myrt.

  Ég á erfitt með að skilja, að Lútherska heimssambandið geti ítreka stutt við stjórn ógnarsamtaka á Gaza sem hefur þannig markmið og heldur þjóð sinni í hers höndum.

  Vænt þætti mér að gæfir mér slóð á þessa yfirlýsingu Heimssambandsins sem þú vitnar í.

 7. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson skrifar:

  Gaza er ekki þéttbýlasta svæði heims eins og þú heldur fram! Ótækt er að íslenskir prestar séu að brjóta boðorðin með því að setja svona vitleysu á prent.

 8. Þórir skrifar:

  Nú fyrir stuttu voru sumarbúðir brenndar til ösku vegna þess að þeim sem stjórna á Gaza vilja ekki að stúlkur og strákar leika sér saman í sumarbúðum. Þar af leiðandi voru þær brenndar til grunna.
  Mörg þúsund börn voru skráð í þessar sumarbúðir og hefði verið mikil gleði fyrir börnin að losna aðeins frá því ástandi sem þar er.
  En þetta gátu menn víst ekki horft upp á enda gegn Islam að strákar og stelpur leiki sér saman?!?!?!?!?!?!?!?! og því fór sem fór.

  Þetta var eitt dæmi um það ástand sem er þarna án nokkurar aðkomu Ísrael.

  Spurning með að hafa næsta pistil um þetta mál ?

  Eða fer það ekki saman við áróðurinn ?

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 5349.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar