Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Þórhallur Heimisson

Kristin trú og samkynhneigð

Það er ýmislegt merkilegt sem kemur í ljós þegar menn lesa orð Jesú.

Til dæmis það að Jesús Kristur minnist aldrei á samkynhneigð eða samkynhneigða. Og hann talar heldur aldrei um kynhneigð manna til eða frá. Þannig að það hvort menn væru samkynhneigðir eða gagnkynhneigðir hefur ekki legið þungt á honum.

Honum var slétt sama.

Í augum Jesú erum við fyrst og fremst Guðs börn, hvort sem við erum hvít eða svört, karlar eða konur, rauðhærð eða dökkhærð, samkynhneigð eða gagnkynhneigð. Það undirstrikar hann oft og iðulega með orðum sínum og gerðum.

Nú er það ekki svo að samkynhneigð hafi ekki verið fyrir hendi í umhverfi Jesú. Allt í kringum Júdeu á dögum Jesú voru margfalt fjölmennari ríki en land Gyðinga. Þar voru til dæmis hinar svokölluðu „Tíu borgir“ þar sem Grikkir réðu ríkjum frá fornu fari. Hjá Grikkjum og í þeirra menningarheimi var samkynhneigð ekkert tiltökumál.

Jesú stytti sér oft leið í gegnum borgirnar tíu á ferðum sínum, en aldrei minnist hann samt á þetta atriði.

Hann hefur þó efalaust þekkt vel fordæmingarorð Gamla testamentisins í garð samkynhneigðra. Um þau voru helstu andstæðingar Jesú aftur á móti ekki jafn þögulir og fordæmdu þeir Grikkina m.a. vegna frjálslyndis þeirra gagnvart samkynhneigðum.

Árásir á samkynhneigða í dag víða um veröldina eru oft dulbúnar í kristilegan búning, með tilvitnunum í Biblíutexta, bæði úr Gamla testamentinu og hinu Nýja. Þeir sem slíkt stunda gleyma því aftur á mót að við kristnir menn eigum að lesa lögmál hins gamla sáttmála í ljósi Jesú. Í fjallræðunni í Matteusarguðspjalli segir Jesús m.a. „dæmið ekki svo að þér verðið ekki dæmdir“ og „Allt sem þér því viljið að aðrir menn gjöri yður, það skulið þér og þeim gjöra“.

Hann undirstrikar þannig að kærleikurinn skuli vera hafður að leiðarljósi í lífinu, kærleikurinn sem dæmir ekki á grundvelli fordóma og vanþekkingar. Þessu voru samtímamenn Jesú margir ekki sammála og þess vegna meðal annars var hann krossfestur.

Krossfesting Jesú undirstrikar enn og aftur að það eru í raun og veru aðeins tvær ástæður sem liggja að baki alls þess sem menn gera: Kærleikur og ótti.

Jesús lét lífið vegna kærleika síns.

Ofbeldismenn krossfestu hann vegna þess að þeir óttuðust boðskap hans.

Hvað ákvarðar gjörðir þínar?

Kærleikurinn styrkir þig og eflir og hann eflir þá sem þú kemur fram við af kærleika.

Óttinn minnkar þig og náunga þinn.

Þú verður að læra að þekkja í sundur kærleikann og óttann og velja annað hvort sem fyrirmynd þína.

Og hér er þumalputtaregla sem þú getur notað: Boðskapur Jesú er alltaf byggður á kærleika, fjallar alltaf um kærleika. Hómófóbía snýst alltaf um ótta. Það er þess vegna ekki hægt að vera bæði kristinn og hómófób. En það er ekkert mál að vera bæði kristinn og samkynhneigður.

Guð er kærleikur.

Þú ert elskaður eins og þú ert.

Óttastu ekki!

Um höfundinn8 viðbrögð við “Kristin trú og samkynhneigð”

 1. Jón Kristniboði skrifar:

  Ég ætla að halda mig við Nýja-Testamentið
  málgagn KRISTINNA manna:

  *1.Korintubréf 6.9*

  Allt þetta kærleikstal í garð kynvillunnar er ekkert annað en meðvirkni.

  ÁVITA HINN VITRA stendur í Orðskviðunum.
  Það er kannski þannig sem lífið getur tekið framförum.

  Alveg eins og foreldri elur upp börn.

 2. Þórhallur Heimisson skrifar:

  Gott hjá þér Jón!
  Lestu Nýja testamentið - og hið Gamla líka.
  Og mundu að lesa í ljósi orða og athafna Jesú Krists.
  Því hann einn er hinn sanni mælikvarði þess sem lesið er.
  Og óttastu ekki orðin hans.

 3. Kristín Þórunn skrifar:

  Góður pistill vegna þess að hann “cuts through the crap” eins og enskurinn segir. Ég er sannfærðari og sannfærðari að þetta er svona einfalt.

  “Ótti er ekki í elskunni”. 1 Jh 4.18

 4. Andri skrifar:

  Ég er alveg sammála þér að það verður að elska alla eins og Jesús elskar alla.

  Svo er ég alveg sammála þér um að karlmenn mega alveg elska karlmenn og konur mega elska konur. Karlmenn mega líka alveg búa með körlum og ákveða að “ganga saman lífsgönguna”.

  Mér skilst líka af lestri í gamla testamentinu að þar sé ekki endilega verið að banna kynlíf milli tveggja karla, heldur að þarna hafi verið að tala um einhverja frjósemisdýrkun annarra trúarbragða (það er dottið úr mér hvaða trúarbrögð það voru).

  Páll postuli virðist líka hugsanlega geta verið að vitna í það þar sem hann talar um að karlmenn breyti eðlilegum mökum í óeðlileg. Þannig gæti það hafa verið hluti af þessari frjósemisdýrkun.

  Ég gæti líka notað samskonar túlkun á þá kafla sem tala um kynvillu og segja þá sem stunda hana ekki eiga eftir að erfa Guðsríki. (þó hún sé aðeins langsóttari, en gæti þó verið rétt).

  En það sem stoppar mig í þessu öllu er að ég sé hvergi minnst á það í Biblíunni að karlar eigi að geta giftst körlum eða að konur geti giftst konum.

  Ég vil alls ekki vera dónalegur eða leiðinlegur en ég get ekki séð að það stemmi við Biblíuna.

  Eins og ég segi þá sé ég ekkert að því að fólk elski hvort annað, en sé ekki heldur að hommar eða lesbíur geti gift sig.

 5. Þórhallur Heimisson skrifar:

  Þakka þér þessi góðu orð Andri. Atrúnaðurinn sem þú vitnar í er frjósemisdýrkunin og vændið tengt Baal og Isis/Atþemis/Astar.

  Varðandi giftingu og hjónaband þá er það svo að hjónavígslan er veraldleg stofnun - ekki heilög í þeirri merkingu að í hjónavígslu sé fólgið einhverskonar andlegt eilíft hjálpræði. Jesús talar aldrei um hjónabandið sem sakramenti - ekki eins og hann talar um skírn og heilaga köldmáltíð.

  Hjónavígslan og fjölskyldu og hjúskaparréttur er þannig eitthvað sem ríkið setur niður eftir bestu getu til að allir þegnar geti notið jafnræðis, jafnréttis og sömu mannréttinda. Kirkjan blessar síðan þá ákvörðun tveggja einstaklinga að ganga í hjónaband og biður Guð fyrir þeim, fjölskyldu þeirra og framtíð allr. Hér á landi gegna prestar báðum hlutverkum við vígslu - eru vígslumenn ríkisins annarsvegar og fyrirbiðjendur kirkjunnar á hinn bóginn. Víða erlendis er þessu skipt þannig að allir gifta sig hjá fógeta, en þeir sem það kjósa biðja síðan um blessun kirkjunnar í kirkjulegri vígslu.

  Ekkert ætti því að hamla giftingu samkynhneigðra - ef ríkið ákveður hana og lögfestir - né fyrirbæn kirkjunnar yfir þeirri vígslu, sbr orð þín um kærleika Guðs til allra manna.

 6. Guðmundur Pálsson skrifar:

  Það er ekki vænlegt til árangurs að snúa út úr fyrir trúuðum mönnum, bjóða fram nýja biblíutúlkun í mjög veigamiklu máli eins og þú gerir Þórhallur og kasta hefðinni eins og ónýtu klæði einungis vegna tíðaranda og tískustrauma. Þetta særir og meiðir marga vinur minn en ég held að þú áttir þig ekki á því.

  Væru samkynhneigðir kúgaður hópur myndi ég og eflaust margir aðrir berjast fyrir þá eins og grenjandi ljón, en nú bregður öðru við því þeir hafa full lagaleg réttindi á við aðra. Og mundu að kirkjan elskar samkynhneigða eins og aðra menn og það dugar heldur ekki að væna hana um óvild. Því hún er engin.

  Þetta útspil um ein hjónabandslög blekkir ekki þá sem þekkja Biblíuna og lesa hana undir ljósi Heilags Anda heldur aðeins þá sem ekki þekkja hana. Er það hugsanlega meiripartur þjóðarinnar? Ég veit það ekki. Prestar þekkja það betur en ég.

  Og kannski er það einmitt akkilesarhæll kirkjunnar að hún hefur stundum skirrst við að segja hver hin rétta kenning er en látið veraldlegt vald og hugmyndafræði úr háskólum leiðrétta sig í smáskrefum um langt skeið. Þetta er sérlega áberandi og kirkjan rennur niður einhvern halla og maður veit ekki hvar þetta endar.

  Nú þegar einstaka sál td. biskupinn reynir að hrópa að nú skulum við standa stöðugir, efast menn. Jafnvel ekki mitt í siðferðilegum ólgusjó hjá þjóðinni er hlutað á hann - menn eru svo uppteknir af pólitísku innihaldi Guðsorðsins og hvernig megi breyta þjóðfélginu eftir eigin kennisetningum.

  Mér finnst líka grátlegt að Íslenska þjóðkirkjan vanhelgast þegar þetta er allt gjört og stendur á útskeri kirkna í heiminum ásamt nokkrum veraldlegum sértrúarsöfnuðum. Þá stöndum við gegn tæplega 2 milljörðum kristinna manna. Hvar verður þá styrkurinn í sýn okkar?

  Hvað segir þá Kristur? Gerir hann eitthvað? Nei, auðvitað ekki neitt sýnilegt en dómurinn fellur á okkur sjálf nákvæmlega á þeirri stundu sem við göngum gegn vilja Hans. Þetta skilja trúaðir menn en hinir veraldlega þenkjandi alls ekki.

 7. Guðmundur Pálsson skrifar:

  Þú fyrirgefur Þórhallur en hér er um stórt mál að ræða; hundrað þúsund sinnum stærra en nokkrar stjórnmálalegar jafnréttiskenningar til vinstri eða hægri.

  Þú getur ekki talað við kollega þína og landslýð allan eins og félagsráðgjafi með sagnfræðiþekkingu. Við höfum nóg af svoleiðis fólki með góðan boðskap. En þú ert prestur og hver á að standa með guðsorðinu ef ekki presturinn?

  Þú veist að Kristur er Orð Guðs sem bendir á vilja Föðurins. Orðinu fylgir Heilagur Andi sé það rétt meint og rétt flutt.

  Ef þú skilur ekki Orðið, afbakar það eða breytir merkingu þess í grundvallaratriðum þá hverfur Heilagur Andi frá því.
  Svona er þetta virðingarfyllst og þetta hafa menn vitað frá örófi. Og hvað verður þá um kirkjuna sem flytur slíkt orð? Vilt þú að þetta verði svar Guðs?

  Vertu hræddur. Vertu Guðhræddur! Það skiptir öllu!

  Sá sem er Guðhræddur óttast auga Guðs og dóm Guðs. Guðsóttinn er upphaf alls góðs segir í bæn hl. Jóhannesar Krysostomus og það er rétt því menn vissu og vita enn að maðurinn reynir alltaf að brjótast frá Guði.

  Hér er bæn hl. Jóhannesar: (hluti)

  Drottinn lýs þú upp hjarta mitt sem er skyggt af illum áformum. Drottinn ég er syndugur maður en þú Guð sem ert miskunnsamur, líttu eftir minni veiklunduðu sál og miskunna þú mér. Drottinn gef Þú að náð þín hjálpi mér svo ég geti lofað Þitt heilaga nafn.

  Drottinn Jesús Kristur, rita þú nafn mitt í lífsins bók og gef þú lífi mínu farsælan endi því að ég er þjónn þinn.

  Drottinn Guð minn, þótt ég hafi aldrei nokkru sinni gjört neitt gott fyrir þig þá ver þú mér góður svo ég hafi góðar undirstöður.

  Drottinn vökva þú hjarta mitt með dögg náðar þinnar.

  Herra himins og jarðar, minnstu mín í Ríki þínu, því ég er þinn syndugi, sneypti og flekkaði þjónn.

  Drottinn gef þú mér gott hugarfar. Drottinn gef þú mér tár og lát þú mig minnast dauðans. Lát þú mig harma syndir mínar og gef þú mér vilja til að viðurkenna syndir mínar. Drottinn gef þú mér auðmýkt, flekkleysi og hlíðni. Drottinn gef þú mér þolinmæði, víðsýni og stillingu.

  Drottinn sá í hjarta mitt fræi þess góða, Guðhræðslunni. Amen.

 8. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Það er þess vegna ekki hægt að vera bæði kristinn og hómófób.

  Þannig að þeir sem aðhyllast kaþólska trú (t.d. páfinn) eru ekki kristnir?

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 5139.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar