Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Karl Sigurbjörnsson

Hvert er hlutverk kirkjunnar?

Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands

Flestar stofnanir íslensks samfélags hafa laskast og eiga að vissu leyti í tilvistarkreppu. Eitt meginviðfangsefni okkar er endurreisn stofnananna, vegna þess að án þeirra lifir samfélagið ekki af. Nú virðist það nánast viðtekinn rétttrúnaður, kredda, að trúin sé einkamál og kirkjan eigi því ekki heima í hinu opinbera rými. En trúin vill ekki vera einkamál, og kirkjan vill ekki heldur vera staðsett á sviði einkamálanna einvörðungu. Hún byggir sannarlega á tilfinningu, en ekki aðeins hinni prívat og einstaklingsbundnu tilfinningu, heldur ekki síður á samfélagsvitund. Á sama hátt og stjórnmálin. Kirkjan er samfélag, iðkun hennar samfélagsmótun og ræktun samfélagssýnar. Í miðdepli kirkjuhússins og iðkunar kirkjunnar er borðið sem vitnar um það að í Guðs ríki sitja allir við sama borð, allir eiga hlutdeild í hinu eina sama brauði, og þannig á það líka að vera í mannlífinu. Guðsdýrkun getur ekki fremur en stjórnmálin verið á sviði einkalífsins eingöngu. Það snýst um samfélag, um gildi, viðmið. Samfélag stenst ekki ef mörk hins leyfilega veiklast og verða svo óskýr að fólk treystir sér ekki til að tjá skoðanir sínar þegar því finnst of langt gengið. Grunngildi samfélagsins, viðmið breytninnar, minningin og sagan týnist ef ekki er til staðar stofnanir sem sjá til þess að sagan sé sögð og vörðunum viðhaldið. Þær stofnanir eru umfram allt heimilin, skólarnir, já, og kirkjan.

Hlutverk kirkjunnar er í grundvallaratriðum opinbert, að viðhalda menningu og minningu þjóðarinnar, að segja sögurnar og iðka þær athafnir sem vísa fólki á það hverju það á að trúa, hvernig það á breyta og hvers það má vona sem góðar manneskjur sem leggja sig fram til hins góða lífs og samfélags. Og ekki síst í erfiðleikum og áföllum samfélagsins og einstaklinganna stendur kirkjan með fólki og samfélagi með huggun og uppörvun, von og trú. „Þegar hendir sorg við sjóinn syrgir, tregar þjóðin öll,“ segir í sjómannasálminum, og það er svo satt, því sorg er ekki bara einkamál, hún er líka samfélagsleg.

Samfélag Vesturlanda, manngildishugsjón, samfélagssýn, stjórnarfar byggir á orðum og verkum Jesú Krists. Af hinum kristnu rótum, sprettur hin vestræna hugmynd um hinn frjálsa vilja og um siðferðislega ábyrgð, um rétt og réttlæti. Það er forsenda lýðræðis og mannréttinda, þar er eldsneytið sem knúði réttindabaráttu fyrri kynslóða og veitir enn afl og styrk í þágu lífsins.

Ríki Guðs kemst ekki á fyrir atbeina stjórnmála og valdakerfa þessa heims, sem ætíð eru háð nauðung og valdbeitingu af einhverju tagi. Hlutverk kristinnar kirkju er að boða Krist og ríki hans, vald og áhrifasvið hans. Kirkjan sér sjálfa sig sem frumgróða og frumburð þess ríkis fyrir trú eina saman, sem heilagur andi verkar í náðarmeðulunum, orðinu og sakramentunum, og sem vekja og næra náungakærleikann.

En þetta er ekki það eina sem Guð hefur með þennan heim að gera. Guð verkar líka gegnum veraldleg verkfæri stjórnmála, efnahagsmála, fjölskyldu osfrv og hann verkar á mismunandi vegu í þessum lífskerfum.

Við verðum ætíð að gæta þess að greina þar á milli svo innihald boðskapar kirkjunnar verði ekki einungis félagslegur boðskapur, enn ein heimspekin eða lífsviskan til að göfga og bæta lífið. Orð og iðkun kirkjunnar vitnar um eilíft líf, eilífan frið og gleði, sem fæst fyrir trú vegna sigurs Krists yfir synd og dauða. Mörgum finnst það tálsýn í samanburði við frið og hamingju þessa heims sem hin félagslegu kerfi, neysla, auðsæld eiga að greiða veg og tryggja. Að greina jarðneskan frið frá himneskum, eilíft hjálpræði frá frelsun þessa heims og þjóðfélagslegt réttlæti frá réttlæti trúarinnar, minnkar ekki gildi þess sem er satt, fagurt og gott hér í heimi og okkur ber að greiða veg. Það eru líka gjafir Guðs og verkan hans, sköpunarverk hans.

Lúthersk kirkja á að standa gegn öllu verkaréttlæti, líka hinu pólitiska. Fagnaðarerindið verður ekki lögleitt, guðsríki ekki komið á fót með pólitískum og félagslegum aðgerðum. Guð er samt að verki í þeim að viðhalda sköpun sinni. Það þarf ekki kristna menn til að skilja þau lögmál sem þar eru að verki, en kristið fólk á að skilja og þekkja kraft Guðs til hjálpræðis! Kristið fólk og það sem ekki er kristið stendur jafnfætis í skikkan skaparans og reglu sköpunarinnar, háð sömu skilyrðum þar, mæld við sama mælikvarða. Náð Guðs í Jesú Kristi mun ekki koma gjaldþrota fyrirtæki á réttan kjöl. Besta ríkisstjórn eða félagskerfi í heimi megnar ekki að fyrirgefa syndir, sigra dauðann, né tryggja eilíft hjálpræði. Það megnar Drottinn einn og fagnaðarerindi hans.

Íslendingar ganga gegnum þrengingar, en við munum ná okkur á strik ef við höldum þreki og þrótti á grundvelli þeirra góðu og traustu grunngilda sem við eigum. Þau eru sprottin af kristinni rót. Þar er manngildishugsunin, mannúðin og jafnræðið, sem sprettur af rót hins kristna mannskilnings og guðsmyndar: Guð vakir yfir og elskar, sér og þekkir þig með nafni, hver sem þú ert. Það merkir það, að innsta eðli tilverunnar, grunnviðmið veruleikans er ekki það sem einatt blasir við á vettvangi mannlífsins: máttur hins sterka, óbilgjarna, græðgi og fýsna, heldur góður Guð, eins og Jesús sýnir hann, viðbrögð hans, vilja og áform. Grundvallargildin eru ekki aðeins falleg orð heldur rísa á þessum grunni. Og í þessu er fólgin leiðarvísir hins góða lífs og viðmið og vörður á vegi hins góða samfélags. Það er líf og samfélag sem er óháð ytri velgengni, heldur þreifar á blessun mitt í andstreymi og erfiðleikum. Ábyrgð okkar er að hlusta og tileinka okkur þessi gildi, virða þau í lífi okkar og leitast við að móta breytni okkar og samfélagi í samræmi við þau.

Gildi, siðgæði, boð og breytni

I: „Ég er á móti boðum og bönnum“
II: Syndin
III: Hin góða regla skaparans
IV: Siðgæði
V: Hin virka umhyggja
VI: Hvert er hlutverk kirkjunnar?

Um höfundinnEin viðbrögð við “Hvert er hlutverk kirkjunnar?”

 1. Jón Kristniboði skrifar:

  HVERT ER HLUTVERK KIRKJUNNAR?

  1.Kirkjan er ákveðinn klettur/grunnur að heilbrygðum samfélögum.
  =Hver á að vera aðal-fyrirmynd heimsins?

  2.Hljótum við ekki alltaf að keppa eftir því fagra, sanna og góða til að göfga heiminn. Þá eru kirkjunnar ágætar sem sameiningartákn hvers samfélags óháð pólitík.

  3.Það er það sem vantar hjá kirkjunni er að opna meira fyrir heimspekilegar-umræður um hin ýmsu mál sem tengjast trúmálum innan hvers safnaðar; það þarf ekki endilega að snúast um einhvern endanlegann sannleik eða niðurstöðu.
  =Það gæti verið stórt skref í rétta átt að fólk ræði eða leysi einhver vandamál saman sem samfélag.
  =Svipað og gert var í Húsinu á sléttunni .
  >Kannski er of mikil áhersla á söng og list á kostnað spekinnar/rökræðunnar.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4475.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar