Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Arna Grétarsdóttir

Getur það verið?

Fjörur

Mikil umfjöllun hefur verið undanfarna daga um stöðu samkynhneigðra gagnvart hjónbandinu. Þjónar kirkjunnar eru töluvert margir sem styðja frumvarp um ein hjúskaparlög sem liggur nú fyrir Alþingi. Þetta eru lög sem þingheimur mun að öllu óbreyttu samþykkja þar sem þverpólitísk sátt ríkir um þau. Þessu fagna ég í mínu kristna hjarta. Fagna því að sjá kristið fordómaleysi, hugrekki, kærleika og réttlæti endurspeglast í lagasetningu hins háa Alþingis.

Það eru ekki allir sammála mér í fögnuði mínum. Það er m.a vegna þess að kristnar manneskjur aðhyllast mismunandi biblíutúlkun. Sú biblíutúlkun sem ég aðhyllist og gengur út á að lesa heilaga ritningu í ljósi Jesú Krists hugnast ekki öllum. Þessa aðferð vil ég kalla skuggsjár aðferð því hún viðurkennir það að við höfum ekki alla þekkingu á vilja Guðs, aðeins þeim sem Jesús birtir. Sumir notast við biblíutúlkun sem flokkar helst ekki textann í heilagri ritningu og lítur minna til samhengis þeirra eða textarannsókna. Þessi aðferð kallast bókstarfs aðferð því hver bókstafur skal hafa sama vægi þrátt fyrir allar mótsagnir. Hér sýnist mér að gert sé ráð fyrir að öll þekking á Guðs vilja sé opinber.

Sú aðferð sem ég nota við lestur á Orði Guðs leiðir mig að þeirri niðurstöðu að ég sem kona get verið prestur þrátt fyrir að ég geti fundið ritningarstaði sem túlka megi á annan veg.

Sú aðferð sem ég nota við lestur heilagrar ritningar leiðir mig að þeirri niðurstöðu að ég sé samkynhneigð sem hluta af Guðs góðri sköpun.

Sú aðferð sem ég nota við lestur Biblíunnar leiðir mig að þeirri niðurstöðu að ég get sem prestur gefið saman í hjónaband fráskilda einstaklinga og skrifað upp á sáttavottorð þegar samband er farið að valda vanlíðan, traust brotið og velferð barna ógnað.

Getur verið að þau sem nota aðra aðferð við lestur biblíunnar en ég, geti samt sem áður komist að sömu niðurstöðu?

Svo virðist vera á Íslandi, nema þegar kemur að afstöðu gagnvart samkynhneigð. Í allri guðfræðilegri umfjöllun í Noregi, sem ég hef kynnt mér, gengur þetta ekki upp. Þau sem aðhyllast ekki þá biblíutúlkun að lesa alla texta í ljósi Jesú Krists, þ.e þau sem lesa með bókstarfs aðferð geta ekki litið á mig sem prest því ég er kona. Þau geta ekki samþykkt að hjónaskilnaðir séu í sumum tilfellum til heilla og líta svo á að samkynhneigðir hafi syndugra eðli en gagnkynhneigðir og verði því að afneita kynhneigð sinni eða í það minnsta þurfi lækningar við. Bókstafs aðferðin svokallaða nær ekki að leiða til mismunandi niðurstöðu í þessum dæmum sem ég tek í guðfræðilegri umræðu í Noregi.

Getur verið að á Íslandi sé ekki allt sagt, að í guðfræðilegum efnum sé ekki allt uppi á borðinu, það kraumi eitthvað undir niðri, skoðanir sem fá ekki að heyrast nema í þröngum hópi, skoðanir sem fá aðeins útrás í umræðunni um kynhneigð. Skoðanir sem myndu varpa skýru ljósi á allt samtal síðustu ára um samkynhneigð innan kirkjunnar.

Getur verið að einhvern langi til að snúa við mér bakinu þegar ég tala af því að ég er kona?

Getur verið að einhver komi ekki til messu til mín þegar að það er altarisganga af því að ég er kona og því ekki fullgildur prestur?

Getur það verið að einhverjum finnist að biskupinn minn hafi framið helgispjöll þegar hann vígði mig til hins heilaga prests- og predikunarembættis af því að ég er kona?

Getur það verið?

Og getur það verið að allar skoðanir eigi rétt á sér?

Nú sjáum vér svo sem í skuggsjá, í ráðgátu, en þá munum vér sjá augliti til auglitis.(1.Kor.13.12a)

Um höfundinn15 viðbrögð við “Getur það verið?”

 1. Jóhanna skrifar:

  Spurning hvort það hafi gengið nærri mannréttindum karlmanna að biskupinn skyldi vígja konu?

 2. Jóna Lovísa Jónsdóttir skrifar:

  Takk fyrir þennan góða pistil Arna mín!

 3. Ragnar Gunnarsson skrifar:

  Sæl Arna
  Mér finnst þú hræra saman ýmsu í þessum orðum, ekki síst vegna þess að þér liggur á hjarta að bera saman kvenprestsmálið og ein hjúskaparlög. Eins og oft í þessu máli er leitað að öfgum meðal andstæðinganna, gjarnan er alhæft út frá þeim og markmiðið virðist vera að gera þau sem eru ósammála öfgafull í augum lesanda og setja þau öll í sama flokk. Þetta er sama aðferð og andstæðingar kirkju og kristni nota oft í sínum málaflutningi.
  Það er ekki auðvelt að lesa orð Jesú í Mt 19 um hjónabandið, segjast svo lesa þau í ljósi hans og fá allt aðra niðurstöðu. „Að lesa allt í ljósi Jesú Krists“ verður stundum að e.k. afstæðishyggju þar sem viðmiðin eru mjög fljótandi og maður fer að velta fyrir sér hver hann sé þessi Jesús sem um er rætt.
  Spurningin um kvenpresta snýr að skikkan og stjórnskipulagi kirkjunnar. Þess vegna eruleiðbeiningar þar um ekki af öllum taldar vera bindandi og þannig hefur það verið hér á landi. En orðin um hjónaband og málefni samkynhneigðra eru annars konar og snúa að grunnhugsun Biblíunnar um þau efni, vægi boðorðanna 10 og ýmsu sem liggur í augum uppi frá hendi skaparans, þó svo öll séum við með brot og bresti á því sviði sem öðrum. Einfaldast er að halda þessu tvennu aðskildu, þannig hefur umræðan verið hér á landi. Þannig verður hún málefnalegust. En ég veit líka vel að þetta er ekkert einfalt fyrir þig hérna hinum megin við hafið.

 4. Guðný skrifar:

  Frábær pistill hjá þér! Og fallegur. Kærleikurinn og og virðingin gagnvart öðrum og annara skoðunum kemur svo vel í gegn. Sem betur fer á kirkjan fólk eins og þig til að starfa fyrir sig.

 5. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Arna, þegar þú talar um að lesa hluti “í ljósi Krists”, þá held ég að þú eigir við að leggja höfuðáherslu á að túlka hluti í ljósi ummæla sem eru eignuð Jesú í guðspjöllunum fjórum. Gætirðu útskýrt fyrir mér hvernig sú aðferð á að gefa til kynna að Jesús hafi ekki þótt samkynja kynlíf vera synd? Ef við kíkjum á ummæli hans þá virðist hann ekki verið beint “frjálslyndur” þegar kom að kynlífssiðfræði og þá virðist eðlilegt að álykta að hann hafi talið samkynhneigð vera óeðlilega og samkynja kynlíf rangt.

 6. María Kristmundsdóttir skrifar:

  Ég tek undir í fögnuði þínum Arna um kristið fordómaleysi, hugrekki, kærleika og réttlæti.
  Takk fyrir þennan góða pistil.

 7. Baddi skrifar:

  “að lesa heilaga ritningu í ljósi Jesú Krists”

  Hvað þýðir það? Er það ekki það sama og að nota hyggjuvitið? Ef svo er, þá er líklegast best að lesa allt sem maður les “í ljósi krists”

 8. Toshiki Toma skrifar:

  Ágæta séra Arna.

  Þakka þér innilega fyrir góða og hlýja innleggið þitt. Mikið sammála þér!

 9. Kristín Þórunn skrifar:

  Hliðstæðan milli þess að vígja bæði karla og konur til prests og þess að hugsa um kirkjulegt hjónaband samkynhneigðra er góðra gjalda verð.

  Alveg eins og Ragnar Gunnarsson segir, þá eru málefni er varða skipulag kirkjunnar ekki bindandi og þurfa því ekki að vera eins í kirkunni. Einungis það er varðar hjálpræði mannsins er bindandi fyrir praxis kirkjunnar.

  Hjónabandið og framkvæmd þess verður seint talið til hjálpræðisatriða samkvæmt okkar kirkjuskilningi. Það er m.a. þess vegna sem þjóðkirkjan getur tekið það skref að vígja samkynhneigða í hjónaband - alveg eins og hún tók það skref að vígja konu til prests fyrir næstum 40 árum.

 10. Arna Grétarsdóttir skrifar:

  Vegna anna hef ég ekki haft tök á því að bregðast við fyrr en nú, en þetta vildi ég segja:

  Takk fyrir hlý orð og líka fyrir góða gagnrýni.
  Það er nú svo að í huga mér hrærist ýmislegt er varða málefni kirkju og kristni, misviturt sjálfsagt en ásetningur minn er alls ekki að mála nokkurn svartari en annan heldur að spyrja spurninga sem ekki hafa verið spurðar nema í samtölum manna á milli.
  Fullyrðingar hef ég lítið af í þessum pistli og set alls ekki alla í sama flokk eða reyni á nokkurn hátt að útmála þau sem eru á annari skoðun en ég, það var í það minnsta ekki ætlun mín. Hins vegar set ég fram tvær mismunandi biblíutúlkunaraðferðir sem eru langt frá því að vera þær einu hér í heimi.

  Ég veit að það ljós sem ég lít Jesú Krist sem ég hef lært að þekkja með lestri heilagrar ritningar og bænaiðkun er litað minni reynslu, þekkingu og uppeldi. Eins er ég fullviss um það að Jesús Kristur frá Nasaret er sá sami í dag og í gær og ekkert getur skilið okkur frá kærleika hans.

  Þá stendur eftir sú spurning sem Sr.Kristín Þórunn leiðir okkur að. Hvaða atriði að lútherskum skilningi varðar hjálpræði mannsins? Spurning hvort einhver taki við boltanum og skrifi pistil:)

 11. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Arna, þú nefnir tvö atriði varðandi “það ljós sem [þú lítur] Jesú Krist”. Annars vegar lestur á biblíunni, og þá er auðvitað spurningin: Hvað í biblíunni sannfærir þig um að Jesús hafi verið fylgjandi hjónabandi samkynhneigðra? Hins vegar nefnirðu bænaiðkun, ertu að segja að þú hafir spurt Jesú í bæn að því hvað honum finnist um þetta mál og að hann hafi svarað? Svo vísar trúað fólk sem að telur Jesús vera á móti samkynhneigð alveg örugglega líka til þess að bænaiðkun þess staðfesti þessa skoðun þeirra.

 12. Arna Grétarsdóttir skrifar:

  Sæll Hjalti Rúnar.
  Mér sýnist þú hafa gaman af að rökræða:) Ég átta mig þó ekki alveg á því hver þín afstaða er til þessa málefnis. Látum það liggja milli hluta.

  Í fyrsta lagi þá segir Jesús ekkert um samkynhneigð í guðspjöllunum það vita þau sem lesið hafa, hins vegar ögraði hann viðteknu kerfi, hann talar máli hinna undirokuðu og stóð með þeim er ofsóttir voru. Hvert er hið æðsta boðorð, var Jesú spurður. Elska Guð og náungann, var svarið. Önnur dæmi má einfaldlega lesa í guðspjöllunum og þú þekkir eflaust.
  Jesús talar aðspurður um skilnaði milli konu og karls og að hjúskpur sé fyrir þau sem höndla kunna. Eins það sem GUÐ hefur tengt saman má MAÐUR ekki sundurskilja. Lestu fyrstu 12 versin í 19 kafla Matt.guðspj.

  Í öðru lagi þá er bænaiðkun mjög persónuleg iðja, eins og þú kannski veist og þekkir sjálfur þá leggur maður í bæn allt sitt líf og alla sína veru í Guðs hendur. Af því að þú ert mér alls ókunnugur þá treysti ég mér ekki til að fara út í þá sálma hér. Ég get sagt ókunnugum að ég elski manninn minn en lýsi ekki nánar okkar sambandi. Vona að þú virðir það við mig.

  Þetta get ég þó sagt: Í minni trúarsannfæringu er ekkert sem snertir mig eða mína samvisku á þann hátt að samkynhneigðir eigi að fá aðra meðferð í okkar samfélagi en aðrir þegnar.

  Það breytir því ekki að við getum verið systkin í Kristi þó þú komist að annarri niðurstöðu.

  Vertu ávallt Guði geymdur.

  ps. skrifað í miklum flýti:)

 13. Arna Grétarsdóttir skrifar:

  Næsta barátta er gegn fátækt og ranglæti. Flottur pistill hjá Sr. Kjartani Jónssyni.

 14. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Já Arna, ég hef gaman af rökræðum.

  En svo við byrjum á bæninni: Ef hún er það persónuleg að þú getur ekki rætt um þetta opinberlega, þá geturðu auðvitað ekki vísað til einhverrar bænaupplifunar til að rökstyðja einhverja skoðun opinberlega.

  Varðandi Jesú, já, þá er ekki neitt haft eftir honum í Nýja testamentinu um samkynhneigð, en hann segir ýmislegt um kynlíf og virðist ekki hafa verið beint “líbó”. Síðan vitnarðu í afskaplega almenn og óljós siðaboð 8t.d. að elska náungann) og það er ekki hægt að álykta út frá þeim einum og sér að Jesús hafi verið fylgjandi hjónabandi samkynhneigðra, þú þarft alltaf að bæta við einhverri afskaplega vafasamri forsendu (t.d. “Jesús hélt að það væri í samræmi við náungakærleika að leyfa hjónaband samkynhneigðra”.)

  Og ég er alls ekki systkini þitt í Kristi ;)

 15. Ragnar Gunnarsson skrifar:

  Nokkur lokaorð. Þó svo hjónanbandið snerti ekki hjálpræðið þá er það ekki þar með sagt að það sétrúnni óviðkomandi, ekki frekar en margt annað sem snýr ekki að hjálpræði mannsins: En það snertir líf okkar hér á jörð og þá er mikilvægt að lifa því í sátt við Guð og menn.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 5088.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar