Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Kristín Þórunn Tómasdóttir og Árni Svanur Daníelsson

Fátækt og bænir

Gegn fátækt

Fyrir utan eldfjöllin eru fyrirbæri ársins 2010 kannski undirskriftalistar þar sem fólk tjáir afstöðu sína og skoðanir til ólíkra málefna. Áskoranirnar til forseta Íslands um að skrifa ekki undir Icesave lögin eru okkur í fersku minni og á Facebook samskiptavefnum hafa ótal slíkir listar sprottið á formi hópa sem helgaðir eru ólíkum málefnum. Þetta eru nokkurs konar bænalistar.

Bænalistarnir breyta engu í sjálfu sér. Réttlætinu verður ekki fullnægt við það að við setjum nafn okkar undir yfirlýsingu þess efnis að fjárglæframenn sem köstuðu mykju á málstað ekkna og munaðarleysingja eigi að iðrast gjörða sinna og hljóta makleg málagjöld.

Bænir sem við beinum hvert til annars og til almættisins gera aðeins sitt gagn ef þær leiða til aðgerða. Bænir, hvers eðlis sem þær eru, eiga að beina okkur til þeirra sem á einhvern hátt skortir það sem þarf til að lifa með mannlegri reisn. Bænalíf sem skilar sér ekki út í lífið er ónýtt bænalíf.

Nú stendur yfir Evrópuár gegn fátækt og félagslegri einangrun. Athygli okkar hefur beinst að fátækt á Íslandi. Hún birtist í ólíkum myndum, en alltaf rænir fátæktin manneskjuna reisn og tækifærum til að blómstra. Fátækt hefur lengi verið staðreynd á Íslandi, en margt bendir til að Hrunið hafi aukið hana. Í dag eiga rúmlega 11.000 börn foreldri án atvinnu og 30.000 Íslendingar lifa í fátækt.

Það breytist ekki neitt þótt við göngum í Facebook hópinn Við mótmælum fátækt á Íslandi. Látum því ekki staðar numið með listana. Nú er tími til að byggja samfélag þar sem allir geta lifað með reisn. Samfélag þar sem við sættum okkur ekki við fátækt. Tökum okkur stöðu með þeim sem eru útilokuð frá nægtaborðinu, búa við kröpp kjör. Vinnum í þágu þeirra og samfélagsins.

Um höfundinn7 viðbrögð við “Fátækt og bænir”

 1. Matti skrifar:

  Er samningur í gangi milli biskupsstofu og Fréttablaðsins um að fá birtar reglulegar greinar á leiðarasíðu?

  Svo þykir mér afskaplega vafasamt að tengja saman bænir til yfirnáttúruvera og undirskriftarlista. Þar þykir mér greinarhöfundar ganga afskaplega langt í viðleitni sinni til að koma ríkiskirkjunni á framfæri.

 2. Kristín Þórunn skrifar:

  Takk fyrir að lesa Matti og deila þínum hugsunum. Fréttablaðið er einn helsti vettvangur skrifa um samfélagsmál frá degi til dags og þar á bæ fá öll sjónamið pláss.

 3. Matti skrifar:

  Kristín, þetta er dálítið villandi. Ég þekki dæmi þess að greinar hafa ekki fengið birtingu í Fréttablaðinu. Þið virðist hafa óvenjulega góðan að gang enda ritstjórinn “ykkar maður”.

  En hvað með bænirnar? Virka þær eitthvað?

 4. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  Bænir sem við beinum hvert til annars og til almættisins gera aðeins sitt gagn ef þær leiða til aðgerða. Bænir, hvers eðlis sem þær eru, eiga að beina okkur til þeirra sem á einhvern hátt skortir það sem þarf til að lifa með mannlegri reisn. Bænalíf sem skilar sér ekki út í lífið er ónýtt bænalíf.

  Þegar bænirnar skerpa sýn okkar og leiða til aðgerða virka þær sannarlega.

 5. Matti skrifar:

  Þannig að bænir virkar einungis á þann sem fer með bænina, hafa engin önnur áhrif á veröldina - hafa engin áhrif á þann “mátt” sem þið ávarpið í bæninni?

  Skil ég ykkur rétt?

 6. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  Þegar þú kveinar yfir því að hafa beðið án þess að bæn þín væri heyrð, leiddu þá hugann að því hve oft þú hefur heyrt hróp hins fátæka án þess að hlusta á hann…Það er ekki vegna þess að þið lyftið höndum ykkar í bæn að þið verðið bænheyrð, lyftið ekki aðeins höndum til himins heldur réttið þær til hinna fátæku.

  Svo skrifaði Jóhannes Chrysostomos fyrir margt löngu (tilvitnunin í hann er fengin úr bréfi sem biskup sendi okkur prestunum í tilefni bænadagsins). Það er þessi vídd eða samtenging bænar og þjónustu sem við erum að fjalla um í pistlinum Matti og við vijlum hnykkja á mikilvægi þess að bæn og þjónusta séu tengdar saman. Bænir eiga að leiða til skarpari sýnar og bænir eiga að leiða til þjónustu. Annað erum við eiginlega ekki að ræða að þessu sinni.

 7. Matti skrifar:

  Gott hjá þér að svara ekki :-)

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4844.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar