Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Karl Sigurbjörnsson

Það sem aldrei bregst

Eldgos í Eyjafjallajökli - mynd: Þórir Guðmundsson

Við höfum horft agndofa á hamfarir náttúruaflanna, eldganginn, vatnsflóðin og ösku og eimyrju falla yfir byggðirnar. Þetta eru ótrúlegir háskatímar og áhrifin munu vara lengi. Við höfum verið minnt á varnaleysi okkar, varnaleysi gagnvart ofurkröftum náttúrunnar, hve ótrúlega varnalaust hið tæknivædda nútímasamfélag er þrátt fyrir allt.

Hugir okkar og fyrirbænir eru með fólkinu sem glímir við afleiðingar eldgossins og öskufallsins. Hamfarirnar ógna nú allri lífsafkomu og framtíð þessa fólks. Þetta er svo grafalvarlegt ástand að við hljótum öll að finna sárt til. En við höfum líka undrast og glaðst yfir þolgæði og þrautsegju fólksins, samhjálp og samstöðu, dugnaði og árvekni björgunarmanna og löggæslu, prestanna, og þeirra mörgu sem sinna almannavörnum og björgunaraðgerðum og auðsýna náungakærleika í verki. Það er aðdáunarvert og sýnir styrk íslensks samfélags. Guð launi það og blessi allt.

Ég hef mælst til þess að beðið verði sérstaklega fyrir þessu fólki og aðstæðum í guðsþjónustum kirkjunnar.

Í Guðs orði segir: „Því þótt fjöllin bifist og hæðirnar haggist mun kærleikur minn til þín ekki bifast …segir Drottinn, sem miskunnar þér.” (Jes. 54.10) Þessu megum við treysta. Þrátt fyrir alla ógn og vá þá er annað afl, annar máttur sem undirtökin hefur í tilverunni. Sá máttur birtist ekki síst þegar umhyggjan kemst að og ræður för, kærleikurinn, vonin og trúin.
Það sem umfram allt skiptir máli fyrir samfélag og menningu, og heill einstaklinga og þjóðar er í raun hvort vilji Guðs fái að ráða í heimi mannsins, hugum og hjörtum, hvort við heyrum rödd hans og hlýðum vilja hans. Við erum öll í hendi hans, almáttugri hendi hans, líf okkar og heill, hagur og ráð.

Þótt fjöllin bifist og hæðirnar haggist þá bregst hans hlífð þér ekki. Undir dýpstu djúpum neyðarinnar ber höndin hans hlý og mild og englarnir hans góðu.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3288.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar