Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Karl Sigurbjörnsson

Siðgæði

Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands

Nú hefur áhugi á siðgæðisumræðu vaxið, og kallað er eftir gömlu gildunum. Einatt virðist samt sem að litið sé á siðfræði sem eitthvað sem stendur utan við okkur, markmið sem maður getur tileinkað sér og notað ef svo býður við að horfa, siðgæði sé eitthvað sem er utan okkar en ekki innra með okkur. En það er einmitt þar sem við verðum að leita svara við hinum siðferðislegu spurningum og álitamálum sem leita á, innra með okkur, í hjarta manns og samvisku. Siðareglur geta aldrei náð yfir allar siðlausar ákvarðanir. Siðuð manneskja veit sig bera ábyrgð.

Manneskjan er sköpuð af Guði og til samfélags við Guð og náungann, og við berum ábyrgð á hvert öðru og lífinu gagnvart Guði. Siðgæðið gengur út frá því að við séum samferða, saman í því að takast á við vandkvæðin og viðfangsefnin, saman í því að komast upp og út úr vandkvæðum og áfram til góðs fyrir lífið og heiminn. Við verðum því að sjá siðgæðislega ábyrgð okkar, spurningarnar um gott og illt, rétt og rangt, frá tveimur sjónarhornum: núsins og eilífðar. Guð talar til manneskjunnar ekki í eitt skipti fyrir öll, heldur í samtali og samverkan sköpunarinnar sem endurnýjar, ummyndar, endurskapar. Hann minnir okkur enn og aftur á kröfuna um að trúa á Guð og elska náungann eins og sjálfan sig.

Jesús kom ekki til að afnema lögmálið heldur uppfylla það, eftir því sem hann segir sjálfur (Matt.5.17). Í og með Jesú erum við meðvituð um hina ströngu kröfu lögmálsins og að við höfum syndgað og erum í þörf fyrir náð og hjálpræði. Við erum öll týndir synir og dætur föðurins á himnum sem elskar og virðir, og fyrirgefur þeim sem snúa sér til hans. Þótt syndin setji enn mark sitt á mannlegt allt og dauðinn sé óhjákvæmilegur þá ber okkur samt að berjast gegn afleiðingum syndarinnar og efla það sem lífið eflir í opinberu og einkalífi í þeim fjölmörgu smáu og stóru siðrænu ákvörðunum sem við tökum frá degi til dags.

Sagan um syndafallið (1.Mós. 3) varpar ljósi á að við höfum misst fótanna á hinni siðgæðislegu braut sem skaparinn hefur markað okkur. Við erum ráðvillt og ringluð andspænis því sem sál og samviska býður, og ótal raddir, áhrif og áreiti laða og kalla. Þess vegna þurfum við á leiðsögn að halda, leiðarkorti og áttavita til að finna veginn heim. Það er að finna í orðinu, bæn og trú. Boðskapur Biblíunnar um náð Guðs og hjálp er eilífur, sígildur, og verður því að boða, kenna og bera áfram. Hann er umfram allt fluttur með sögum, dæmisögum, táknum og vísunum sem við verðum að túlka í ljósi tímans, aðstæðna og krafna dagsins. Að endurtaka í sífellu einstakar ritningargreinar Gamla og Nýja testamentisins í breytilegum aðstæðum merkir ekki endilega að boðorð kærleikans er í heiðri haft. Það er hægt að skaða og spilla og eyða og deyða með orðinu. Það sýnir freistingasagan í Matt. 4. berlega. Djöfullinn var iðinn við að vitna í orðið: „…því að ritað er:….“ Við verðum ætíð að spyrja hvað kærleikurinn til náungans krefst í þessum eða hinum aðstæðunum. Og líta til fordæmis Jesú Krists, sem túlkar ritninguna, varpar ljósi á kröfur hennar og boð.

Gildi, siðgæði, boð og breytni

I: „Ég er á móti boðum og bönnum“
II: Syndin
III: Hin góða regla skaparans
IV: Siðgæði

Um höfundinnEin viðbrögð við “Siðgæði”

  1. sigurjón árni eyjólfsson skrifar:

    Ég vil þakka biskupi fyrir orðin,

    tengl trúar og verka þurfa að vera skýr eins Karl bendir á, maðurinn er fyrst frjáls í þjónustu sinni við náungann og það í kærleika, þegar hann bindur trú sína við Guð. Og þá ætti aðgreinig á milli góðs og ills að vera okkur auðveldari

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3968.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar