Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfundLeita

Baldur Kristjánsson

Framsækin kirkja

Par

91 guðfræðingur þar af um 80 prestar hafa lýst yfir stuðningi sínum við ein hjúskaparlög. Þetta er frábær vitnisburður um framsækna kirkju sem sér í Jesú Kristi þann sem hugsaði hlutina upp á nýtt með kærleikann að vopni. Það er ekki nokkur vafi á því að Jesú Kristur, eins og hann birtist okkur í heilagri ritningu, er einn af þeim sem sáir fræjum frjálsrar hugsunar sem ekki er bundin í orðviðjar gamallar og úreltarar hugsunar. Hann setur líka kærleikann og virðinguna fyrir hverjum og einum á dagskrá.

Það er ekki síst fyrir þessa kristnu hugsun að mannkyni auðnast eftir hörmungar tveggja heimstyrjalda á fyrri hluta 20. aldar að sameinast um mannréttindasáttmála sem byggja á þessari virðingu og kröfunni um rétt hvers manns að fá að lifa í þjóðfélagi þar sem engum er mismunað – þar sem einn ræður ekki yfir öðrum - þar sem mönnum er ekki skákað til eins og skepnum. Það voru reyndar spekingar frá öllum trúarbragðasvæðum heims sem lögðu grunninn að hinum frábæra mannréttindasáttmála sameinuðu þjóðanna (1948) og í kjölfarið kom mannréttindasáttmáli Evrópu.

Hver maður er öðrum jafn, hver maður á jafnan rétt við annann til lífsgæða, engum má mismuna, allir eru jafnir fyrir lögum, karlar eru jafnir konum, kynhneigð þín skiptir ekki máli. Og áleiðis að þessum markmiðum sem svo sannarlega eru byggð á kristnum grunni hafa samfélögin, ekki síst í Evrópu, verið að mjakast, skef af skrefi, stig af stigi, stundum miðað afturábak en aldrei staðið í stað. Því miður hafa kirkjurnar ekki í verið í farabroddi þó um þeirra eigin boðun hafi verið að ræða heldur drattast með og höfuðkirkja heimsins, kaþólska kirkjan, lætur enn eins og konur séu ekki menn, föst í báðar fætur í misskilningi sínum á kenningu sem átti svo stóran þátt í að koma öllu þessu af stað en stóð of lengi í sömu sporum svo hún festist og er að daga uppi eins og tröll um sólarupprás.

Ekki íslenska kirkjan.

91 guðfræðingur hefur staðfest að hann skilji þetta samhengi kenningar og lífs og margir aðrir eru í humáttinni. Það er eðlilegt hins vegar eins og samkoma presta gerði að vísa málum til biskups og kenningarnefndar sem í ljósi þessa skýra vilja mun væntanlega leggja máli þessu lið og gera tillögur um aðlögun helgihalds kirkjunnar að því, eins og biskup hefur boðað. Þessi afgreiðsla preststefnu var þegar öllu er á botninn hvolft alls engin höfnun, heldur liður í vinnuferli sem ber að virða en jafnframt veita aðhald því kenningarnefndir mega aldrei og skulu aldrei verða svæfingarstofnanir framar hafi þær einhvern tímann verið það.

Ég vil óska kirkjunni minni og þjóðinni allri til hamingju með þann vel menntaða og framsækna hóp guðfræðinga sem mótar nú kirkjuna sem ekki ætlar að daga uppi eins og tröll í morgunsólskininu, kirkju semleggur út á nýjar brautir í hugsun sem byggir á þeim fræjum hugsunar sem Jesú Kristur sáði. Þetta er kirkja sem ætlar sér og á að vera í fararbroddi , móta samfélagið til góðs og hefur kærleikann og elskuna, miskunina og mismununarleysið sem sinn helsta áttavita.

Það hefur orðið mikil breyting á prestastéttinni undanfarna áratugi. Sennilega minna embættis- og kenningarnám á baki hvers en meiri áhersla á kærleiksþjónustu og umhyggju fyrir manninum hver sem hann er, hvers kyns hann er, hvaða kynhneigð sem hann hefur og hvaðan hann kemur. Þessi breyting hefur ekki hvað síst átt sér stað í biskupstíð Karls Sigurbjörnssonar sem hefur lagt mjög upp úr kærleiksþjónustu kirkjunnar og leitt til áhrifa ungt fólk sem leitar að kjarnanum, hugsuninni, í boðskap Jesú Krists, tilbúið til að mæta hugsunum og hugmyndum hvers tíma, stíga af einum himni á annan, þorir að vera í samfélagi sem þróast með umræðunni þar sem hver hugmynd er krufin þar sem í rauninni ekkert er heilagt nema kjarninn í boðskap Jesú Krists og þar með hver maður, hvert barn, hver fullorðinn maður.

Um höfundinn4 viðbrögð við “Framsækin kirkja”

 1. Sigriður Ragnheiður Jónsdóttir skrifar:

  Við erum að tala um hjónaband…það verður aldrei milli folks af sama kyni…það er heilagt og af Guði gert til að viðhalda mannkyni..Eg er alfarið a móti þessu og segi mig ur þjóðkirkjunni ef af þessu verður…

 2. Elínborg Sturludóttir skrifar:

  Takk fyrir flottan pistil Baldur!

 3. Baldvin Isfeld skrifar:

  Við erum að tala um hjónaband…það verður alltaf á milli fólks af sama kyni…það er heilagt og af Guði gert til að viðhalda ást á mannkyni.Ég er alfarið með þessu og segi mig í þjóðkirkjuna ef af þessu verður…

 4. Matti skrifar:

  Ég gerði athugasemd við pistilinn á bloggsíðu höfundar, nenni ekki að endurtaka þær hér :-)

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3513.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar