Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Halldór Elías Guðmundsson

Náð

Myndatexti: Hótelherbergi Halldórs 48 klst eftir jarðskjálftann á Haiti, 12. janúar 2010.

Ég gekk inn í andyri Abiding Hope kirkjunnar í Littleton Colorado á laugardaginn var. Ég hafði flogið vestur til Colorado á föstudeginum til að hitta góða vini og sjá sýningu The Resurrection Dance Theater of Haiti. Ég hafði ætlað að sjá sýningu hópsins í Port au Prince, en vegna hamfaranna varð ekki af því.

Þar sem ég stóð í andyrinu og leit í kringum mig, sá ég mér til undrunar kunnulega ferðatösku við einn vegginn. Ég vissi sem var að síðast þegar ég sá þessa tösku hafði hún verið undir borði hótelherbergis á fyrstu hæð á Hótel Florita í Jacmel, Haiti. Ég hafði séð tveggja hæða bygginguna þar sem herbergið var, leggjast fullkomlega saman yfir töskuna. Ég var löngu búin að sætta mig við að ég hefði glatað farangrinum mínum. En núna, tveimur og hálfum mánuði eftir skjálftann var taskan í augsýn.

Mér skilst að hótelstjórinn hafi krafist þess að henni yrði haldið til haga þegar rústirnar voru hreinsaðar úr bakgarði hótelsins. Hann hafði samband við vini mína á Haiti vegna töskunnar og þeir komu henni í hendur starfsmanns Abiding Hope kirkjunnar sem var í Jacmel í byrjun mars til að fylgjast með hjálparstarfi á svæðinu.

Ég fór afsíðis í kirkjunni og opnaði töskuna varlega, ég var glaður yfir að fá dótið mitt til baka, vissulega, en ég skammaðist mín um leið og velti fyrir mér, hvers vegna allur þessi fjöldi fólks sem ég þekki vel og veit að eru að sinna frábæru starfi, hefði notað dýrmætan tíma sinn til að bjarga ferðatöskunni minni. Það eru svo sannarlega mikilvægari verkefni sem bíða á Haiti.

Það er nefnilega erfitt að fá hjálp, taka við góðum gjöfum og treysta öðrum. Á síðustu tveimur og hálfum mánuði hef ég skilið máltækið: „Það er sælla að gefa en þiggja“ á algjörlega nýjan hátt.

Það er svo miklu einfaldara að hjálpa en vera hjálpað, að gefa en vera gefið. Það er erfitt að skilja allt þetta fólk sem hefur gert eitthvað fyrir mig, án þess að gera ráð fyrir að fá nokkuð til baka. Það er ekki nóg með að þau lögðu nótt við dag til að koma mér frá Haiti, í kjölfar jarðskjálftans, fæddu mig, klæddu. og veittu mér skjól. Núna höfðu þau bjargað ferðatöskunni minni úr rústunum.

Í heimi hagsmuna og endurgjalds, er óþægilegt að vera þiggjandi án þess að til staðar séu væntingar um einhvers konar greiðslu. Þannig leitar hugur minn ósjálfrátt að ástæðum fyrir því að taskan mín barst inn í andyri Abiding Hope kirkjunnar. Ég höndla nefnilega illa gjafir án skilyrða.

Slík gjöf er samt það sem allt snýst um.

Um höfundinn4 viðbrögð við “Náð”

 1. Lena Rós Matthíasdóttir skrifar:

  Hjartans þakkir fyrir þennan mjög svo vekjandi pistil þinn, Halldór. Það er svo erfitt fyrir okkur sem sitjum í örygginu að gera okkur ljósa þjáninguna á Haíti. Ferðatöskuna tengi ég þó við og finn hvernig gleðin yfir henni vekur með mér tilfinningu sem gerir mig litla, kannski líka skömmustulega, yfir því að hafa ekki lagt meira til í aðstoð við Haítíbúa. Þannig ætla ég að láta ferðatöskuna þína vekja mig til verka!

 2. Kristinn Jens Sigurþórsson skrifar:

  Þetta er góður pistill og setningin “ég höndla nefnilega illa gjafir án skilyrða” er afar umhugsunarverð.

  Gjöf án skilyrða gerir það líka að verkum að margir telja að það sé þeirra að setja skilyrðin því þeir hafi tekið við gjöfinni og viti hvernig eigi að höndla hana. Sumir telja jafnvel að þeim hafi sérstaklega verið falið að setja þau. Ráðstjórn er að finna í mörgum myndum og margvíslegu samhengi.

  Ef gjöfin er raunverulega án skilyrða þá ætti heldur ekki að setja nein skilyrði.

  Ég bendi á að skírnarskipunin er skilyrt, en þá er líka þess að gæta, að hún er af fræðimönnun talið síðari tíma viðbót. Reyndar lítur Derrida svo á, að ekki sé nein gjöf til án þess að hugmyndin um endurgjald af einhverju tagi fylgi með í farteskinu. Þú ættir kannski að skoða betur ofan í umrætt farteski?

 3. Matti skrifar:

  Er ekki nóg að þeir sem gefa upplifi sælu við það? Það vitna nefnilega allir sem hafa prófað að maður fær dálítið “kikk” úr því að gera góðverk, stórt eða smátt.

 4. Ragnheiður Sverrisdóttir skrifar:

  Reynsla Halldórs Elíasar hefur haft áhrif á marga. Vitnað var í þessa grein í blöðunum og fólk fyllist aðdáunar á að einstaklingar í nauð sé svo annt um náunga sinn. Hvílík fyrirmynd. Mér finnst Halldór Elías hafa gefið mér gjöf með því að segja frá lífsreynslu sinni. Hann notar orðið náð til að lýsa því viðhorfi sem honum er sýnt. Að geta tekið við náð er mikið kraftaverk, eitt af leyndardómum trúarinnar.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3460.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar