Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Arna Ýrr Sigurðardóttir

Ég sé þig

Úr kvikmyndinni Avatar

Í einni vinsælustu bíómynd vetrarins, Avatar, heilsast Na´avi fólkið með kveðjunni:„Ég sé þig “. Þetta er falleg kveðja sem felur í sér viðurkenningu á þeim sem heilsað er og gefur í skyn virðingu og náin tengsl.

Mér datt þessi kveðja í hug þegar ég skoðaði barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, en hann var einmitt til umfjöllunar á Æskulýðsdegi þjóðkirkjunnar, sem var sunnudaginn 7. mars sl. Þar er margt að finna sem okkur finnst sjálfsagt að sé kveðið á um í lögum, t.d. að barn skuli vera barn til 18 ára aldurs o.s.frv., en þar er líka ýmislegt sem flestum okkar finnst að ætti að vera svo sjálfsagt að ekki þyrfti að kveða á um það nokkurstaðar. T.d. að öll börn eigi rétt til nafns. Þetta er svo sjálfsagt að ekki þarf að nefna það!

Eða hvað?

Getur verið að í einhverjum afkimum mannlífsins gerist það að börnum sé ekki gefið nafn? Því miður vitum við að víða er fólk svipt mannréttindum sínum og persónufrelsi. Víða er fólk ekkert annað en nafnlaus fjöldi í augum þeirra sem fara með völdin, víða ríkir virðingarleysi manna í milli, það er víða sem manneskjur umgangast hver aðra í blindni, án þess að sjá. Og þess vegna er nauðsynlegt að festa sjálfsögð mannréttindi í sáttmála og lög.

Þegar barn er fært til skírnar nefnum við nafn þess. Og við áréttum að Guð þekkir barnið með nafni. Því að nafnið er svo stór hluti af hverjum einstaklingi. Það er hluti af persónuleika og sjálfsmynd hverrar manneskju og það greinir hana frá öðrum. Og Guð þekkir okkur með nafni. Í augum Guðs erum við einstök, sérstök og njótum virðingar og elsku.

Guð sér okkur. Og jafnvel þótt við þekkjum ekki meðbræður okkar og systur með nafni, hjálpar Guð okkur að sjá. Sjá hverja einustu manneskju sem við mætum á lífsleiðinni sem dýrmæta sköpun Guðs, einstakling sem er óendanlega mikils virði.

Það má ýmislegt læra af bíómyndum. Kveðja Na´avi fólksins er eitt af því sem við getum tileinkað okkur í samskiptum hvert við annað. Og Guð segir við okkur:„Ég sé þig “.

Um höfundinn2 viðbrögð við “Ég sé þig”

  1. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

    Takk fyrir þennan góða pistil Arna Ýrr. Mér finnst frábært hvernig þú vinnur með dægurmenninguna hér og annars staðar. Meira af þessu!

  2. Petrína Mjöll Jóhannesdóttir skrifar:

    “Ég sé þig” og þakka þér fyrir góð orð.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4016.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar