Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Örn Bárður Jónsson

Afhjúpa veislusiðir okkar hrunið?

Veisluborð

Frá fornu fari hafa tvær föstur einkennt kirkjuárið, jólafasta og langafasta. Jólafasta er nú oftast kölluð aðventa og stendur yfir frá 4. sunnudegi fyrir aðfangadag jóla. Langafasta hefst frá og með öskudegi þegar kjötkveðjuhátíðin eða sprengidagur er að baki. Langafasta stendur yfir í 40 daga frá öskudegi til páska en sunnudagar eru þá ekki taldir með því drottinsdagurinn er jafnan haldinn hátíðlegur og haftalítill í mat og drykk. Íslendingar hafa um aldir hagnast vel á föstunni því þeir hafa séð s-evrópskum kaþólikkum fyrir góðum saltfiski en í löndum þeirra er dregið mjög úr kjötneyslu á föstunni.

Jólafastan fyrr og nú
Jólafastan hjá okkur hefur breyst mikið á s.l. 30-40 árum. Meira starf er nú í kirkjum og á vegum safnaða alla jólaföstuna en áður var og er það vel. Tónlistarfólk leikur listir sínar sem aldrei fyrr og samkomur með trúarlegu ívafi eru haldnar fyrir alla aldurshópa. Jólafastan var hér áður fyrr kyrrlátur undirbúningstími en annríkur og lítið var um óhóf í mat eða drykk. Nú er öldin önnur þegar veitingahús blása til veisluhalda alla jólaföstuna með girnilegum tilboðum. Fastan er m.ö.o. orðin að linnulitlum veislutíma og stendur þar með ekki lengur undir nafni sem fasta.

Ný uppfinning
En nú hafa Íslendingar fundið upp alveg nýja föstu. Hún kemur strax í kjölfar aðventu (átveislutímans) og jóla. Nýársfastan hefst þegar megrunarkúrarnir birtast í fjölmiðlum strax fyrstu dagana í janúar ár hvert! Svona erum við nú skrítin þjóð og fljót að hlaupa eftir tilboðum markaðsaflanna. Ístöðuleysi okkar er alþekkt orðið og við þekkt í heiminum fyrir að vera nýjungagjörn og skjótráð. Oft á tíðum kunnum við okkur lítt hóf eins og dæmin sanna frá tímabilinu sem kennt er við árið 2007. En föstur eru gagnlegar, þær gefa tækifæri til ögunar, til að koma reglu á lífið, setja á það einhver bönd eða beisli.

Óreiða eða skipulag
Prestar sitja líklega fleiri veislur en flestir aðrir. Ég fer í tugi veislna á ári hverju. Slíkt reynir mjög á taumhaldið, skal ég segja ykkur! Mig langar að segja ykkur frá niðurstöðu „rannsókna“ minna á veislum Íslendinga. Veislurnar eru yfirleitt vel undirbúnar, veitingar girnilegar og fagrar á að líta og allt skraut valið af kostgæfni. Heimili eru mörg hver smekkleg, húsgögn og munir bera þess oft vott að þeir hafa verið keyptir af fagurfræðilegu innsæi heimafólks. Öllu er tjaldað til. Gestir mæta yfirleitt prúðbúnir og flestir í góðu skapi. En svo kemur að því að fólki er boðið að gjöra svo vel. Húsmóðirin eða faðirinn býður þá gjarnan fólki að fá sér af veisluföngum með því að segja einfaldlega: „Jæja, gjörið þið svo vel.“ Og þá hefst árásin. Litlar sem engar hefðir virðast vera til og lögmál frumskógarins ríkir þar sem hin „hæfustu“ komast af.

Forgangur
En ég hef einnig verið í veislum þar sem skipulag er haft á hlutunum og elstu gestunum t.d. er boðið að byrja. Skírnarvottar, ömmur og afar, fá þá að njóta forgangs og svo koma aðrir veislugestir koll af kolli, allt skv. röð og reglu. Slíkt ber vott um skilning á því að hinir eldir eigi að njóta virðingar vegna aldurs síns og framlags til þjóðfélagsins og lífsins. Hin ungu þurfa að læra að bíða enda verða þau vonandi fullorðin síðar og fá þá að njóta forgangs. Svona var þetta áður fyrr og er væntanlega enn hjá flestum siðmenntuðum þjóðum.

Tengsl siðhruns og Stóra-Hruns
Er hugsanlegt að ástæður Stóra-Hruns séu að hluta til fólgnar í þessu agaleysi og siðhruni okkar Íslendinga, sem birtist á hátíðarstundum þegar frumskógarlögmálið er látið ríkja. Kannski er þarna komin skýring á margvíslegum vanda okkar sem þjóðar? Væri þá ekki þjóðráð að efla til taumhalds eða föstu á sjálfu frumskógarlögmálinu – föstu til frambúðar?

Pistillinn var ritaður fyrir Vesturbæjarblaðið og birtist í liðinni viku (4. viku febrúar 2010).

Um höfundinnEin viðbrögð við “Afhjúpa veislusiðir okkar hrunið?”

  1. Friðrik J. Hjartar skrifar:

    Takk fyrir þennan pistil. Þetta er merkileg rannsókn og niðurstöður hennar athygliverðar og ættu að vekja marga til umhugsunar.

    Kvðja,
    Friðrik

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4420.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar