Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Magnea Sverrisdóttir

Biblían í barnastarfi kirkjunnar

Börnin fylgjast með

Er þetta ekki aðalbókin? Hún er meira að segja mjúk.“ Þetta sagði sex ára stelpa sem strauk Biblíuna þar sem við sátum í tröppunum fyrir framan altari Hallgrímskirkju og vorum að fara að lesa í henni.

Tilvistarspurningum barna svarað

Það eru forréttindi að fá að vinna í barnastarfi kirkjunnar. Þar verðum við oft vitni að alveg stórkostlegum hlutum, þegar börnin fá að heyra um Guð. Það er fátt eins uppbyggilegt í starfi og að reyna að svara tilvistarspurningum barna. Biblían er einn af leyndardómum trúarinnar sem börn þurfa að fá að velta fyrir sér í öruggu umhverfi.

Hlutverk Biblíunnar mikilvægt

Hlutverk Biblíunnar í barnastarfi kirkjunnar verður sífellt mikilvægara, ekki síst vegna þess að dregið hefur verið úr Biblíukennslu í grunnskólum landsins. Í fræðsluefni sunnudagaskólanna er kerfisbundið farið í gegnum Biblíusögurnar, bæði úr Nýja og Gamla testamentinu.

Ekki nóg að segja Biblíusögur

En það er ekki nóg að segja börnunum Biblíusögurnar, þau verða að fá að upplifa fagnaðarerindið. Við getum ekki heldur reiknað með að þau börn sem mæta til okkar komi í hverri viku allan veturinn. Skilaboðin verða að vera skýr í hverri samverustund. Mannskilningur kristninnar verður að komast til skila, þau þurfa ða heyra að þau eru góð og mikilvæg sköpun Guðs nákvæmlega eins og þau eru. Það er ekki nóg að að börnunum sé sagt að þau séu mikilvæg, umhverfið og andrúmsloftið í kirkjunni verður að vera sama sinnis.

Mikilvægt að heilsa börnum

Miklu máli skiptir hvernig tekið er á móti börnum þegar þau koma til kirkju. Ekki má það koma fyrir að barn, sem heyrir frásögnina um það þegar Jesús sagði „leyfið börnunum að koma til mín“, lendir síðan í því að enginn tekur eftir því þegar það mætir í kirkjuna. Það dregur sannarlega úr áhrifum sögunnar. En ef barninu er heilsað þegar það kemur í kirkju og því sýnd athygli upplifir það Biblíusöguna á trúverðugan hátt.

Besta og stærsta gjöfin

Það sögu- og menningarlega læsi sem börn tileinka sér þegar þau læra Biblíusögurnar er mikilvægt fyrir framtíð þjóðarinnar. Það er hlutverk kirkjunnar og heimilanna í landinu að sjá til þess að börnin fái að kynnast trúarsögu okkar og síðast en ekki síst bestu og stærstu gjöfinni sem hægt er að gefa hverju barni: Trúnni á Jesú Krist.

Pistillinn birtist einnig í B+ sem er fréttabréf Biblíufélagsins í janúar 2010.

Um höfundinn5 viðbrögð við “Biblían í barnastarfi kirkjunnar”

 1. Elín Elísabet Jóhannsdóttir skrifar:

  Takk fyrir góðan pistil

 2. Ásdís Pétursdóttir Blöndal skrifar:

  Takk fyrir að minna okkur á það mikilvæga hlutverk kirkjunnar að kynna Biblíuna fyrir börnunum, mikið er ég sammála þér

 3. Matthías Ásgeirsson skrifar:

  Teljið þið virkilega að Biblían sé við hæfi ungra barna?

  Það sögu- og menningarlega læsi sem börn tileinka sér þegar þau læra Biblíusögurnar er mikilvægt fyrir framtíð þjóðarinnar.

  Er ekki nær að þetta gerist þegar börn eru komin á unglingsaldur og komin með þroska og vit til að skilja Biblíusögur?

 4. Sigrún Óskarsdóttir skrifar:

  Takk fyrir pistilinn Magnea. Margir góðir punktar eins og sá að börnin finni sig velkomin, að það sé tekið eftir þeim og þau boðin velkomin. Aftur: takk:)

 5. Magnús Björn Björnsson skrifar:

  Takk fyrir pistilinn og þau góðu sjónarmið sem hann birtir.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 5655.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar