Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Ásdís Pétursdóttir Blöndal

Á ég að veita barninu mínu trúarlegt uppeldi?

Í fjölmenningar- og fjölhyggjusamfélagi okkar í dag úir og grúir af alls konar trúarskoðunum og mannskilningi enda ríkir trúfrelsi á Íslandi. Mannréttindasáttmáli Sameinuðuþjóðanna kveður á um að allir menn skulu vera frjálsir hugsana sinna, sannfæringar og trúar, Barnasáttmálinn kveður sömuleiðis á um tjáningafrelsi barna og rétt þeirra til sjálfstæðrar hugsunar, sannfæringar og trúar. Krafan um umburðarlyndi er tryggð í Stjórnarskrá Íslands og kemur fram í Lögum um grunnskóla (2008). Skólinn er fræðslustofnun sem er fyrst og fremst ætlað að miðla þekkingu og auka skilning barnanna á kristinni trú jafnt sem öðrum trúarbrögðum og stuðla að umburðarlyndi og víðsýni.

Þetta frelsi er stórkostlegt en er jafnframt vandmeðfarið. Það kallar á fleiri spurningar eins og hvað sé gott uppeldi og hvernig sé best að byggja upp sjálfstæðar og ígrundaðar skoðanir og lífsgildi hjá barninu því rannsóknir sýna að afstöðuleysi geti stuðlað að rótleysi og ósjálfstæði.

Hvað er gott uppeldi?

Hægt er að skilgreina uppeldi sem það að leiða barn til þroska, kenna því, leiðbeina og annast það, með það að markmiði að barnið verði ábyrgur, sjálfstæður og kærleiksríkur einstaklingur. Að miðla líkamlegri og andlegri næringu til barnsins s.s. hollri fæðu, ást og umhyggju og miðla til þess lífsviðhorfum svo það öðlist stað til að standa á svo það viti hvert það er og hvar það stendur. Eitt það mikilvægasta sem barnið fær í uppeldinu er því að eignast traustan grunn, rætur til að standa á, sem það síðan getur endurskoðað eins oft og það þarf á lífsleiðinni.
Mikilvægt er að gera sér grein fyrir að þöggun, þ.e. að tala ekki um hlutina við barnið er líka innræting. Barnið fær þau skilaboð að þeir hlutir sem ekki er rætt um skipti ekki máli og fáfræði býður upp á fordóma. Trúarlegt uppeldi er að miðla trúarskoðunum í orði og verki til barnsins. (Sigurður Pálsson 2001)

Þessar spurningar eru sameiginlegar öllum mönnum og enginn getur lifað í tómarúmi. Trúin er hugmyndakerfi sem hjálpar manninum að skilja sjálfan sig og aðstæður sínar. Með trúarbrögðunum reyna menn að lifa í samfélagi við þau öfl sem þeir trúa á og það hefur áhrif á hugsanir, sálarlíf, tilfinningar, vilja og atferli. 
Mikilvægt er að gera sér grein fyrir að guðleysi er líka viss trúarafstaða því í henni er fólgin ákveðin hugmyndafræði.

Trúarblanda skapar óskýra sjálfsmynd hjá fólki

Menn aðhyllast mismunandi mannskilning og trú, sumir trúa að til sé líf eftir dauðann en aðrir ekki. Sérfræðingar telja að blanda af trúarskoðunum skapi óskýra sjálfsmynd hjá fólki sem leitar þá að öryggi í efnislegum þáttum sem leiði af sér efnishyggju. Nútímamenning kennir mátaðu og prófaðu skoðanir sem getur gert börn ráðvillt.

Erik Erikson taldi mikilvægt fyrir manninn að trúa því að til sé æðri máttur sem hægt sé að treysta, máttur sem skapað hefur heiminn og komið reglu á hann. Væri trúarþörfinni ekki fullnægt í trú á Guð væri hætta á að henni yrði fullnægt hjá leiðtogum eða stefnum, trúarlegum eða pólitískum, sem hefðu alræðistilhneigingu.

Kristin trú felst í trausti á Guði föður sem er kærleikur sem beinist að öllum án manngreinarálits. Kristindómurinn leggur áherslu á fyrirgefningu og sættir milli Guðs og manna og manna á milli. Kristin siðfræði leggur áherslu á góða breytni en snýst ekki aðallega um boð og bönn heldur um hvatningu til að gera náunganum gott.

Mikilvægt er að gera sér grein fyrir að hægt er að misnota trúna eins og allt annað. Trúarlega heilbrigður einstaklingur er sá sem er frjáls í trú sinni (P.Tillich.). Hann getur endurskoðað trúna eftir þörfum, farið frá henni og komið til hennar aftur. Trúarlega óheilbrigður einstaklingur er sá sem er þræll tiltekinna trúarbragða. Trúarlegt óheilbrigði birtist t.d. í einstrengingshætti viðvíkjandi kennisetningum og helgisiðum og viðleitni til að komast í algleymi sem eyðir persónuleika viðkomandi. Trúin getur bæði stuðlað að bættri geðheilsu og stuðlað að óheilbrigði. Freud taldi að heilbrigð trú gæti virkað sem nauðvörn til að takast á við hættur og ógnir heimsins en óheilbrigð trú stuðlað að veruleikaflótta, þráhyggju og sektarkennd.

Innræting lífsgilda forsenda lífsgæða

Innræting heilbrigðra lífsgilda eins og trú og siðferðis er því forsenda lífsgæða en ekki svifting lífsgæða. Trúin, traustið og vonin um að Guð sé með í boðaföllum lífsins, leiði menn í gegnum erfiðleika og samverki allt til góðs, gefur fólki styrk til að takast á við erfiða reynslu.

Því betur sem börn eru að sér í kristinni trú, því meiri möguleika hafa þau á að bera hana saman við aðrar kenningar og þannig hafna henni eða halda á grundvelli þekkingar. Ef börnin eru ekki alin upp í trú, fara þau á mis við það frelsi sem felst í að geta hafnað trúnni á grunvelli reynslu og þekkingar.
John Stuart Mill segir að aðalatriðið í frelsinu sé fræðsla um málefnin og skilningur á kenningum og að við tökumst á um skoðanir okkar. Mill leggur áherslu á að beita rökum bæði með og á móti og sé það betri kostur en að hundsa trúna því þá komi upp hættan á fordómafullu trúleysi í stað ígrundaðrar afstöðu til trúar. Mill bendir einnig á að ótti við trúarofstæki geti tekið á sig mynd trúleysisofstækis.

Leiðandi uppeldi

Rannsóknir benda til þess að leiðandi uppeldi sé það uppeldi sem skilar sterkum og sjálfstæðum einstaklingum út í lífið. Það hvetur til umræðu, notar útskýringar og hvetur börn til að útskýra sjónarmið sín. Leiðandi uppeldi er ekki uppáþrengjandi en veitir valfrelsi, setur skýr mörk og krefst þroskaðrar hegðunar. Langtímarannsóknir benda til þess að börn sem fá leiðandi uppeldi séu líklegri til að ljúka framhaldsmenntun.

Til að barn geti myndað sér heilbrigðar skoðanir þarf það að fá að kynnast hlutunum. Foreldrar þurfa að miðla trú sinni og gildum til barna sinna frá upphafi og trúaruppeldi hefst þegar við fæðingu barnsins, við bæn forelda við vögguna. Foreldrar eru mikilvægustu fyrirmyndir barnsins við miðlun trúarinnar og hlutverk skóla er að fræða en ekki boða trú. Skóli og kirkja leggja áherslu á að foreldrar beri aðalábyrgð á uppeldi barna sinna og eru stuðningur og viðbót við uppeldi jafnt sem trúaruppeldi foreldranna.

Kirkjurnar bjóða upp á fjölbreytt starf, fræðslu og helgihald við hæfi barna á öllum aldri og mikilvægt er að þær veiti foreldrum einnig leiðbeiningar um hvernig miðla megi heilbrigðum trúarskoðunum til barnanna.

Trúin gefur börnum dýrmætar rætur sem þau þurfa svo sannarlega á að halda í lífsins ólgusjó. „Fræð þú sveininn um veginn, sem hann á að halda og á gamals aldri mun hann ekki af honum víkja.“ (Orðskv.22.6).

Um höfundinn18 viðbrögð við “Á ég að veita barninu mínu trúarlegt uppeldi?”

 1. Jón Kristniboði skrifar:

  Eftir á að hyggja tel ég að maður hafi bara haft gott af því að heyra guðs-orð öðru hvoru.

  Ég vil halda í þær hefðir sem við höfum nú þegar
  =Kjölfesta í lífinu og bara til góðs.

  1.Fyrst í sunnudagaskólanum.
  2.Ég vil halda í litlu jólin í grunnskólunum.
  3.Fermingarfræðslan áfangi í fullorðinnamanna-tölu.

 2. Jón Yngvi Jóhannsson skrifar:

  Auðvitað á að halda litlu jólin í skólanum enda norræn jól rammheiðin og heiðingjarnir eru svo umburðarlyndir að leyfa okkur hinum að vera með hvort sem við eru trúuð eða trúlaus. Þeir sem það kjósa fara svo með börnin sín í sunnudagaskóla og vonandi eiga sem flest börn frjálst val um það hvernig þau marka inngöngu sína í heim fullorðinna.

  Annars er búið að svara rökum pistlahöfundar fyrir trúarlegu uppeldi barna og þeirri meinloku að börn okkar sem ekki eru alin upp í trú fari á mis við frelsi sem börn trúaðra njóta ágætlega. Sjá þessa grein Eyju Margrétar Brynjarsdóttur:
  http://www.heimspeki.hi.is/?greinasafn/pistlar/eyja_truaruppeldi

 3. Matthías Ásgeirsson skrifar:

  Greinin sem Jón Yngvi vísar á er góð og svarar þessum pistli algjörlega.

  Ég hef spurningu til Ásdísar.

  > Því betur sem börn eru að sér í kristinni trú, því meiri möguleika hafa þau á að bera hana saman við aðrar kenningar og þannig hafna henni eða halda á grundvelli þekkingar

  Fræðir Ásdís eða kirkjan hennar börn um gagnrýni á kristni? Hafa börnin í kirkjunni einhverjar forsendur til að hafna eða halda kristni á “grundvelli þekkingar”? Væri ekki nær að tala um boðun og áróður í þessu samhengi og þá jafnvel líka þegar við fjöllum um kennsluefni í kristinfræði?

  > Mikilvægt er að gera sér grein fyrir að þöggun, þ.e. að tala ekki um hlutina við barnið er líka innræting.

  Ég skrifaði greinina [Innræting þagnarinnar](http://www.vantru.is/2005/03/09/00.00/) á sínum tíma til að svara samsvarandi orðum biskups. Þar kemst ég meðal annars að þeirri niðurstöðu að augljóslega séu kröfur trúleysingja (og annarra) um hlutlausa kennslu um trúarbrögð alltof hógværar.

 4. Matthías Ásgeirsson skrifar:

  Vísunin á greinina Innræting þagnarinnar er hér: http://www.vantru.is/2005/03/09/00.00/

 5. Arna Grétarsdóttir skrifar:

  Þakka Ásdísi fyrir fræðandi og vel skrifaða grein.

  Að mega velta spurningum lífs og trúar fyrir sér opið og fordómalaust er gríðarlega mikilvægt fyrir börn og unglinga. Að miðla trú og boða trú án þess að þvinga er mín reynsla af boðunaraðferðum kirkjunnar okkar. Þar hefur okkur tekist vel til.

  Samtal og skilningur milli kirkjudeilda og trúarbragða er ríkur þáttur í starfi Æskulýðssamband Þjóðkirkjunnar (ÆSKÞ) og Æskulýðssamband kirkjunnar í Reykjavík (ÆSKR). Þar er t.d boðið upp á námskeið erlendis fyrir ungt fólk sem miða að því að kynnast öðrum trúarskoðunum og hvernig hægt er að eiga fræðandi og einlæg samtöl, þó lífsýnin og trúin sé frábrugðin.

 6. Matthías Ásgeirsson skrifar:

  Að miðla trú og boða trú án þess að þvinga er mín reynsla af boðunaraðferðum kirkjunnar okkar

  Fellur það undir “þvingun” að boða trú í leikskólum og láta taka börn foreldra sem ekki aðhyllast kristni úr hópnum?

  Arnar, fer kynning á öðrum trúarskoðunum ekki fram löngu eftir að búið er að sannfæra börnin um ágæti kristinnar trúar?

  Ég geri ekki ráð fyrir svörum en ég hef þó a.m.k. komið þessum athugasemdum á framfæri.

 7. Matthías Ásgeirsson skrifar:

  Afsakið, þarna átti að standa Arna en ekki “Arnar”.

 8. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Mill leggur áherslu á að beita rökum bæði með og á móti og sé það betri kostur en að hundsa trúna því þá komi upp hættan á fordómafullu trúleysi í stað ígrundaðrar afstöðu til trúar.

  En heldur einhver því fram að þetta lýsi “trúaruppeldi” kirkjunnar? Þar er um einhliða áróður að ræða.

 9. Ásdís Pétursdóttir Blöndal skrifar:

  Kærar þakkir öll fyrir góð viðbrögð við greininni.

  Varðandi fyrstu spurningu þína Matthías hvort kirkjan kenndi börnunum að gagnrýna trúna, vil ég segja þetta fyrst:
  Maðurinn er þannig gerður að hann virðist hafa trúarþörf og trúin lærist á sama hátt og málið þ.e. frá umhverfinu. Enginn getur lifað í hugmyndafræðilegu tómi. Allir menn spyrja sig þessara spurninga: “Hver er ég, hvaðan kem ég, hver er tilgangur minn hér á jörð, hver er Guð, hvert fer ég þegar ég dey ?
  Við getum ekki litið fram hjá þessari grundvallarþörf mannsins. Við kennum börnunum málið og þurfum líka að gefa þeim góðan hugmyndafræðilegan grunn sem rammar inn tilveru þeirra. Það hjálpar þeim að öðlast góða sjálfsmynd. Kristin hugmyndafræði er frábær og svarar öllum þessum grundvallarspurningum sem ég nefndi.
  Hún hefur reynst mannkyninu ágætlega sl.2000 ár, þótt auðvitað séu til undantekningar þar sem um óheilbrigða trú er að ræða. Veist þú Matthías um betri og heilsteiptari hugmyndafræði sem þú myndir vilja kenna börnunum sem undirstöðu undir lífið ?
  Ég vil kalla barnastarf kirkjunnar fræðslu
  frekar en áróður, þetta er skóli. Hann byggir á ígrundaðri námsáætlun. Alveg eins og þú kallar kennslu í skólum kennslu en ekki boðun eða áróður.

  Varðandi það að kenna gagnrýni á trúna, þá sé ég ekki að lítil börn hafi forsendur til að læra um Guð og gagnrýna hann á sama tíma. Það væri ekki uppbyggjandi að mínu viti. En þegar grunnurinn er lagður, þá hafa þau fullt frelsi til að gagnrýna,endurskoða og bera kristindóm saman við aðrar kenningar. Ef þau finna eitthvað betra, taka þau það eflaust upp.

  Ég álít ekki kennslu í kristinni trú og siðfræði áróður og átroðning. Ég álít það siðferðislega skyldu okkar að byggja upp komandi kynslóðir, og og skila okkar kristna arfi til þeirra , svo þær falli ekki í þá freistni að fara trúa á menn eða peninga í stað Guðs. Því menn þurfa alltaf að trúa á eitthvað.

  Bestu kveðjur, Ásdís

 10. Jón Yngvi Jóhannsson skrifar:

  Hvað koma peningar þessu við??
  Heldur þú í alvöru Ásdís að þeir sem ekki trúa á guð séu líklegri til að “trúa á” peninga en kristnir?
  Hvers konar fordómar eru það eiginlega?
  Og hvað er að því að trúa á manninn?
  Ég el mín börn upp við það að trúa á manninn, samfélag manna og það siðferði sem maðurinn hefur þróað með sér. Þannig reyni ég að skila til þeirra arfi mannhyggju og siðferðis sem á rætur langt aftur fyrir kristni og hefur orðið fyrir áhrifum úr ýmsum áttum.
  En þau læra líka um trúarbrögð og hafa alltaf vitað að margir trúi á guð, og að það er upp til hópa gott fólk, alveg eins og við trúleysingjarnir. Því miður hafa þau stundum rekist á börn og fullorðna sem alin eru upp í hinum dýrmæta kristna arfi og hefur ekki verið kennt að bera sömu virðingu fyrir trúleysi.
  Það þarf nefnilega ekki bara að kenna börnum um önnur trúarbrögð, það er sjálfsögð krafa að þau læri líka að til er fólk sem ekki trúir á neina guði. Og það er rakinn dónaskapur að halda því fram að það hljóti þá að trúa á peninga. Ég ætla rétt að vona að það sé ekki kennt í sunnudagaskólum Þjóðkirkjunnar, þá er verr fyrir henni komið en ég hafði ímyndað mér.

 11. Ásdís Pétursdóttir Blöndal skrifar:

  Þú spyrð : hvað er að því að trúa á manninn ?

  og ég spyr á móti hvað er að því að trúa á Guð ?

 12. Jón Yngvi Jóhannsson skrifar:

  Einfalda svarið er: Vegna þess að það er engin skynsamleg ástæða til þess að gera ráð fyrir að guð sé til.

  En fólk má alveg trúa á guð eða guði fyrir mér, það er ríkisrekinn skipulagður áróður sem fer í taugarnar á mér, ekki síst þegar hann beinist gegn börnum og gefið er í skyn að þeir sem ekki trúa á guð eða guði séu verri uppalendur en aðrir.

  Nú er ég búinn að svara þinni spurningu Ásdís. Ég bíð spenntur eftir að þú svarir mínum.

 13. Matthías Ásgeirsson skrifar:

  Ásdís, ertu með svari þínu ekki í raun að segja að börnin aðhyllist kristni ekki “á grundvelli þekkingar”?

  Þú segir nefnilega í grein þinni “þöggun, þ.e. að tala ekki um hlutina við barnið er líka innræting”. Ertu ekki að segja að þið innrætið börnum kristni þar sem þögnin er látin tala fyrir önnur sjónarmið?

  Veist þú Matthías um betri og heilsteiptari hugmyndafræði sem þú myndir vilja kenna börnunum sem undirstöðu undir lífið ?

  Já, svo sannarlega. Vísindi, heimspeki og manngildisstefna. Ég sé satt að segja ekki hvernig hindurvitni geta verið undirstaða undir lífið, að mínu mati þurfa undirstöður að vera traustar.

 14. Matthías Ásgeirsson skrifar:

  Smá viðbót:

  Kristin hugmyndafræði er frábær

  Þú hlýtur að gera þér grein fyrir því að þetta er afar umdeilt. Margir (þ.m.t. ég) halda því fram að kristin hugmyndafræði sé ömurleg. Þessi hugmyndafræði um erfðasyndina, að siðferði okkar byggist á mannfórn, að eftir dauðann fari sumir (þeir sem á hann trúa) til himnaríkis og að til sé almáttug vera sem fylgist með öllu (líka því sem fólk hugsar) og svarar bænum sumra (fyrst og fremst ríkra vesturlandabúa).

  Nema þú meinir eitthvað allt annað með kristinni hugmyndafræði.

 15. Kristján Atli skrifar:

  Ásdís segir (ummæli 9):

  „Allir menn spyrja sig þessara spurninga: “Hver er ég, hvaðan kem ég, hver er tilgangur minn hér á jörð, hver er Guð, hvert fer ég þegar ég dey?““

  Þetta er að mínu mati forsenda þeirrar rökvillu sem trúaðir gerast oft sekir um. Ásdís talar eins og það sé gefið að Guð sé til og því þurfi einungis að spyrja hver hann er, eins og eini tilgangur leitarinnar að Guði sé að kynnast honum.

  Efasemdarmenn og trúlausir eiga það hins vegar sameiginlegt að í stað þess að spyrja „hver er Guð“ spyrja þeir „er Guð til“. Þar er reginmunur á því þeir sjá að fyrst þarf að sannreyna það að umræddur Guð sé til áður en hafist er handa við að reyna að kynnast honum nánar.

  Í þessu liggur munurinn á trúuðum og efasemdarmönnum/trúlausum. Ásdís leggur til að börnum sé innrætt að þekkja kristna trú út frá þeirri gefnu forsendu að Guð sé til, á meðan efasemdarmenn og/eða trúlausir leggja til að börnum sé kennt að leita staðreynda í þessu máli eins og öðrum.

  Þess vegna er ekkert frelsi fólgið í því að veita barni trúarlegt uppeldi. Ef þú innrætir barn með þeirri „staðreynd“ að Guð sé til mun það eiga erfiðara með að draga þá staðreynd í efa, og situr þá eftir einungis sá valkostur að skipta úr einu trúfélagi í annað en ávallt innan mengis þeirra sem trúa á Guð.

  Það er ekkert frelsi fólgið í því að velja á milli skoðana sem byggðar eru á sömu staðreyndavillu. Kannski er Guð til, kannski ekki, þannig ætti að kenna barninu um trúarbrögðin. Finni barnið svo hjá sjálfu sér að það trúi á Guð getur það kannað heim trúarinnar á eigin forsendum, en sú trú verður þá líka heil og traust því barnið komst sjálft að þeirri niðurstöðu, í stað þess að vera skilyrt til að trúa á Guð frá byrjun.

 16. Matthías Ásgeirsson skrifar:

  Dálítið leiðinlegt að sjá að þessi umræða hefur dagað upp en svosem ekki óvenjulegt á þessum vettvangi.

  Grein dagsins á Vantrú er svar við þessum pistli.

 17. Ásdís Pétursdóttir Blöndal skrifar:

  Þakka ykkur fyrir sýndan áhuga og athyglisverð viðbrög við greininni minni. Þetta eru mjög áhugaverðar rökræður sem eiga fyllilega rétt á sér.Málið snýst ekki um rétt eða rangt heldur að við höfum ólíkar jafnréttháar skoðanir á trúmálum því vissulega ríkir trúfrelsi á Íslandiog ég fagna þessum skoðanaskiptum.

  Mig langar að varpa fram einum nýjum vinkli inn í þessa umræðu sem ég upplifi daglega í starfi mínu sem djákni:

  Þegar líður að lífslokum eru þeir ríkir sem hafa fengið trúaruppeldi í æsku og ræktað trú sína. Trúin gefur þeim mikinn styrk á síðustu metrum lífsins og iðkun trúarinnar gefur þessum einstaklingum gleði. Það er eins og þau hitti gamla vini þegar þau heyra biblíuvers og sálma sem þau þekkja og það gefur þeim góðar tilfinningar. Þau eiga jafnframt góða heimvon þegar þessu lífi líkur og kvíða síður dauðanum en þeir sem enga trú eiga og bænin og trúin hjálpar þeim í baráttunni við þunglyndi, kvíða, óöryggi og einmanaleika sem sækir á marga aldraða þegar heilsan brestur og endalokin nálgast. Þá er gott að eiga Guð að í fararteskinu.

 18. Jón Yngvi Jóhannsson skrifar:

  Ég sé ekki hvernig þetta tengist umræðunni Ásdís. Áttu við að við eigum að ala börn upp í trú vegna þess að þá verði svo gott fyrir þau að eiga guð að þegar dauðinn nálgast?

  Það þykja mér ósköp þunn rök. Ég veit ekki betur en fjöldi trúleysingja hafi yfirgefið jarðlífið í fullkominni sátt án þess að hafa yfir Biblíuvers. En fyrst þú ert aftur komin á kreik væri fróðlegt að lesa svör þín við þeim spurningum sem bornar hafa verið fram í umræðunni hér að ofan, ég spurði t.d. nokkurra spurninga í athugasemd nr. 10 sem lúta að fordómum í garð trúleysis og tengingu þess við peningahyggju.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 5931.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar