Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

G8 hópurinn

Úr álögum

G8 hópurinn

Hvernig bregst fólk við erfiðri lífsreynslu? Áföll valda böli, sem þó getur orðið til góðs ef lærdómur er dreginn af. Er hrun fjármálastofnana Íslendinga aðeins bankamönnum að kenna? Nei, áfall samfélagsins okkar er svo víðtækt að ljóst er að ýmsir stjórnmálamenn, embættismenn og starfsmenn í opinberum stofnunum brugðust. Þá ber fjöldi fólks utan fjármálageirans og hins opinbera einnig ábyrgð: Stjórnendur fyrirtækja og efnamenn sem héldu því fram að gagnrýnendur væru hælbítar með annarlegar hvatir. Fjölmiðlar okkar brugðust einnig gagnrýnis- og eftirlitshlutverki, sem við ætlum þeim að gegna.

Langtímaþróun?

Hvenær hófst íslenska hrunið? Var það 29. september 2008? Nei, það hófst raunar mörgum árum áður. Íslenskt samfélag hefur líklega verið að veiklast innan frá í marga áratugi, glata mannást sinni og samfélagssýn. Í staðinn hefur komið sjálfshyggja og sjálfsupphafning. Eigingirni í bland við fjársókn er skelfileg blanda sem líkja má við ham, sem lagður var yfir Ísland. Afleiðingin varð samfélag undir blekkingarvef, þjóðfélag í álögum.

Af hverju þessi einhæfa samkeppnisáhersla, sem svo margir treystu á? Af hverju vaxtartrúin, sem var boðuð svo einstrengingslega að enginn mátti efast? Af hverju svona einföld trú á að markaðurinn leiðrétti öll mistök og ekki þyrfti grunnreglur eða skýr mörk? Af hverju svona einfeldnisleg mannhyggja, þunnur mannskilningur og barnaleg afstaða til samfélagskrafta?

Í allra þágu

Um aldir hafa Íslendingar heyrt klassískan, kristinn boðskap um að einstaklingurinn væri ekki aðeins til fyrir sjálfan sig, heldur væri hann tengslavera sem bæri einnig skyldur í samfélagi. Sá boðskapur er enn gildur þó einstaklingshyggja liðinna áratuga hafi varpað rýrð á klassíska og kristna samfélagssýn. Hlutverk mannsins er ekki aðeins að þjóna sjálfum sér og treysta eigin hag, heldur að tryggja að fé, eignir og önnur gæði verði samfélaginu og þar með öllum til góðs. Í upplausn og óvissu hefur trúarvitið, guðfræðin, margt að segja um tilgang, samhengi og eðli manna og samfélags.

Menning og verkefni

Endurbygging Íslands er ekki verk eins árs heldur krefst hún ára – jafnvel áratuga. Stjórnmál á Íslandi þarf að endurnýja og sömuleiðis embættiskerfi þjóðarinnar. Raunveruleg þrískipting ríkisvaldsins er nauðsyn. Fjölmiðla á Íslandi þarf að efla. En ávinningur samfélagsins verður enginn ef ekki verður unnið með gildagrunn þess, snúið frá þeirri sjálfhverfni og síngirni, sem hefur ruglað marga og valdið hruni á Íslandi. Menning er uppistaða og vefur mikilvægra þátta og atriða, sem samfélag þarfnast til að lifa og þroskast. Í menningu felast t.d. viðmið, hugmyndir, sagnir, sögutúlkun, fyrirmyndir, hátíðir, trúar- og sið-gildi. Þegar vefurinn er skaddaður, gildin farin á flot og leikreglur verða óljósar er ekki aðeins illt í efni. Þá er hætta á ferð. Eitt af því sem hefur ruglast er sjálfsskilningur í samfélagi okkar. Mannúð, kærleikur, hefur veiklast og rýrnað.

Nú er það verkefni okkar allra að ganga erinda réttlætis á Íslandi. Því verður ekki komið á með því að breyta lögum eða þreyta kappræður á Alþingi. Við þurfum að vitja menningar okkar, styrkja menntun samfélagsins, stæla innrætið, efla samræður, hvetja til gagnrýni, virða gildi, visku og trú.

Góðærið var ekki ávöxtur ræktunarstarfs Íslendinga heldur ávextir tíndir úr annarra garði. Hrunið er afleiðing heimsku. Nú eru álögin fallin og okkar hlutverk er að horfast í augu við ástæður og afleiðingar skaðans og læra af. Við eigum ekkert og áttum ekkert. Allt er að láni frá Guði, skapara alls sem er. Í okkar ábyrgð felst að fara vel með. Sú ábyrgð varðar það sem er í samhengi okkar en hún nær þó víðar. Við eigum að fara vel með hvert annað, með stofnanir samfélagsins, náttúruna og allt lífríkið. Álagahamur fellur þegar menn gangast við ábyrgð sinni.

Anna Sigríður Pálsdóttir,
 Arnfríður Guðmundsdóttir,
 Baldur Kristjánsson,
 Hjalti Hugason,
 Pétur Pétursson,
 Sigrún Óskarsdóttir,
 Sigurður Árni Þórðarson, 
Sólveig Anna Bóasdóttir

Um höfundinn2 viðbrögð við “Úr álögum”

  1. Sigurjón Árni Eyjólfsson skrifar:

    Þakka fyrir, það er mikilvægt hjá ykkur að benda á að maðurinn er tengslavera.

  2. Sigurður Árni Þórðarson skrifar:

    Og aðalatriði til skilnings á trú og sið.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3216.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar