Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Bernharður Guðmundsson

Trúðarnir og jólasagan

Jesús litli - mynd af vef Borgarleikhússins

Jólasagan er tekin til skoðunar núna á aðventunni í Borgarleikhúsinu og það er gert með mikilli virðingu og væntumþykju. Trúðarnir Úlfur og Barbara, sem leikararnir Bergur Þór Ingólfsson og Halldóra Geirharðsdóttir túlka svo fallega, hafa tekist á við margvísleg trúarleg efni áður. Þau tjáðu okkur Píslarsögu Krists fyrir nokkrum árum, Dauðasyndirnar sjö, í fyrra og trúarlegar tilvistarspurningar á Kirkjudögum 2001. Núna er það Jesús litli sem þau fjalla um, jólasagan og eftirmálar hennar, flóttinn til Egyptalands og fleira.

Nú hafa þau fengið einn fjölhæfasta leikhúsmanninn Benedikt Erlingsson í lið með sér sem leikstjóra og handritshöfund og einnig söngkonunna Kristjönu Stefánsdóttur,sem ljómar af gleði, nýtur sín afarvel og veitir trúðleiknum nýja vídd með tónlist sinni.

Það er mikið hlegið á sýningunni og oft brosað, enda er það ein forsenda trúðleiksins að láta öllum líða vel, áhorfendur verða töluverk virkir. Þeir fá að kynnast enn og aftur þeim galdri sem gerist þegar barn fæðist í heiminn - og þeim er hjálpað til að skynja það stóra og óskiljanlega þegar Guð almáttugur birtist sem mannsins barn, það hjálparlausasta í sköpun hans.

Þau höfða til barnsins innra með okkur, því það er forsenda þess að geta tekið á móti Guðs ríki.

Öll ytri gerð sýningarinnar, ljósin, leikmyndin, styður að sögunni sem sögð er á þennan vekjandi hátt að jólasagan fær nýja fleti í vitund áhorfandans. Efnið er afar viðkvæmt , en það nýtur fullrar virðingar, þótt það missi þann upphafna hátíðleika sem oft einkennir frásögnina í kirkjunum.

Trúðarnir benda rækilega á að María, Jósef, hirðarnir, hermennirnir, Heródes og allt annað fólk sem kemur fyrir í sögunni, er einmitt venjulegt fólk sem er í hinum óvenjulegustu aðstæðum,

Það er full ástæða til að hvetja presta og söfnuði til þess að sjá þessa sýningu núna á aðventunni, það er góður undirbúningur fyrir jólin. Þegar við gengum út úr leikhúsinu vorum við öll með bros á vör og blik í auga - og trúlega tilhlökkun í hjarta.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3105.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar