Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Yrsa Þórðardóttir

Rétturinn til tómstunda

Tröppur

Tuttugasta og fjórða grein mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna hljóðar svo:Hverjum manni ber réttur til hvíldar og tómstunda, og telst þar til hæfileg takmörkun vinnutíma og reglubundið orlof að óskertum launum.

Aðrar þýðingar eru til, þar sem ýmist er sagt að allir eigi rétt á hvíld og tómstundum eða að hver manneskja eigi þennan rétt. Pistill minn í dag mun ekki gera upp á milli manna, allra eða manneskjunnar, heldur langar mig að einblína á tómið. Tómstundir og frí og hvíld, það að gera ekki neitt og hafa tóm til að fá nýjar hugmyndir. Eða melta þær gömlu, skipta um skoðun, láta okkur dreyma.

Ég lærði það í grískutíma forðum daga í menntaskóla að skóli væri dregið af grísku orði sem merkir hvíld, enda voru það ekki nema synir heldri og ríkari manna sem höfðu tök á því að menntast og sitja í skjóli lauftrjáa við þá frjálsu iðkun sem slíkt lúxusnám var.

Í amstri daga okkar og brauðstriti tökum við okkur kannski ekki tíma til að gera ekki neitt. Auglýsingar í sjónvarpinu minna okkur á að virða frítíma fólks í jólaösinni, svo að fólk sitji ekki firrt og ruglað til borðs með sínum nánustu á aðfangadagskvöld og haldi að það sé ennþá að afgreiða.

Eins þyrftum við að búa til kennslumyndbönd handa okkur öllum um virðingu fyrir tóminu í eigin lífi og annarra. Það eru nefnilega hlutir sem vi höfum enga hugmynd um, sem gerast í huga og hjarta manna og kvenna, manneskja og hreinlega allra í kringum okkur. Átjánda og nítjánda grein sömu mannréttindayfirlýsingar fjalla um hugsanafrelsi, frelsi til sannfæringar og trúar. Við megum skipta um trú og játningu, ein sér eða í félagi við aðra. Við megum hafa skoðanir, halda þeim á lofti, skipta um skoðun, kenna, tilbiðja og stunda það helgihald sem hugur okkar stendur til.
Í nóvemberbyrjun fékk ég að taka þátt í ráðstefnu menntavísindasviðs Háskólans um trúarbragðafræðslu í skólum, þar sem m.a. voru kynnt viðmið Toledofundarins, sem haldinn var árið 2007 á vegum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu ÖSE/OSCE, nánar tiltekið á vegum nefndar um lýðræðis- og mannréttindamál.
Hefði ég ekki tekið mér þessa laugardagsstund til að gera annað en ég er vön að gera í mínum frítíma, hefði ég farið á mis við þessa ráðstefnu, sem FÉKKST, Félag kennara í kristnum fræðum, siðfræði og trúarbragðafræðum undirbjó af snilld.

Í stuttu máli kom í ljós í Toledo að lýðræðisþjóðir þurfa að vinna hörðum höndum að félagslegri samstöðu með því að fjalla um það sem aðgreinir, frekar en að láta sem allir séu eins. Gömul sannindi og ný. Hvernig eigum við að virða trúfrelsi hvert annars ef við vitum ekkert hvert um annars trú? Trú og trúariðkun, sannfæring, skoðanir, langanir og þrár, allt helst þetta í hendur við gildismat og lífsskoðanir, sem eru ekkert alltaf trúarlegs eðlis.
Niðurstöður Toledofundarins voru að fjölmenningarlegt samfélag þarf að iðka trú- og skoðanafrelsi. Við þurfum að vanda okkur við að umbera margvíslegar skoðanir og trú. Til að geta það þurfum við að minnsta kosti að afla okkur vitneskju og skilnings á trú og gildum annarra, hvort sem við skiljum aðra eða ekki.

Við getum gefið okkur tíma á aðventunni til að hugsa ekki neitt, heldur gefa okkur tóm til að finna hvað Guð segir okkur um gönguna frá dauðanum yfir til lífsins, frá helsi til frelsis. Öll þau fögru sjónarmið sem gamla testamentið boðar um fagnaðarár, eru enn í gildi. Þrælar, útlendingar, ekkjur og fleiri þurfa á náð og miskunn að halda, og við eigum að sinna þeim því að forfeður okkar og formæður voru eitt sinn í ánauð í Egyptalandi. Hvernig við ætlum að útfæra það er verkefni þessa nýja kirkjuárs. Ef við lítum okkur nær sjáum við landið okkar og þjóð sem er ekki einsleit. Styrkur lýðræðisvitundar okkar mun vaxa með aukinni leit okkar að skilningi, virðingu og áhuga á trú og skoðunum hvert annars.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2333.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar