Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Sigurður Pálsson

Jól - skóli - kirkja

Jólaljós

Í Fréttablaðinu 15. des. s.l. veita þrír fulltrúar í mannréttindaráði Reykjavíkur formanni ráðsins ákúrur fyrir að „leggja áherslu á“ aðskilnað barna eftir trúar- og lífsskoðunum, en í nóvember hafði mannréttindastjóri borgarinnar skrifað stjórnendum leik- og grunnskóla bréf þar sem áréttað var að börnum skuli ekki mismunað vegna trúar eða lífsskoðunar þeirra eða foreldra þeirra. Tilefni ákúranna er þessi setning í bréfi frá formanni mannréttindaráðs til sömu aðila frá 1. des. þar sem segir: „Ætlunin var alls ekki að gera athugasemdir við hefðbundið kirkjustarf skólabarna heldur benda á mikilvægi þess að þeir sem hafa aðrar lífs- og trúarskoðanir standi annað til boða á meðan á kirkjustarfinu stendur.“
Ekki ætla ég mér blanda mér í innbyrðis deilur í mannréttindaráði. Hins vegar langar mig að leggja orð í belg um „hefðbundið kirkjustarf skólabarna.“ Hefðbundið kirkjustarf fyrir börn og unglinga fer yfirleitt ekki fram á skólatíma. Hins vegar kann að vera að verið sé að vísa til þess að sumar kirkjur bjóða upp á kirkjustarf fyrir börn á þeim tíma sem þau eru höfð í gæslu í skólanum eftir að kennslu lýkur og börnum sem það kjósa boðin þátttaka í því. Sums staðar hefur kirkjan fengið inni í skólahúsnæði en þátttaka barnanna að sjálfsögðu sjálfvalin en ekki skyldug. Ætla má að verið sé að gagnrýna að kirkjan fái inni í skólum, þar sem í lok greinarinnar er vísað í meintan dóm Mannréttindadómstóls Evrópu frá 2007, sem á að hafa fallið foreldrum í vil sem „höfðað höfðu mál vegna starfsemi trúfélags í skólum“.

Þessi tilvísun er röng. Mannréttindadómstólinn hefur engan slíkan dóm fellt. Hins vegar féll dómur árið 2007 í máli sem norskir foreldrar höfðuðu gegn norska ríkinu vegna þess að þarlend skólayfirvöld vildu ekki veita börnum þeirra algjöra undanþágu frá kennslu í námsgreininni „Kristendom, religion og livssyn“, heldur aðeins undanþágu frá því sem flokkast gæti undir trúarlega iðkun af einhverju tagi. Einnig var fundið að því að flókið væri að fá slíka undanþágu. Niðurstaða dómsins var sú að með þessum takmarkaða rétti til undanþágu hefði norska ríkið brotið á uppeldisrétti foreldra sem tryggður væri í mannréttindasáttmálum. Vonandi er þessi ranga tilvísun í dóminn fremur vegna athyglisbrests en ásetnings. Niðurstöðu dómsins má lesa á vef dómstólsins: Press release nr. 464, 29.06.2007. Sagan af Bergþóru í grein þremenninganna, sem fékk undanþágu frá kristindómsfræðslunni, leiðir í ljós að skólinn brást við í samræmi við dóminn, en hefði átt að fá Bergþóru verðug verkefni við annað, sem hann gerði ekki.

En kannski ratar þessi deila í dagblöð vegna þess að nú líður að jólum. Í aðdraganda jóla undanfarin ár hafa komið fram athugasemdir með vísan í uppeldisrétt foreldra að skólar skuli sinna jólaundirbúningi á sama hátt og gert hefur verið áratugum saman. Auk andúðar á jólaföndrinu hefur verið fundið að því að skólar haldi „litlu jólin“ með nemendum og að farið skuli með þá í kirkju. Undirritaður telur mikilvægt að réttur allra foreldra sé virtur, einnig réttur meirihluta foreldra sem telja sjálfsagt að skólahald í aðdragada jóla sé með sama hætti og verið hefur. Að sjálfsögðu á ekki að skylda börn til þátttöku ef foreldrar eru andvígir henni. En hversu langt er sanngjarnt að ganga til móts við lítinn minnihlutahóp á kostnað meirihlutans. Er ekki hægt að mæta þörfum minnihlutans með öðrum hætti. Ástæða er til að minna á að um 90% þjóðarinnar tilheyrir kristnum trúfélögum sem öll geta sameinast í jólahaldinu.

Gleðileg jól.

Höfundur er fyrrv. sóknarprestur og dr.í mentunarfræðum.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3135.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar