Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Elínborg Sturludóttir

Er „landsbyggðin“ alltaf að væla?

Arnarstapi

Ég hlusta stundum á útvarpið í bílnum á morgnana þegar ég geysist um Borgarfjörð. Oftast hlusta ég á gömlu Gufuna.
Í viðtali við Lísu Páls á dögunum var maður sem um langt árabil hafði búið og starfað erlendis. Hann hafði þá sérstöðu að hafa snúið aftur heim til landsins kalda nú í harðærinu þegar marga dreymir um að flýja land.

Eins og gengur í svona viðtölum rakti hann æviferil sinn og sagði m.a. frá því að hann hefði búið bæði á Akureyri og Ísafirði. Þegar maðurinn var inntur eftir því hvernig hefði verið að búa á Ísafirði svaraði hann: „Ísfirðingar voru alltaf að væla yfir því að peningarnir færu allir suður!“
Maðurinn sagði þetta á þann máta að ég fékk það á tilfinninguna að við áheyrendur ættum auðvitað að taka þessari staðhæfingu þannig að þetta hefði að sjálfsögðu verið hin mesta firra og helber misskilningur hjá Ísfirðingum.

En er það rétt, að Ísfirðingar og/eða aðrir landsbyggðarmenn séu alltaf að væla?

Ég hef verið nokkuð hugsi yfir því að undanförnu hvernig sparnaðaraðgerðir opinberra stofnana hafa einkum miðað að því að draga úr þjónustunni á landsbyggðinni á meðan miklu minni kraftur virðist lagður í það að leita leiða til að draga saman seglin á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er gert með þeim rökum að þetta sé eðlilegt „enda sé svo fátt fólk sem býr á landsbyggðinni.“

Opinber orðræða um vanda landsbyggðarinnar, fólksfæðina, atvinnuleysið og takmarkaða þjónustu hefur síðustu ár verið á þeim nótum að hún hefur einna helst minnt á umræðu um ómaga og undirmálsfólk sem ætti að vera auðmjúkt og þakklátt fyrir molana sem þó hryndu af borðum hinna ríku og sterku (þ.e.a.s. höfuðborgarinnar).

Sú tilfinning mín hefur vaxið síðustu misseri að gríðarlegir fordómar gagnvart landsbyggðinni og fólkinu sem þar býr hafi sótt í sig veðrið.
Stjórnmálamenn af landsbyggðinni eru t.d. oft kallaðir „kjördæmapotarar“ ef þeir reyna að vinna að framfararmálum í héraði og þannig er vinna þeirra og störf gerð tortryggileg og látið í það skína að það séu annarleg eiginhagsmunasjónarmið sem ráði för.

Ég hef verið spurð margra undarlegra spurninga um veru mína utan höfuðborgarsvæðisins sem hafa borið vott um djúpstæða fordóma að mínu viti.
Ég nefni hér nokkur dæmi:
Hvernig er að vera „þarna“?
Er ekki allt unga og menntaða fólkið farið í burtu og bara hratið eftir?
Er menntunarstigið ekki óskaplega lágt?
Ertu ekki að drepast úr leiðindum?
Hefurðu nokkuð að gera?

Ég ætla hér að setja fram þá staðhæfingu að síðustu ár hafi meðvitað og ómeðvitað verið unnið að því að brjóta niður sjálfsvirðingu fólks á landsyggðinni með niðrandi tali og fordómum í þeirra garð.

Það hefur verið látið að því liggja að við landsbyggðarfólk séum upp til hópa heimskari, ver menntaðri, lummulegri, tilætlunarsamari og latari heldur en gengur og gerist um fólk á höfuðborgarsvæðinu.

Ef þessi staðhæfing er rétt hjá mér eru fordómarnir sem eru ríkjandi í garð fólks af landsbyggðinni ískyggilega áþekkir þeim sem aðrir minnihlutahópar, s.s. gyðingar, blökkumenn, konur og samkynhneigðir hafa þurt að sitja undir í gegnum tíðina.

Í 72. Davíðssálmi stendur: „Hann bjargar hinum snauða, er hrópar á hjálp, og hinum þjáða er enginn liðsinnir. Hann aumkast yfir bágstadda og snauða og fátækum hjálpar hann. Frá ofbeldi og ofríki leysir hann þá, og blóð þeirra er dýrmætt í augum hans.“

Það er athyglisvert að hugsa til þess hvernig fordómar geta farið að gegnsýra stofnanir samfélagsins og alla umræðu. Og af því að skoðunin þykir fín fær hún byr undir báða vængi. Þannig fara ríkjandi forómar að hafa áhrif á mikilvægar ákvarðanir sem teknar eru.

Ég hygg að mjög margir landsbyggðarmenn hafi með eigin augum „horft á peningana fara suður”. Ég hygg jafnframt að mjög margir íbúar á landsbyggðinni kannist við „landsbyggðarskattana“ sem þó er svo lítið gert úr.

Ég skynja mikið ofbeldi fólgið í því að hin, sem finnst á sér brotið og að þau sitji ekki við sama borð, megi ekki einu sinni kvarta undan sársaukanum sem það veldur þeim. Ef þau stynja, þá er það kallað væl!

Upp á síðkastið hefur verið kallað eftir sannleika og gegnsæi. Ég held að það sé kominn tími til að við horfumst í augu við landsbyggðarfordómana sem við berum í brjósti og hvernig þeir hafa áhrif á okkur og hvaða afleiðingar þeir hafa á ákvarðanirnar sem við tökum. Sannleikurinn er nefnilega sá að reynsla mín af því að búa á landsbyggðinni kemur ekki heim og saman við ofangreind sjónarmið sem eru orðin svo hávær.

Guði gefi að við höfum hugrekki til að líta í eigin barm og kannast við fordómana sem þar kunna að leynast. Guð gefi að við neytum ekki aflsmunar heldur leggjum við hlustir þegar „hinn snauði hrópar á hjálp“ og finnum til samkenndar með „hinum þjáða sem enginn liðsinnir“.

Um höfundinn8 viðbrögð við “Er „landsbyggðin“ alltaf að væla?”

 1. Hulda Hrönn M. Helgadóttir skrifar:

  Ég þakka þennann áhugaverða pistil. Þetta er orð í tíma töluð.

 2. Arna Grétarsdóttir skrifar:

  Þakka góðan pistil kæra Sr. Elínborg. Ég hygg að hér heyrist rödd margra sem finnast þau þola óréttlæti sökum búsetu sinnar.

  Hér í Noregi kemur þessi umræða æði oft upp; landsbyggð v. höfuðborgin. Landsbyggðin fær allan samgöngupeningin og göturnar og lestarteinar í Ósló og nærliggjandi svæðum fá að sitja á hakanum. Ósló fær óperuhús sem kostar triljónir en landsbyggðin lítil hreysi miðað við glæsileikann í höfuðborginni.
  Þeir sem búa á strjálbýlli stöðum hér í frændlandi fá ágætis skattaafslátt og þannig er það viðukennt að það er dýrara að búa í dreifbýli. Mesti skattaafslátturinn er á Svalbarða. Það virðist vera eitthvað réttlátt við þetta kerfi(alla vega peningalega) en samt ríkir hrepparígur og samanburður, samkeppni og jafnvel duldir fordómar eins og sr. Elínborg kemur inn á.

  Við Íslendingar sem búum í útlöndum skilgreinum okkur frá Íslandi. Ef við búum á Íslandi erum annað hvort frá höfuðborgarsvæðinu eða landsbyggðinni. Við sem erum frá höfuðborginni erum annað hvort úr vesturbænum eða Breiðholtinu. Og af því að ég er sjálf úr Breiðholtinu þá veit ég að það er nú ekki sama hvort maður er úr Hóla- Fella- eða Seljahverfinu.

  Maðurinn þarf að tilheyra og skilgreina sig og er það oft gert út frá t.d búsetu, trú, menntun o.s.frv. Er það ekki þessi mannlegi veruleiki sem um fjallar?

  Hrópum bara á hjálp og verum snauð annað slagið! Það þjappar okkur kannski saman og við áttum okkur á því og fáum að finna að við erum eitt í Jesú Kristi.

  Að lokum:
  Að kvarta, væla og nöldra er oft notað um konur í neikvæðri merkingu til að komast hjá því að hlusta og skjóta sér undan breytingum.

 3. Bára Friðriksdóttir skrifar:

  Takk fyrir sr. Elínborg.

  Þetta er líka upplifun mín eftir að hafa búið út á landi. Skynja að í höfuðborginni er enginn skilningur á aðstæðum fóks út á landi og fordómar eins og þú segir.

  Að ákveðnu leiti eru skilin eins og það búi tvær þjóðir í landinu, þær sem eru út á landi og fá ekki fulla samþykkt borgarbúa og síðan stórhöfuðborgarsvæðið.

  Það er dagpurlegt.

 4. Jóhanna Ósk Kristjánsdóttir. skrifar:

  Takk fyrir þessa grein Elínborg.
  Þetta er alveg í tíma orð töluð, og hef ég fundið mjög mikið fyrir þessu þar sem ég bý norður á Ströndum (eins og þú veist). Margir sem koma af höfuðborgarsvæðinu telja það (eða virðast telja) að eftir að þeir eru komnir út úr Reykjavík þá leyfist þeim alla og allir aðrir eru bara núll og nix !
  Við höfum orðið vör við t.d. að beint fyrir framan húsið hjá okkur hefur fullorðið fólk bara labbað sér út úr bílnum og ætlað að fara að SKJÓTA eð byssu á seli í fjörunni og einnig endur og fugla á sjónum ! Líka hefur Krían orðið fyrir GRJÓTKASTI frá fullorðnu fólki !! Fólk telur líka að það sé á einskins manns landi þegar malbikinu sleppir.
  En hafðu góða þökk fyrir þessa grein enn og aftur, og bestu kveðjur af Ströndum.
  Jóhanna.

 5. Guðbjörg Jóhannesdóttir skrifar:

  Frábær áminning og því miður upplifun sem við landsbyggðartútturnar þekkjum vel. Mikilvægt er að skoða á hvern hátt þessir fordómar hafa leikið kirkjuna. Hvernig hefur yfirbygging kirkjunnar í borginni vaxið ? Hvernig hefur fármunum jöfnunarsjóðs sókna verið úthlutað ? Hvernig hafa ákvaðanir um aukningu þjónustu á einum stað og niðurfellingu annarstaðar verði teknar ? Hversu oft hefur opinberum embættum verið úthlutað án auglýsinga ? Ekki þægilegar spurningar allar !

 6. Ragnheiður Karítas skrifar:

  Góður pistill Elínborg mín. Takk fyrir. Ég kannast vel við þessa fordóma um búsetu á landsbygðinni. Oft finnst mér eins og höfuðborgarbúar líti svo á að hvergi sé búandi nema á höfuðborgarsvæðinu.

 7. Sigurður Árni skrifar:

  Takk fyrir þetta vítamín gegn fordómum.

 8. Matthías Ásgeirsson skrifar:

  Óskaplegir fordómar eru hér í garð höfuðborgarbúa.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 5567.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar