Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Benedikt Jóhannsson

Dygð dygðanna

Gildi á þjóðfundi

Ég var svo heppinn að vera boðið að taka þátt í Þjóðfundinum sem haldinn var í Laugardalshöll nú um miðjan nóvember 2009. Þar sem ég var líka svo óheppinn að komast ekki á fundinn langar mig að taka þátt í áhugaverðri umræðu með þessari stuttu grein. Einkum finnst mér áhugavert hvaða gildi þátttakendur á þjóðfundinum töldu mikilvægust. Þar var lögð mest áhersla á heiðarleika, en síðan komu gildi eins og jafnrétti og réttlæti. Mjög eðlilegt er að lögð sé áhersla á þessi gildi nú eftir hrunið, í ljósi þess óheiðarleika sem smám saman er verið að afhjúpa, ásamt þeirri misskiptingu í þjóðfélaginu sem fjármálabólan hafði í för með sér.

Þessi gildi sem þjóðfundurinn lagði einkum áherslu á tengjast sterklega hinni forngrísku höfuðdygð réttlæti, en ákveðið lágmarks réttlæti er forsenda þess sáttmála sem nútíma lýðræðisríki byggjast á. Hinar sígildu höfuðdygðir eru hins vegar fleiri, eða: Viska, hugrekki og hófsemi. Í svokallaðri jákvæðri sálfræði er síðan bætt við tveimur höfuðdygðum sem sóttar eru í trúarbrögð og listir, eða: Kærleika og andríki. Þessar dygðir geta að einhverju leyti togast á, en líta má þannig á að einstaklingar eða samfélög séu vel sett siðferðilega ef þessar dygðir og þau gildi sem þeim tengjast eru vel ræktuð og í heppilegu innbyrðis jafnvægi.

Mikið hefur verið rætt opinberlega hvaða siðferðisbrestir voru einkum áberandi í ofþenslunni sem leiddi til hrunsins. Því hefur einkum verið haldið fram að græðgi og hroki hafi verið áberandi og ýtt ýmsum góðum gildum til hliðar, eins og heiðarleika og jafnrétti. Andstæður græðginnar og hrokans eru gildin nægjusemi og hógværð, já jafnvel auðmýkt, sem falla undir hina fornu dygð hófsemi eða hófstillingu. Athyglisvert er að þessi gildi voru ekki nefnd í niðurstöðum þjóðfundarins. Virðing var þó ofarlega á blaði og segja má að virðing feli í sér að við hófstillum framgöngu okkar og sýnum í það minnsta kurteisi.

Hófsemi hefur verið nefnd „dygð dygðanna“ og má í því sambandi vísa í málsháttinn: “Allt er best í hófi”, sem má útleggja: Allt er verra í óhófi. Samkvæmt þessari hugsun er ekkert gott einangrað í sjálfu sér, aðeins hófstillt í viðeigandi samhengi. Gott dæmi er áburður sem gerir grasið og túnin fallega græn, en getur líka sviðið grasið sé of mikið borið á. Meira að segja sjálfur kærleikurinn getur orðið óþægilegur og kæfandi, sé honum ausið út í óhófi. Sama má segja um hið sígilda og mikilvæga gildi heiðarleika sem réttilega var hampað á þjóðfundinum. Óhóflegur heiðarleiki, útblásin af réttlætiskennd án náungakærleika, getur leitt til niðurbrjótandi dómhörku. Yfirdrifin hreinskilni getur líka verið særandi.

Komum aftur að nægjuseminni, andstæðu græðginnar. Kannski er skiljanlegt að nægjusemi var ekki hampað á þjóðfundinum, því nægjusemi þegnanna felur í sér ógn fyrir “neyslusamfélagið”, sem knúið er áfram af vöntunartilfinningu kaupenda á markaði, sem aldrei fá nóg og langar að kaupa sífellt meira. Ef þessi skortur á nægjusemi fær hins vegar að ráða ferðinni getur hún leitt til þess að við myndum ganga of nærri ýmsum náttúrugæðum og einnig heilsu okkar sjálfra. Mikilvægt er því að við leggjum rækt við hófsemi ekki síður en önnur grunngildi. Á þjóðfundinum var reyndar rætt um sjálfbært þjóðfélag, sem felur í sér hófstillingu í nýtingu náttúruauðlinda.
Stærilæti íslendinga var áberandi í útrásinni. Bankamenn okkar voru sagðir öðrum fremri og jafnvel var talað um “tæra snilld” þegar “Icesave” reikningarnir voru opnaðir, en nú súpum við illilega seyðið af þeim ólánsreikningum. Oft er stutt á milli stærilætis og minnimáttarkenndar, sem gjarnan birtist sem oflátungsháttur út á við. Kotrosknir kotbændur töldu sig hér áður fyrr komna af Noregskonungum og það jafnvel í beinan karllegg. Kannski vorum við á útrásartímanum sem þjóð eins og lítið barn sem langar að vera stærra en það er og lyftir höndum til að aðrir horfi á það og dáist að því hvað það sé orðið stórt. Forsetafrúin endurspeglaði sálarástand þjóðarinnar vel rétt fyrir hrunið, þegar karlalandsliðið í handbolta vann silfur á Ólimpíuleikunum og hún hrópaði yfir sig hrifin: “Ísland er stórasta land í heimi!”

Nú stöndum við frammi fyrir afleiðingu oflætisins og hrokans: Hruninu og fylgifiskum þess. Raunar fær oflátungurinn aldrei dulist og verður til athlægis fyrr eða síðar. Ég tel að við höfum í raun meira erindi við umheiminn ef við horfumst í augu við smæð okkar sem lítil þjóð í stórum heimi, í stað þess að reyna að sigra heiminn eins og stórveldi.
Hófstilling og hógværð af þessu tagi þarf ekki að vera dragbítur á framfarir. Þvert já móti er því þannig farið að ef við hófstillum krafta okkar og hugsanir, þá verða áform okkar yfirvegaðri, markvissari og raunhæfari. Við náum þá betri árangri í því sem við tökum okkur fyrir hendur. Þá nálgumst við vonandi hið margumtalaða jafnvægi í þjóðarbúskapnum og lendum síður í óhóflegum uppsveiflum í efnahagslífinu, með tilheyrandi kollsteypum og jafnvel hruni. Þá náum við að lifa betra og farsælla lífi í heilbrigðara þjóðfélagi.

Um höfundinn3 viðbrögð við “Dygð dygðanna”

 1. Skúli skrifar:

  Góður pistill. Ég er í sömu pælingum hérna: http://tru.is/pistlar/2009/11/hogvaerdin

  Sé reyndar ekki vísað á þann pistil hér í “skyldum pistlum”!

 2. Matthías Ásgeirsson skrifar:

  Trúleysinginn ég sagði það sama, þurfti bara færri orð!

  Annars hélt ég að ekki væri deilt um að niðurstaða Þjóðfundarins væri að “[k]ristin trú og þjóðleg menning eru undirstaða þess að hér sé hægt að byggja heiðarlegt samfélag” svo vitnað sé í ríkiskirkjuprest sem tók þátt í fundinum, en það er allt önnur umræða :-)

 3. Bernharður Guðmundsson skrifar:

  Þetta er góð og þakkarverð hugvekja, hófstillt í stíl, nægjusöm í notkun stóryrða, skínandi góð dæmi úr hversdagslífinu um skaðsemi óhófs. Þessi umræða er ákaflega þörf svo að við náum að breyta viðhorfum okkar og lífsháttum í raun. Það verður eitthvað að GERAST !

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3891.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar