Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Skyldar færslurLeita

Haraldur M. Kristjánsson

Að fá að vera barn

Heilög LúsíaSíðasta sunnudag var haldin Lúsíuhátíð í Víkurkirkju. Ungar stúlkur skrýddust hvítum kyrtlum, með rauða borða um sig miðjar og héldu á litlu logandi kerti. Um höfuðin höfðu þær litlar jólaseríur og engin ein öðrum fremri. Heilög Lúsía í nútímaútfærslu.

Ljósin voru dempuð. Þokusúldin tryggði að næstum var aldimmt í kirkjunni á miðjum degi. Þær gengu hægt og tignarlega inn kirkjugólfið syngjandi sönginn góða um heilaga Lúsíu, verndardýrling blindra og störðu hugfangnar á kertaljósin sín.

Heilög Lúsía var ung kona frá Sikiley á Ítalíu sem vildi helga líf sitt Guði og þjónustunni við hann í Róm, en varð fyrir ofsóknum og varð að gjalda fyrir með lífi sínu, kringum aldamótin 300 líkt og fleiri trúsystkini hennar.

Maður nokkur hafði orð á því að hún væri með þau fegurstu augu sem hann hefði séð og þá segir sagan að hún hafi gefið honum þau á silfurdiski með því skilyrði að hann tæki kristna trú, sem hann gerði. Þá gaf Guð Lúsíu enn fegurri augu.

Óttaleg vitleysa er þetta, kann einhver að segja.

Hvernig getur nokkur lagt trúnað á svona ýkjusögu og vitleysu?

Ég verð að hryggja efasemdarmanninn með því að segja að það geri ég. Ég trúi þessu og mörgu fleiru sem er miklu ótrúlegra en þetta. Trú mín á Guð hefur kennt mér að ekkert er honum um megn. Trúin hjálpar mér að sjá lífið sem sístæða virka sköpun Guðs þar sem bæn til hans getur gert kraftaverk. Trúin mín gefur mér lífsfyllingu og tilgang.

Litlu Lúsíurnar í Víkurkirkju á dögunum hlustuðu andaktugar á söguna um heilaga Lúsíu og þær voru ekkert að pískra um það á eftir hvað þetta væri nú ótrúlegt allt saman. Síður en svo. Mér fannst ég jafnvel greina að þær sæju hlutverk sitt í kirkjunni þennan dag í alveg nýju ljósi.

Í þjóðfélagi sem er undirlagt af neikvæðri umræðu um hrun, verðbólgu, vísitölur og stýrivexti, getur verið svo gott að skipta stundum um takt. Hætta meðvitað að tala um erfiðleika. Láta eftir sér að trúa því barnslega og einlæga. Leyfa sér að trúa því að sonur Guðs hafi fæðst inn í heim okkar mannanna til að verða okkur öllum ljós eilífs lífs og vonar.

Það er líka gott og nauðsynlegt að geta falið honum allt sem þyngir hugann nú um stundir og geta treyst því að bæn til hans breyti stöðunni. Það er ómetanlegt að geta gefið þeim sem nú eru kvíðnir og vonlitlir, ljósglætu inn í lífið með því að segja þeim frá Jesú Kristi.

Það er dásamlegt að fá að vera ljósberi hans eins og litlu Lúsíurnar í Víkurkirkju.

Það er gott að fá að vera barn í hjartanu sínu. Barn sem treystir og trúir og þarf ekki að vita eða skilja alla hluti.

Jólin gera mig alltaf að þessu barni og mikið þakka ég Guði fyrir það.

Vonandi getur þú líka orðið barn í hjarta á komandi jólum.

Um höfundinn4 viðbrögð við “Að fá að vera barn”

 1. Lena Rós Matthíasdóttir skrifar:

  Barnslega einlæg trú er fallegasta og dýrmætasta gjöfin sem Guð gefur okkur fyrir tilstilli heilags anda.

  Dásamlegast af öllu er þegar við opnum augu okkar fyrir því að barnatrúin okkar er alvöru, er mikilvæg, og er brúin okkar yfir í himnaríkið hér á jörð.

  Takk fyrir þennan pistil, hann minnir okkur á það sem mestu máli skiptir í trúnni; að vera, að dvelja, að lifa, að gleðjast og að nærast.

 2. Bernharður Guðmundsson skrifar:

  Hvað þetta er satt og rétt, Haraldur !

 3. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Ég þykist vera nokkuð viss um að þetta sé bara eitthvað stílbragð að segjast trúa þessari sögu, en mig langar að vera viss. Þú trúir því ekki í alvöru að þessi saga sé sönn, er það nokkuð?

 4. Matthías Ásgeirsson skrifar:

  Hjalti Rúnar, hann mun ekki svara.

  Ég hef tekið eftir þessu undanfarið. Það er opið fyrir athugasemdir á trú.is en virðist vera lokað fyrir svör!

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3636.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar