Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfundLeita

Guðný Hallgrímsdóttir

Horft til stjarnanna

Næturhiminn

Hafið þið einhvern tímann hugleitt hversu mikil gæði eru fólgin í því að geta komist út undir bert loft? Að anda að sér fersku sjávarlofti, að horfa til stjarnanna á dökkum næturhimni og finna kul á kinnum? Hafið þið líka hugleitt hversu mikilvægt það er að vera sjálfstæður, að ráða sínu eigin lífi?

Ég verð að játa að einhvern veginn finnst mér þessi atriði svo sjálfsögð að ég leiði sjaldan hugann að því að kannski er þetta ekki svona hjá okkur öllum. Til er fólk í okkar íslenska velferðarsamfélagi sem er dæmt til innivistar og ósjálfstæðis. Fólk sem ætti að geta farið allra sinna ferða en kemst ekki sökum þess að umhverfið og hugsun okkar er svo innhverf og sjálfhverf að við gleymum að hugsa um þau hin sem í kringum okkur eru.

Mér datt þetta í hug þegar ég um daginn las um íslenska konu sem haldin er hreyfitaugahrörnunarsjúkdómi eða Mnd. Þessi kona hafði ekki komist út undir bert loft í heil fjögur ár. Hugsið ykkur, fjögur ár. Nóg finnst manni að þurfa hanga inni einn dag en hvað þá fjórum sinnum þrjúhundrusextíuogfimm daga.

Hvað olli þessum örlögum konunnar? Jú, hún hafði verið svo óheppin að búa í fjölbýlishúsi án lyftu þegar hún greindist með sjúkdóminn. Sem sagt höfum það hugfast að ef við greinumst með sjúkdóma sem skerta hreyfigetu okkar þá er eins gott að við búum á jarðhæð eða í húsnæði með lyftum.

Hér sannast, ásamt ýmsum öðrum þáttum sem ekki gefst nú rými að nefna, að fötlunin orsakast oftar en ekki af aðstæðum og umhverfi manneskjunnar frekar en af fötlun hennar sjálfrar. Umrædd kona er miklu fatlaðri en hún þyrfti að vera vegna þess að það hefur ekki verið komið til móts við þarfir hennar.

• • •

Eitt meginmarkiða hreyfinga fatlaðs fólk hefur verið að endurskilgreina sjálfstæðið þar sem áherslan hefur verið lögð á tækni til að aðstoða fatlað fólk til aukins sjálfstæðis og sýna fram á aukið val og stjórn á eigin lífi með því til dæmis að stýra sjálft persónulegu aðstoðarfólki.

Í hugmyndafræðinni sem stjórnar samfélagskerfinu í dag er hins vegar gengið út frá læknisfræðilega sjónarhorninu um fötlun þar sem skilningurinn grundvallast á því að litið er á fötlun sem galla eða afbrigðleika. Vandamálið sé byggt inn í einstaklinginn og þess vegna er lögð áhersla á lækningu eða endurhæfingu. Þessu þarf að breyta. Við erum hvert og eitt einstök sköpun Guðs. Öll erum við gædd ákveðnum hæfileikum sem nýta má í okkar góða samfélagi. Fatlað fólk er vannýttur auður þessa lands.

Hugum þess vegna mun betur að sjálfstæði og sjálfræði þeirra sem of lengi hafa verið innilokuð í þröngum heimi hugmynda okkar hinna um fötlun. Þá fyrst getum við hvert og eitt notið þeirra sælu að horfa til stjarnanna og finna íslenskt kul í kinnum.

Um höfundinn2 viðbrögð við “Horft til stjarnanna”

 1. Egill Reynisson skrifar:

  Kæra Guðný,

  Takk innilega fyrir góðan og vel skrifaðan pistil. Hann ætti að fá marga til að hugsa um lífið og tilveruna og þá hluti og gjörðir sem okkur finnst flestum svo sjálfsögð. Ég veit vel hvað þú ert að rita um enda með fjölfatlaða dóttur sem þarf sérstaka umönnun allann sólarhringinn og þar sem hún getur varla farið út þá gildir það hið sama fyrir okkur foreldrana.

  Tók eftir að þú starfar sem prestur fatlaðra. Ekki vissi ég að það starf væri til innan þjóðkirkjunnar en þó að ég efist alls ekki um nauðsyn þess að starfið sé til, þá velti ég fyrir mér hvers vegna við erum alltaf að setja manneskjur í hópa ? Er almennur safnaðarprestur ekki eins tilfallinn að gegna starfi prests fyrir fatlaða eins og ófatlaða ? Mér sárnar alltaf að sjá þegar manneskjur eru settar í ákveðna hópa og þá sérstaklega af trúfélögum landsins.

 2. Guðný Hallgrímsdóttir skrifar:

  Blessaður og sæll Egill og takk fyrir viðbrögð þín. Mig langar að byrja á því að taka undir orð þín um aðgreininguna því auðvitað eigum við öll að geta leitað til þjónustu þar sem við kjósum, hvort sem hún er af félagslegum, líkamlegum eða andlegum toga.
  Ég er nú að hefja minn tuttugasta vetur sem prestur fatlaðra. Starfið hefur breyst mikið á þessum árum en nú þjóna ég mest megnis fólki með þroskahömlun þar sem leitast er við að mæta þörfum þeirra og óskum á einstaklings grundvelli. Hvað varðar líkamlega fatlaða einstaklinga er hlutverk mitt fyrst og fremst fólgið í að benda á aðgengi í kirkjum og að öll ferlimál séu í lagi. Stór hluti starfans er að tengja fatlað fólk við sóknarkirkjur sínar og uppfræða kollega mína um fötlun, réttindi fatlaðra, þarfir þeirra og óskir. Innan kirkjunnar eru starfandi margir sérþjónustuprestar sem eru sérmenntaðir til þess að mæta enn betur, en kirkjan gerir almennt séð, fólki sem óskar eftir þjónustu hennar. Ég er með meistaragráðu í sálgæslufræðum og diplómagráðu í fötlunarfræðum auk fimm ára guðfræðimenntunnar.
  Ólíkt störfum og markmiðum t.d. sjúkrahúspresta sem teljast til sérþjónstu kirkjunnar er markmiðið með starfi mínu að gera það óþarft. Vonandi verður því markmiði einhvern tíma náð.
  Kær kveðja,
  Guðný Hallgrímsdóttir

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2708.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar