Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfundLeita

Ragnar Gunnarsson

Kristniboð á tímamótum

Kristniboðið

Í sumar voru 80 ár liðin frá stofnun Kristniboðssambandsins eða Sambands íslenskra kristniboðsfélaga. Elsta aðildarfélagið, Kristniboðsfélag kvenna í Reykjavík, varð nú í byrjun nóvember 105 ára. Full ástæða er til að staldra við á tímamótum sem þessum.

Í fyrsta lagi lítum við aftur og þökkum það sem liðið er. Saga Kristniboðssambandsins er saga fjölda einstaklinga sem hafa borið mikla umhyggju fyrir starfi þess heima fyrir sem og á kristniboðsakrinum. Þar mætti telja upp fjölda nafna fólks sem lagði lið með fyrirbæn sinni og fjárhagslegri fórn sem munaði um. Einnig má nefna ósérhlífni sjálfboðaliða og starfsfólks í áraraðir og áratugi – og stóran hóp sem aftur og aftur hefur glaðst af hjarta þegar fréttir hafa borist af ávexti starfsins. Þar eru frásögur af einstaklingum og heilu byggðarlögunum sem umbreyst hafa fyrir kraft fagnaðarerindisins um Jesú Krist. Þar eru þakkarorð tugþúsunda sem notið hafa hjálpar kristniboðsins, kristniboðanna, samverkafólks og samstarfskirkna með einum eða öðrum hætti. Fjöldi fólks hefur eflst og styrkst til góðra verka, sjálfum sér og öðrum til blessunar.

Í öðru lagi er full ástæða til að minna á það starf sem unnið er í nafni Kristniboðssambandsins nú á dögum þó svo að sjaldan séum við ein að verki. Starfað er með kirkjum í Afríku og samstarfssamtökum sem eru að verki víða um heim. Með þeim tengslum og stuðningi við öflugt útvarps- og sjónvarpsstarf nær starfið annars vegar til milljóna með fjölmiðlun og er hins vegar unnið með persónulegum tengslum við einstaklinga, ekki síst í Eþíópíu og Keníu. Þar er hlúð að safnaðaruppbyggingu og stuðningi við starf heimamanna. Starfið er að miklu leyti einstaklingsmiðað, við sendum fólk sem starfar á meðal fólks – þar sem það ber frelsaranum Jesú Kristi vitni. Náð hans og óverðskuldaður kærleikur sem birtist í boðskapnum veldur víða umbreytingu – frá myrkri til ljóss, frá vonleysi til vonar, frá afskiptaleysi til kærleika.

Í þriðja lagi er ástæða til að horfa til framtíðar. Hlutverki okkar er ekki lokið. Boðin um Jesú Krist eiga erindi við allar þjóðir og þjóðabrot, allir eiga rétt á að fá tækifæri til að kynnast frelsaranum. En við horfumst einnig í augu við örar og miklar breytingar um allan heim. Nýjar aðstæður fela í sér ný tækifæri og nýjar aðferðir. Kristniboð næstu áratuga verður um margt frábrugðið starfi síðustu áratuga. En innihald þess verður þó hið sama: Að boða trú á Jesú Krist, krossfestan og upprisinn, og mæta náunganum í kærleika. Sú köllun er lífsspursmál fyrir kirkju Krists á Íslandi og um víða veröld. Kirkjan er kölluð til bað bera vitni og segja frá því sem hún hefur séð og heyrt. Kristniboðsdagurinn, einu sinni á ári, er áminning um að kirkjan sjái mikilvægi þess og hlýði kalli frelsarans sem enn segir: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum.“

Um höfundinn5 viðbrögð við “Kristniboð á tímamótum”

 1. Bernharður Guðmundsson skrifar:

  Þakka þér Ragnar góðan pistil og uppörvandi.
  Þú segir í lok pistilsins “Nýjar aðstæður fela í sér ný tækifæri og nýjar aðferðir. Kristniboð næstu áratuga verður um margt frábrugðið starfi síðustu áratuga.”
  Það væri fróðlegt að heyra nánar af þessu
  Kær kveðja
  Bernharður Guðmundson

 2. Ragnar Gunnarsson skrifar:

  Þakka þér viðbrögðin Bernharður. Um þetta má margt segja og hér nefni ég aðeins nokkur atriði: Kirkjan hefur verið að eflast víða, s.s. í Rómönsku Ameríku, Afríku og Asíu á liðnum áratugum. Kristniboðsstarfið er í ríkari mæli samstarf jafningja sem felur í sér gagnkvæman stuðning. Kristniboðar fortíðar voru oft frumkvöðlar, í framtíðinni verða þeir held ég meira á hliðarlínunni. Kristniboðið er í ríkari mæli að nýta sér fjölmiðlun, bæði úvarp, sjónvarp og netið fer það vaxandi. Og ein sterkasta áksorun næstu ára verður að bera fram vitnisburðinum um Jesú og miðla kærleika hans til þess fjölda múslima sem þekkja ekki kærleika Guðs í Jesú Kristi. Samspil auðmýktar, djörfungar, virðingar og kærleika held ég að þar skipti miklu máli. Að lokum má nefna að áður sinntu kristniboðssamtök þessu starfi svo til ein en kirkjurnar eru smám saman að átta sig á því að þetta er ómissandi þáttur í starfi og sjálfsskiningi þeirra. Kirkjan er boðandi, hún getur ekki þagað, hún talar um það sem hún hefur séð og heyrt.

 3. Matthías Ásgeirsson skrifar:

  Hvert er viðhorf greinarhöfundar til trúboðs múslima? Væri hann sáttur við öflugt trúboð úr þeirri átt hér á landi?

 4. Ragnar Gunnarsson skrifar:

  Sæll Matthías. Ég er sáttur við það að því leyti að allir eiga rétt á að boða trú sína eða trúleysi samkvæmt reglum samfélagsins. Ég er ekki hrifinn enda tel ég ekki að þar sé sannleikann að finna. Þar að auki er umburðarleysi áberandi einkenni islam og það getur dregið úr lýðræði og réttindum er fram í sækir. Að því leyti er merkilegt að sumir talsmenn trúleysis hafa meiri samúð með islam en kristinni trú. Ég óttast ekki múslima, lít á komu þeirra hingað sem tækifæri til að mæta þeim í kærleika og hvatningu til að leita leiða til að miðla fagnaðarerindinu um Jesú Krist til þeirra. Kirkjan á heldur ekki að stjórnast af ótta.

 5. Matthías Ásgeirsson skrifar:

  > “Að því leyti er merkilegt að sumir talsmenn trúleysis hafa meiri samúð með islam en kristinni trú.”

  Gætirðu sagt mér frá einhverjum slíkum “talsmanni trúleysis”. Ég hefði gaman að því að sjá málflutning þeirra.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3046.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar