Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfundLeita

Sigurður Árni Þórðarson

Glaðvakandi

Glaðvakandi krakkar í kirkjunni

Fjöldi bíla við kirkjuna skömmu fyrir hádegi á laugardegi i lok nóvember. Svefnpokar og dýnur er veiddar upp úr bílskottunum. Svo smella bílstjórarnir kossum á krakkakinnar. “Sjáumst á morgun, skemmtið ykkur vel.” Hvað er í gangi? Er einhver óvissuferð að byrja? Já, reyndar. Fjöldi 11 ára barna eru að byrja óvissuferð í heilan sólarhring. Þau fara ekki í rútu eitthvað út í náttúruna eða í skála. Þau fara mð svefnpoka og bakboka inn í kirkjuna. Þar munu þau gista, starfa, borða og vera næstu 24 tíma.

Það er líflegt í norskum kirkjum síðasta laugardag kirkjuársins. Öllum 11 ára skírðum börnum er boðið að koma í kirkjuna sína, vera í henni, njóta fræðslu, undirbúa messu sunnudagsins, taka þátt í leikjum, borða í safnaðarheimilinu, gleðjast á fjörmikilli kvöldvöku og gista. Allt frá Kristiansand í suðri og norður í Kirkenes er efnt til þessarar kirkjuferðar. Eins og á Íslandi hafa börn á milli tíu og þrettán ára aldurs grisjast frá barna- og unglingastarfi kirkjunnar. Þau finna sig ekki í smábarnastarfinu ekki nægilega gömul fyrir unglingafræðsluna. Því hafa margir spurt um hvað væri til ráða. Hvað skemmtilegast er boðið til ellefu ára barna um sólarhringsveru í kirkjunni á gamlársdegi kirkjuársins.

Dagskráin er sérsniðin að þörfum krakkanna. Þau undirbúa messu sunnudagsins, sem er hátíð, nýársdagur kirkjunnar. Það er tilboð um upplifun í kirkjuhúsinu og á vettvangi kirkjunnar í félagi við jafnaldra. Börn á leið inn í unglingsár. Þau eru nýtt upphaf, eiga í sér nýja skynjun, þarnast nýrrar innsýnar. Lysvåken – glaðvakandi er yfirskrift þessa sólarhrings. “Vakið,” sagði Jesús. “Þér eruð ljós heimsins,” sagði hann líka. “Verið glöð” minnir postulinn á í bréfum sínum. Kristinn maður má við lok kirkjuárs gleðjast og þakka, vaka í vitund um hið stóra samhengi, gjafir, líf og gæði. Trúin hvetur til vöku og gleði. Það er gott veganesti fyrir lífsgöngu barna, unglinga og líka hinna sem eldri eru.

“Glaðvakandi” eru margir í norsku kirkjunni við þessa tímaskil. Við megum gjarnan flytja inn í okkar íslenska kirkjulíf þessa dagskrá og koma henni á. “Fyrir alla muni notið hugmyndina, kirkjan á hana. Þið eruð hluti þeirrar fjölskyldu! Þetta er frábær dagskrá, efnið er allt á netinu” sögðu kollegar mínir í Noregi. Ellefu ára börn mega gjarnan fylla íslenskar kirkjur með orðum, gleði, hugsunum, bænum, áhyggjum lestrum, já veru sinni. Kirkjan er til fyrir Guð og þar með framtíðina. Það er besta ævintýraferðin sem hægt er að fara.

Um höfundinn7 viðbrögð við “Glaðvakandi”

 1. Arna Grétarsdóttir skrifar:

  Takk fyrir að koma til skila þessari hugmynd. Mjög spennandi fyrir krakkana að upplifa sig í ævintýraferð í kirkjunni:)

  Við eigum svipaða hefð í ungingastarfinu á okkar litla Íslandi. “Vaktu með Kristi” er sólarhringssamvera eða bænavaka sem haldin er ár hvert frá skírdagskvöldi og fram á föstudaginn langa. Þetta hefur verið skipulagt af ÆSKR, ÆSKÞ og ÆNK.

  Endilega að taka frá aðventuna fyrir yngri krakkana!
  Takk fyrir þetta Sigurður Árni

 2. Sigurður Árni Þórðarson skrifar:

  Opnar alveg nýjar gáttir fyrir þennan aldurshóp og síðan hægt að byggja ofan á og vinna með þeim veturinn á eftir. Það er eftirsóknarvert - léttir einnig kirkjuaðlögun fyrir fermingarfræðsluna.

 3. Matthías Ásgeirsson skrifar:

  > Öllum 11 ára skírðum börnum…

  Sjáið þið ekkert pínkulítið vafasamt við þetta?

  Endurorðum þetta.

  > Öllum 11 ára hvítum börnum…

  Hljómar frekar illa, ekki satt?

 4. Sigurður Árni skrifar:

  Jú, endurorðun Matthíasar er vond. Í norsku þjóðkirkjunni er sterk vitund um mikilvægi jafngildis og jafnstöðu fólks - kirkjan er opin og dagskrá hennar er öllum aðgengileg. Dagskrá fyrir ellefu ára börnin er á grundvelli samnings við norska ríkið, áætlunar sem mikill meirihluti Stórþingsmanna samþykktu. Samningurinn miðar við skírða meðlimi sem eru skilgreinanlegt félagsviðmið - en svo eru auðvitað allir ellefu ára velkomnir, óháð kyni, litarhætti og trú. Kirkja sem er trú elskusemi Jesú Krists hefur slíka markaeyðandi afstöðu.

 5. Matthías Ásgeirsson skrifar:

  Æi, mér þykir eitthvað ógeðfellt við að aðgreina ellefu ára gömul börn eftir því hvort þau voru skírð sem ungabörn eða ekki.

  Nei, þið getið ekki sagt að öll ellefu ára börn séu velkomin því þá þurfið þið um leið að taka upp hið hrikalega orð “trúboð” og það viljið þið yfirleitt ekki kannast við :-)

 6. Sigurður Árni skrifar:

  Matthías, nafn þitt merkir Guðsgjöf. Það er gott, þú ert gjöf Guðs og hið guðlega er þér samfléttað. Öll börn eru Guðsgjöf. Þau eru alltaf velkomin, skírð eða óskírð - stundum njóta þau trúboðs - stundum ekki - en alltaf eiga þau að njóta óaðgreinandi elskusemi sem rímar við trúarhöfundinn sem gefur fólki inntak, nafn og líf.

 7. Matthías Ásgeirsson skrifar:

  Sigurður Árni, mikið leiðist mér þegar trúfólk dregur nafn mitt inn í umræðuna. Mér þykir það satt að segja afskaplega ómerkilegt.

  > stundum njóta [börnin] trúboðs

  Já, þetta þykir mér skemmtilega orðað :-) Afskaplega sjúkt, en um leið dálítið pent.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2909.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar