Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfundLeita

Arna Grétarsdóttir

Bókaðu þig á stefnumót við lífið – mættu í messu!

Stefnumót við lífið

Veistu að í kirkjunni þinni, í hverfinu þínu er margt á dagskrá! Þar er þér boðið á stefnumót við lífið sjálft. Það eru ekki margir sem gera sér grein fyrir því að sú trú sem boðuð er innan kirkjudyranna, rétt við bæjardyrnar þínar, hvar sem þú býrð á landinu, byggir upp og nærir hverja sál.

Andrúmsloftið eitt og sér vitnar um þann frið og kærleika sem heilagur andi ber með sér. Hið sanna heilaga andrúmsloft sem við finnum fyrir í kirkjunum fylgir engum mennskum manni heldur er gefið af himnum ofan. Það er nefnilega Heilagur andi sem við getum fundið fyrir ef við opnum tilfinninganema okkar. Heilagur andi getur verið svo hógvær að við tökum einfaldlega ekki eftir honum.

Sá ljúfi andi sem Guð faðir og sonurinn Jesús Kristur sendir okkur á sér engan auglýsingabækling sem er myndum prýddur og litum skreyttur. Nei, heilagur andi á sér svart hvítan auglýsingabækling sem líklega liggur í hillum margra landsmanna og það góða rit sem hér um ræðir, heilög Biblía, lendir ekki í ruslatunnunni þó rykug og litlaus sé í útliti. Heldur er hún bara þarna. Fær að liggja þarna og er hluti af heimilinu þínu. Kannski geturðu tekið hana fram og gefið henni hefðarstað yfir hátíðar, opnað hana, lesið nokkur orð og hver veit nema að sú góða bók fái að fylgja þér inn í hversdaginn.

Hvað þarf til að snerta sálu þína? Hvað þarf til að þú bókir nú stefnumót við lífið í sinni fegurstu mynd?

Það líf sem lifir og nærist á glimmeri og glamúrauglýsingum, málskrúð og yfirlæti ofgnóttar er ekki alvöru líf. Við skulum læra að þekkja það og hafna því. Þar ríkir tómleiki og ótryggð, baknag og samstöðuleysi og þar er að finna hina verstu kreppu sem um getur: andlega kreppu. Mundu það líka að heilagur andi getur verið svo sjálfsagður í lífi okkar að við finnum ekki fyrir honum fyrr en hann vantar í líf okkar.

Jesús sagði: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið“ (Jóh….) Hvaða önnur gildi viltu hafa í lífi þínu en nákvæmlega þau sem Jesús kennir, aftur og aftur. Farðu nú af stað og gerðu eitthvað í þínum andlegu málum. Farðu í messu á sunnudaginn. Bókaðu þig á stefnumót við lífið og mættu í messu í kirkjuna sem er við bæjardyrnar hjá þér eða mættu í annað það starf sem í boði er í kirkjunum og taktu þér sæti við hlið þeirra fjölmörgu sem þangað koma. Láttu ekki andlega heilsu þína sitja á hakanum, taktu þér bók bókanna í hönd, eigðu samfélag við trúaða og náðu þér í ef þú þarft trúarlega handleiðslu hjá prestinum þínum eða djákna. Guð blessi þig, styrki og leiði í þeirri trúarlegu vegferð.

Um höfundinn3 viðbrögð við “Bókaðu þig á stefnumót við lífið – mættu í messu!”

 1. Sigríður M. Jóhannsdóttir skrifar:

  Þakka þér fyrir góðan boðskap Kæra Arna þessi pistill á erindi til allra góðra manna. Takk fyrir það.
  Með kveðju og þökk fyrir síðast.

 2. Þórður Guðmundsson skrifar:

  Ég er ekki alveg nógu ánægður með þetta. Stefnumót við lífið. Er það bara í lúterskri messu og hvergi annars staðar? Það er jú gott að koma í andaktina í 3 korter á sunnudegi en ekki neitt sérstakt að hafa engan til að tala við eftir messu og sjá prestinn í mýflugumynd þar fyrir utan. Ég teldi það gott fyrir prestana að gefa gaum að þeim einmana sálum sem mæta til messu og hafa engan til þess að tala við og aðstoða þetta fólk við að finna sér stað innan kirkjunnar. Miklu fremur en að koma með svona glassúrkrem-boðskap!

 3. Arna Grétarsdóttir skrifar:

  Takk fyrir það Sigríður og sömuleiðis takk fyrir síðast.

  Þórður! Það má vel vera að betur mætti gera í því að mæta kirkjugestum í kristnum kirkjum og ég er sammála því að við þurfum að huga sérstaklega að þeim sem eru einmana. Eins held ég að það sé rétt hjá þér að við þurfum að aðstoða við að fólk finni sér stað innan kirkjunnar. En ég held því ekki fram að heilagan anda eða trúarlíf sé aðeins að finna í lútherskum kirkjum. Svo er það nú þannig með lífið að ég get ekki hugsað mér það án heilags anda og andinn er svo sannarlega nærri í bænasamfélaginu.
  EIns fyndið og það nú er þá heyrði ég einu sinni heilagri þrenningu líkt við snúð; Guð faðir var hveitið, Jesús Guðs sonur var kanel sykurinn og heilagur andi var glassúrinn:)

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2870.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar