Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Gunnþór Þ. Ingason

Blessun Barokkorgels Hafnarfjarðarkirkju

Orgel nýtt með unaðs Barokk hljómi
innst í kirkju mótar helgan brag,
raddir tólf með tign og fögrum ómi,
trú og elsku gefa söng og lag.
Smíðað er að fornum fyrirmyndum,
frábærustu verka Silbermann,
eys Wegscheider af hans fróðleiks lindum,
orgelsmíðin góða lofar hann.

Þríeinn Guð þó lofið helsta hlýtur,
hefur gefið færni, vilja og þrá,
gjöful hönd og hjarta bænar nýtur,
handverk allt er tignarlegt að sjá.
Orgel kirkju hvort með sínu lagi,
kallast á og hljómurinn er tær,
eru bæði best í sínu fagi,
bera vott um náð sem helgað fær.

Blessun Guðs og bænir orgel vígja,
blessa líka hljóm og tónaflóð,
kirkjuorgel, eldra sem hið nýja
æðri sviða gefa frá sér hljóð.
Lofsöngstónar lífið gleðja og hlýja,
list er sækir föng í trúar sjóð,
orgeltónlist illska og myrkur flýja,
elsku boðar, kærleiks sigurljóð.

Kantötur vel Barokkhljóminn bera,
Bachs verk, máttug, hrífandi og glæst,
eins það Handels orgelfúgur gera,
upp þær vísa á tind sem gnæfir hæst,
sál og vitund hefja langt til hæða,
helgur andans blærinn snertir þær,
helgir tónar trúarvitund glæða,
trúarkennd er finnur Guð sér nær.

Birti trú og tónskáldanna snilli
tónadýrð sem hljóðfæranna mál,
heilög tónlist fagra kirkju fylli
fögnuði sem vermi hug og sál.
Hafnarfjarðarkirkju kostagripir
Krist með tónum boði listavel,
trúna votti gæska og gleðisvipir,
göfug list og einlægt kærleiksþel.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2074.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar