Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfundLeita

Jón Helgi Þórarinsson

Þakkargjörð að hausti

Haustber

Enn einu sinni úti er sumartíð
Lof þitt ei linni, líknin Drottins blíð.
tíð og tími breytist
tryggð þín Drottinn minn,
eldist ei né þreytist
eins og heimurinn.
Enn þú leiddir oss við hönd,
enn þú greiddir meinin vönd,
enn þú breiddir yfir lönd
arminn varma þinn.

Þegar ég hóf prestsskap fyrir rúmum aldarfjórðungi kynntist ég þessum haustsálmi séra Valdimars Briem, sem er númer 482 í sálmabókinni. Tók ég strax ástfóstri við hann og hef látið syngja hann flest haust við helgihald í söfnuðum mínum. Sálmurinn tjáir einlægt þakklæti til Drottins Guðs fyrir sumarið sem að baki er, fyrir allar þær góðu og miklu gjafir skaparans sem þar birtust okkur og við njótum til líkama og sálar.

Fyrir hvern geislann fríða,
fyrir hvert þakkartár,
fyrir hvern blæinn blíða,
blessun lífs og fjár,
fyrir hvert blóm á frjórri grund,
fyrir hvern óm sem gladdi lund,
þér skal hljóma hverja stund
heiður síð og ár.

Margar kirkjur og þjóðir hafa sérstakan þakkargjörðardag að hausti. Svo er ekki hér á landi, þó svo að slíkir dagar séu haldnir með ýmsu móti til sveita, samanber töðugjöld sem víða eru haldin sem þakkarhátíð þegar hey eru komin í hlöðu og því hægt að fóðra skepnur á vetri komanda. Við höfum flest þörf á því að þakka Guði fyrir sumarið, fyrir birtu þess og fegurð, blómskrúð og dýralíf sem veitir ómældan unað, fyrir aflabrögð og ekki hvað síst fyrir ávöxt jarðar sem við fáum notið, fyrir grænmetið, berin og annan jarðargróða sem við höfum undafarnar vikur tekið upp og tínt og veita okkur ómælda næringu og gleði.

Það er mikilvægt að þakka. Það var okkur kennt í frumbernsku. Sá sem þakkar veit hvað hann hefur þegið og er einnig minntur á að fara vel með það sem hann hefur. Ég tel æskilegt að koma á sérstökum þakkargjörðardegi að hausti í íslensku kirkjunni, a.m.k. að hver söfnuður hefði slíkan dag þegar haustið er gengið í garð. Þakklæti fyrir allar þær gjafir sem við njótum yrði að sjálfsögðu meginþemað, eins og haustsálmur séra Valdimars tjáir. En því til viðbótar ættum við einnig að íhuga á þessum degi ábyrgð okkar á því að fara vel með gjafir Guðs, auðæfi jarðar til lands og sjávar sem og í lofti. Það er íhugunarefni sem kristin kirkja verður að gefa æ meira rými í predikun og fræðslu, enda mjög afdrifaríkt fyrir mannkyn allt og framtíð okkar hér á jörðu hvernig tekst að stýra þeim málum næstu áratugi.

Tíð og tími breytist

Skáldið minnir okkur á í sálmi sínum að allt breytist hér á jörðu, ekkert sem skapað er og er undir tímanum varir um eilífð, haust og vetur koma á eftir vori og sumri. Við mennirnir og okkar störf eru þar ekki undanskilin. Það vitum við en virðumst þó stundum gleyma því eins og breytni okkar sýnir á stundum og 3. erindi sálmsins fjallar um. Áminningin um forgengileikann er okkur því ætíð holl, og skal fá okkur til að íhuga hvað það er sem mestu skiptir að hafa í heiðri og hávegum í lífi og starfi og hvernig við notum hæfileika okkar, tíma og krafta.

Í síðasta erindi sálmsins heimfærir skáldið myndina af haustinu upp á líf okkar manna, ævigöngu sem hefur sinn endi allt eins og upphaf. Eftir sumartíð haustar í lífi hvers manns, og að lokum leggur hann niður lit og blöð.
En þótt tíð og tími breytist þá breytist hvorki ást Drottins Guðs eða tryggð.

Tryggð þín Drottinn minn
eldist ein né breytist
eins og heimurinn.

Drottinn Guð er sá sem einn er óbreytanlegur, hinn sami frá eilífð til eilífðar, sá sem skapar okkur og líf allt, þau undur lífs sem við njótum hvert sumar, á hverri árstíð, allt frá því líf okkar kviknar og þar til það slokknar hér á jörðu í hinsta sinni. Kristin kirkja tekur undir þessa játningu skáldsins, setur von sína og traust til Drottins Guðs og væntir þess að þegar lífi okkar lýkur hér á jörðu reisi Drottinn okkur upp til nýs lífs fyrir Jesú Krist, leiði heim í himininn hvar ‘eilíf sólin skín.’

Enn einu sinni upp hefst vetrartíð.
Blóm láðs þótt linni, líkn þín dvín ei blíð.
Höndin þín mér hlúi,
hret er vitja mín,
sælt mér sumar búi
síðar náðin þín.
Sumar, vetur, vor og haust
von ég set á þig og traust.
Eftir hretin endalaust
eilíf sólin skín.

Um höfundinn3 viðbrögð við “Þakkargjörð að hausti”

 1. Bernharður Guðmundsson skrifar:

  Þetta er afar góð hugmynd, og reyndar undarlegt að slíkar guðsþjónustur eru ekki löngu komnar á formlega. Margir prestar minnast þó gjarnan góðrar uppskeru í messum á haustin.
  Og þetta hefur víðari skírskotun, borgarbúinn sem kemur endurnærður til starfa eftir gott sumarfrí,fjölskyldurnar sem taka slátur að gömlum
  sið, gera sultur og saft og safna í frystikistu,eins og þú minnist á, foreldrar sem hafa endurheimt börn sín úr ferðalögum um framandi lönd í sumar með fulla poka af lífsreynslu og hverfa sæl í skólann að hausti
  Þú þiggur það eitt sem þú þakkar

 2. Pétur Snæbjörnsson skrifar:

  Þetta er auðvitað snilldarhugmynd sem nauðsynlegt er að fylgja eftir sem allra fyrst.

 3. Einar Sigurbjörnsson skrifar:

  Góður pistill og góð tillaga. Mikjálsmessa, 29. sept., var á sínum tíma þakkargjörðardagur hér skv. Ordinansíunni. Það ætti að vera auðvelt og er fyllilega þess virði að endurvekja þá hátíð með því að gefa henni það inntak.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2727.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar