Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfundLeita

Gunnlaugur A. Jónsson

Kenning um ranga þýðingu ekki eins merkileg og af er látið

Biblían á hebresku

Staðhæfing prófessors Ellen van Wolde í gær um að fyrsta vers Biblíunnar eigi að þýða á annan hátt hefur vakið meiri athygli en efni standa til. Hin hefðbunda þýðing á upphafsversinu „í upphafi skapaði Guð himin og jörð“ hefur löngum verið umdeild og margir virtir guðfræðingar hafa hafnað því að um sé að ræða sköpun úr engu, og telja að í þess stað sé verið að lýsa óreiðu sem var í upphafi þegar Guð hóf sköpunarstarf sitt. Þessar niðurstöður hafa menn sett fram fyrst og fremst á málvísindalegum grundvelli. Þannig að nýmælið í kenningu van Wolde er engan veginn svo mikið sem látið er í veðri vaka.

Í fréttum Stöðvar tvö í gærkvöldi var, eins og víða um heim, sagt frá því að prófessor Ellen van Wolde, prófessor við Tilburgháskólann í Hollandi, hefði komist að því að sögnin „bara“ sem jafnan hefur verið þýdd með sögninni að skapa sé ranglega þýdd í upphafsversi Biblíunnar. Heldur beri að þýða hana með sögninni að aðskilja eða greina í sundur og því ætti að standa: „Í upphafi aðskildi Guð himin og jörð.“

Röksemdir van Wolde fyrir þessari niðurstöðu liggja ekki fyrir en ég leyfi mér þó að efast um að þær geti verið sannfærandi því að svo rækilega hefur sögnin „bara“ verið rannsökuð. Og skoði maður aðra þá fjölmörgu staði sem sögnin kemur fyrir á í Gamla testamentinu þá virðist yfirleitt alveg fráleitt að þýða hana með sögninni að aðskilja.

Auk þess vill svo til að höfundur sköpunarsögu 1. kafla Biblíunnar (yfirleitt kennd við svokallað Prestarit eða P-heimild) þekkti vel og notaði meira að segja aðra hebreska sögn sem merkir einmitt að aðskilja þ.e. hebresku sögnina „hibdil.“ Það er því vandséð hvers vegna höfundurinn hafi ekki einfaldlega notað þá sögn, sem honum var svo töm, í upphafsversinu hafi hann ætlað að tala um aðskilnað í staðinn fyrir sköpun.

Það má líka benda á að sögnin „bara“ stendur oft sem hliðstæða eða í svokölluðu hugsanarími við sagnirnar „asah“ = að gera og „jatsar“ = að mynda. Þá má nefna í 2. Mósbeók 20. kafla, v. 11 segir að Guð hafi gert („asah“) „himin og jörð“ á sex dögum. Þar er alveg sama hugsun á ferðinni, bara önnur sögn yfir sköpunarþáttinn, sögn sem sannanlega merkir ekki að „aðskilja.“

Sögnin „bara“ er hins vegar um margt afar merkileg sögn og hefur t.d. aldrei neitt annað frumlag en Guð, öfugt t.d. við sagnirnar „asah“ og „jatsar“.

Um þetta mætti hafa langt mál en ég tel, með þeim nauðsynlega fyrirvara að röksemdir van Wolde hafa ekki enn ekki birst, að kenning hennar fái ekki staðist.

Hitt má að lokum árétta að ýmsir virtir biblíufræðingar hafa löngum haldið því fram að ekki sé verið að ræða um sköpun úr engu í upphafi sköpunarfrásögu P-heimildarinnar og rétt sé að þýða með tíðarsetningu í upphafi, eitthvað á þessa leið: „Þegar Guð hóf í upphafi að skapa himin og jörðin var jörðin auð og tóm og myrkur grúfði yfir djúpinu en andi Guðs sveif yfir vötnunum (sumir vilja þýða hér á enn annan veg: „en mikill vinur geisaði yfir vötnunum“) þá sagði Guð: Verði ljós!“

Samkvæmt þessum skilningi ríkir í upphafi sköpunarinnar ástand sem einkennist af óreiðu (kaos) og sköpun Guðs felst í því að gera skipulegan heim (kosmos) úr óreiðunni. Sköpunarverkið hefst þá í 3. versinu með því að ljós er skapað.

Það er því fjarri því ný kenning að halda því fram að upphafsvers Biblíunnar fjalli ekki um sköpun úr engu („creatio ex nihilo“) . Og þess vegna leyfi ég mér að segja að kenning van Wolde sætir ekki þeim miklu tíðindum sem af er látið. Kannski er fyrst og fremst um að ræða velheppnaða kynningu hjá útgefanda hennar.

Um höfundinn2 viðbrögð við “Kenning um ranga þýðingu ekki eins merkileg og af er látið”

  1. gunnlaugur.annáll.is - » Sköpun eða aðskilnaður? Fjölmiðlar ræða sköpunarsöguna skrifar:

    […] Sjá líka birtingu á: http://tru.is/pistlar/2009/10/kenning-um-ranga-thydingu […]

  2. Adda Steina skrifar:

    Takk fyrir þennan skemmtilega pistil. Ég missti af fréttinni en það gerir pistilinn ekkert minna áhugaverðan.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3149.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar