Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfundLeita

Þorvaldur Víðisson

,,Hvernig væri nú að fá sér bara nýjan maka?” - sjálfsmynd og kynhegðun unglinga

Pólskur einstaklingur sagði við mig um daginn: „Aldrei kynntist ég því í Póllandi að karlmaður ætti fimm börn með fimm konum! Hvað er eiginlega að siðferðinu hér á Íslandi?“ Ég átti nú ekki mörg svör við þeirri spurningu en varð svolítið hugsi.

Umburðarlyndi er mjög ríkjandi í íslensku samfélagi og áhersla á frelsi og meira frelsi hefur átt upp á pallborðið. Það virðist sjálfsagt mál að hjón skilji, semji bara um sameiginlegt forræði eða mjög ákveðinn og niðurnegldan umgengnisrétt við börnin sín. Við dáumst að foreldrum sem geta eftir skilnað haldið samskiptunum í lagi, pabbahelgarnar og mömmufríin og það allt hitt. En af hverju hneykslumst við ekki á því að fólk ákveður að skilja? Réttindi hverra og hvaða hagmuni er hjónabandinu ætlað að standa vörð um? Ég held að það sé fyrst og fremst þeirra sem geta ekki borið hönd yfir höfuð sér og barist fyrir sínum rétti, það er barnanna.

Fyrir skömmu hélt Náum áttum hópurinn málþing um sjálfsmynd og kynhegðun unglinga. Ljóst má vera af áhugaverðum framsöguerindum að breyting virðist hafa orðið á síðustu árum á afstöðu ungmenna til kynlífs og samskipta kynjanna. Aukið ábyrgðarleysi og lágt sjálfsmat ungmenna virðist einkenna þá breytingu.

Áhrifavaldar eru án efa margir en tvennt var mikið til umræðu á góðu málþingi. Í fyrsta lagi ágangur sumra fjölmiðla, bíómynda, tónlistar og þeirrar menningar sem hefur markvisst markaðsett kynlíf fyrir unglinga. Í öðru lagi vanmáttur foreldra, skólakerfisins og annarra að svara þeim breyttu aðstæðum.

Dagbjört Ásbjörnsdóttir deildarstjóri ÍTR flutti áhugaverða framsögu með yfirskriftinni„Kenndu mér að segja já, þá veit ég hvenær ég á að segja nei!“ Hún talaði meðal annars um nauðsyn þess að kynfræðsla væri á nótum ábyrgðar og jákvæðni í stað hræðsluáróðurs. Því jákvæðni og ábyrgð stuðlar frekar að sterkari sjálfsmynd ungmenna. Hún sagði frá áhugaverðri rannsókn sem hún hefur staðið fyrir og verkefni sem hún kallar„Ego“.

Sólrún Ósk Lárusdóttir sálfræðingur hjá fjölskyldumiðstöð Árborgar hélt framsögu undir yfirskriftinni„Barn í blóma - forvörn til framtíðar“. Hún sagði meðal annars frá spennandi verkefni og námskeiði sem unnið er í sveitarfélaginu Árborg. Upplýsingar um námskeiðið er að finna á heimasíðunni www.barnibloma.com.

Síðast en ekki síst vil ég nefna framsögu ungmenna úr ungmennaráði Barnaheilla. Þau ræddu um auglýsingar og áhrif þeirra á ungmenni. Það var skemmtilegt að sjá og heyra hve meðvituð þau eru um þau áhrif sem fjölmiðlar hafa á uppeldi og sýn ungmenna. Ef rödd þeirra er rödd meirihluta ungmenna í dag þá er kannski ekki þörf á því að hafa áhyggjur af framtíðinni.

Margir þættir hafa áhrif á siðferði og sjálfsmynd ungmenna. Við þurfum án efa að líta okkur nær til að finna mesta áhrifavaldinn á sjálfsmynd og kynhegðun ungmenna. Breytni okkar sem fullorðin eru, samskipti foreldra við hvort annað og börnin sín og umgengni um helgidóma hjónabandsins skipta þar miklu máli.

Um höfundinn7 viðbrögð við “,,Hvernig væri nú að fá sér bara nýjan maka?” - sjálfsmynd og kynhegðun unglinga”

 1. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  Takk fyrir pistilinn Þorvaldur. Ég er sammála þér að sjálfsmynd og kynhegðun unglinga er mikilvægt efni sem við þurfum að skoða vel og mikilvægt er að við styðjum foreldra vel á þessu sviði sem öðrum.

  Ég er líka sammála þér að samskipti foreldra á heimilum, við hvert annað og við börnin sín, skipta höfuðmáli. Um leið þurfum við að vera okkur meðvituð um að fjölskyldumynstrin hafa breyst heilmikið á undanförnum árum og að í mörgum tilvikum koma fleiri að uppeldi barna og unglinga en bara einn pabbi og ein mamma. Við þurfum að styðja við og styrkja alla þessa aðila og gera þau myndug til að taka þátt í umræðunni.

  Eitt að lokum. Þú skrifar:

  Við dáumst að foreldrum sem geta eftir skilnað haldið samskiptunum í lagi, pabbahelgarnar og mömmufríin og það allt hitt. En af hverju hneykslumst við ekki á því að fólk ákveður að skilja?

  Ég veit ekki hvort ég skil þessar setningar rétt. Í fyrri hlutanum ertu að tala um að við hrósum þeim foreldrum sem eiga jákvæð og uppbyggileg og góð samskipti eftir skilnað. En hvaða hóp ertu að hugsa um í síðari hlutanum? Hefur þú í huga almenna hneykslun á skilnaði, óháð aðstæðum? Og telur þú að slíkt væri gagnlegt eða uppbyggilegt?

 2. Halla Sverrisdóttir skrifar:

  Ágæti Þorvaldur!

  Foreldrar mínir skildu og ég varð hvorki lauslát né siðlaus af því. Sömu sögu má segja um fjölda annarra á mínum aldri sem ég þekki. VARIST ALHÆFINGAR!!!! Hins vegar átti ég prýðileg og uppbyggileg samtöl við báða foreldra mína um mannleg samskipti, kynlíf og siðferði - bæði á meðan þau voru gift og eftir að þau skildu. Þau samtöl og þann boðskap sem í þeim fólst mun ég reyna að hafa að fyrirmynd þegar ég ræði við mín börn um þetta efni. Ég þekki nokkra sem hafa ákveðið að skilja við maka sinn og í hverju tilfelli hefur sú ákvörðun verið tekin eftir langt og strangt íhugunar- og sáttatilraunaferli. Það eru eflaust einhverjir sem skilja við maka sinn eftir geðþótta og haga sér eins og hálfvitar á flestum sviðum - en ég leyfi mér bara að varpa fram þeirri spurningu hvort það fólk væri eitthvað skárri uppalendur saman en í hvort í sínu lagi? Hjón eru jafnfær um að klúðra uppeldi barnanna sinna en fráskildir foreldrar, held ég barasta.

 3. Kristín Þórunn skrifar:

  Gaman að lesa um þetta málþing um sjálfsmynd og ábyrgð í kynhegðun unglinga.

  Fjölskyldumál eru höfuðmál. Þess vegna skiptir mjög miklu máli hvernig við tjáum okkur um fjölskyldur og einstaklinga í fjölskyldum, ekki síst á kirkjulegum vettvangi. Mér finnst oft að við gætum gert svo miklu betur. T.d. er leiðinlegt að sjá hvernig ákveðinn hópur er aftur og aftur tekinn út og meðhöndlaður sem verri og mislukkaðri en annar.

  Það er gryfja sem mér finnst því miður að pistlahöfundur falli í, þegar hann tengir veruleika barna sem eiga foreldra sem ekki búa saman, við vanlíðan og ágyrgðarleysi í kynhegðun.

  Við erum sammála um að framkoma og breytni fullorðinna við börn, er lykilatriði í því hvernig sjálfsmynd þeirra mótast. En það er alltof billegt að gera hjúskaparstöðu að því sem greinir á milli þeirra sem eru almennilegir við börnin sín og þeirra sem eru það ekki.

  Fjölskyldumál tengjast líka samskiptum og stöðu kynjanna. Ég fatta ekki alveg hvað tilvitnunin í pólska einstaklinginn á að segja okkur í upphafi pistilsins. Ég veit bara að staða kvenna í hinni kaþólsku Austur-Evrópu er varla það sem við veljum okkur til innblásturs og eftirbreytni á Íslandi í dag.

  En þetta er verðugt umræðuefni og pistlahöfundur fær þakkir fyrir að gefa færi á því að skiptast á skoðunum um þetta mikilvæga mál.

 4. Arna Grétarsdóttir skrifar:

  Það væri að mínu mati óviðeigandi að hneykslast á sorg og vanlíðan annarra. En það er sá raunveruleiki sem bæði börn og fullorðnir ganga í gengum þegar skilnaður á sér stað.

  Við hrósum auðvitað þegar vel er gert - þegar mömmu- og pabbahelgar/frí og þau öll samskiptin ganga vel fyrir sig.

  Við mættum vera duglegri við það að hrósa góðum hjóna/frí/helgum og þeim samskiptum sem ganga vel fyrir sig í hjónabandi.

 5. Guðrún skrifar:

  Takk fyrir að segja frá þessari ráðstefnu sem virðist hafa verið hin áhugaverðasta.

  Hvað hjónaskilnaði og börnin í því samhengi varðar þá vitum við sem hittum fólk sem stendur í hjónaskilnuðum, að það er algjör undantekning að fólk taki skilnaðinum léttvægt. Þetta á sérstaklega við um fólk sem á börn. Þau sem hafa gegnið í gegnum skilnað þekkja það líka að það er nánast alltaf svo sár og erfið reynsla að ólíklegt er að nokkur heilbrigður einstaklingur velji að skilja og kollvarpa lífi heillar fjölskyldu að gamni sínu. Ég skil ekki alveg hverjum það myndi gagnast að við hneyksluðumst á skilnuðum. Einu sinni var þetta feimnismál og fólk hneykslaðist en ég er ekki svo viss um að öllum hafi liðið betur fyrir það.

  Fjölskyldugerðir hafa breyst mjög mikið og ekki aðeins hér á landi heldur einnig í löndunum í kring um okkur. Fjölskylda er ekki lengur aðeins karl + kona + barn/börn. Þær geta litið allavega út.

  Við eigum að styðja öll þau er ganga í gegnum skilnaði og aldrei að líta niður á þá ákvörðun fólks, því hún er erfið.

  Ég mæli ekki heldur með því að við tökum kynjahlutverk kaþólskra í Póllandi okkur til fyrirmyndar.

  En það er gott að ræða þessi mál og fá tækifæri til skoðanaskipta.

 6. Elena Teuffer skrifar:

  Sæl öll,

  ég veit ekki, hvort ég misskilji eitthvað hér… Auðvitað er það klunnalega orðað “En af hverju hneykslumst við ekki á því að fólk ákveður að skilja?” og lætur lesandann skilja það eins og það væri samasem merki milli skilnaðar og lauslæti í kynlífi. Fólk skilur ekki “af því bara” og það er svo skemmtilegt eða af því það var bara leið á hvert annað. Skilnaður er persónulegur harmleikur, sem skilur eftir sig ör bæði hjá börnum og fullorðnum.
  Eins og ein sagði hér að ofan er ég sem skilnaðarbarn hvorki siðblint eða lauslát og frekar meira meðvitað um að halda hjónabandið gangandi og leggja mig fram um að láta það endast.

  Það sem hins vegar sat mest í huga hjá mér eftir lestri pistils í gær voru þessi upphafsorð:
  „Aldrei kynntist ég því í Póllandi að karlmaður ætti fimm börn með fimm konum! Hvað er eiginlega að siðferðinu hér á Íslandi?“
  Ég hef sjálf hugsað þetta, því ég kynntist þessu hvergi annarsstaðar en á Íslandi (og ég hef búið í ýmsum löndum), að karlmaður sofir sig þvert í gegnum allan bæinn, getur börn á hverju horni og firrir sig svo ábyrgðinni, sem uppalandi hefur.
  Þetta er að mínu mati siðlaust athæfi og vel umhugsunnar virði.

  Hvaða mynd fá börnin þá af ábyrgðu kynlifi?
  Að það sé í lagi að sofa hjá með hverjum sem er? Að geta börn en hugsa ekki um þau?
  Að karlpeningurinn má skemmta sér á kostnað konunnar, sem situr svo uppí með barnið og verður að sjá ein um það?
  Er þessi hegðun í lagi?

 7. Þorvaldur Víðisson skrifar:

  Kæru Árni Svanur, Halla, Kristín Þórunn, Arna, Guðrún og Elena!

  Þakka ykkur fyrir að bregðast við þessum litla pistli. Það er ekki ásetningur minn að særa tilfinningar einhverra með skrifum mínum en hafi ég gert það biðst ég afsökunar á því.

  Ég geri mér grein fyrir því að framsetning mín og hugtakanotkun er töluvert á jaðrinum og því kemur það mér ekki á óvart að pistillinn hafi fengið svolítil viðbrögð.

  Skilnaður er aldrei gamanmál eða léttvægur fyrir þá sem ganga í gegnum hann, sambúðarfólk, hjón og fjölskyldur. Hins vegar er alltaf til ákveðinn hópur fólks sem finnst mannleg samskipti í sérhverri mynd léttvæg og af þeim hópi hef ég svolitlar áhyggjur.

  Hvatinn af pistlinum eru hins vegar vangaveltur mínar í kjölfar málþingsins um sjálfsmynd og kynhegðun unglinga. Það er eitthvað í íslenskri þjóðarsál sem segir að það sé í lagi að finna sér annan maka. Mér finnst það umhugsunarvert og út af fyrir sig hlýtur það að hafa áhrif á möguleika okkar að taka á breyttri kynhegðun unglinga og lægra sjálfsmati.

  Af hverju finnst okkur það ekkert tiltökumál að einstaklingar eigi börn með fleiri og fleiri mökum? Mér sjálfum finnst það ekkert til að hneykslast á eða gera athugasemd við, þetta er einfaldlega raunveruleikinn sem við búum við. Foreldrar standa sig oft býsna vel í kjölfar skilnaðar og hafa hagsmuni barnanna og tilfinningar iðullega á oddinum. Ég þekki mörg dæmi þar sem ég dáist að því hvernig foreldrar höndla nýjar fjölskyldumyndir og flókin samskipti.

  Hins vegar hef ég ekki gott svar við þessari spurningu, af hverju mér finnist það ekki tiltökumál að fólk eignist börn með fleiri en einum einstakling. Ég finn ekki annað svar en það að þjóðarsálin og menning okkar segir að þetta sé í lagi. Varðandi samanburð við önnur lönd þá hef ég ekki gert neina vísindalega úttekt á því. Ég held það sé samt ekki tilviljun að viðhorf viðmælanda míns frá Póllandi skyldi vera á þessum nótum því eins og máltækið segir: ,,Glöggt er gests augað!“

  Ég upplifi eigin vanmátt í þessari umræðu. Sá vanmáttur birtist meðal annars í togstreytunni milli heilbrigðra, jákvæðrar umræðu sem nauðsynlegt er að eiga við börn og unglinga um kynhegðun og kynlíf og svo þeirrar framsetningar á kynhegðun sem birtist í sjónvarpsþáttum, tónlistarmyndböndum og fleiru.

  Gjarnan er það viðhorf einnig ríkjandi í okkar samfélagi að nauðsynlegt sé að finna rétta makann svo hægt sé að lifa hamingjusömu lífi. Kannski ætti maður frekar að reyna að vera rétti makinn og hafa það að markmiði að makinn manns lifi glaðar stundir og hamingjusaman ævi.

  Eins og þið heyrið þá hef ég fleiri spurningar en svör. Umræðan finnst mér mikilvæg.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 5443.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar