Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Sigurjón Árni Eyjólfsson

Fórn, friðþæging og fyrirgefning

Út um gluggann

Í íslensku samfélagi er tekist á um hvort samhengi sé á milli fórnar, friðþægingar og fyrirgefningar. Menn spyrja: „Er ekki sú skuldabyrði sem búið er að koma íslensku þjóðinni í, þess eðlis að hún útiloki fyrirgefningu?“ Í þessu samhengi hafa þær raddir hafa að mestu hljóðnað sem vísuðu á aðra eða vildu gera heimskreppuna og aðra „örlagavalda“ ábyrga fyrir stöðunni. Raddir þeirra sem sögðu „þetta var allt löglegt“ og hvísluðu þegar best lét „en kannski siðlaust,“ eru að mestu þagnaðar. Þær vöktu líka einungis reiði. En hugtökin sekt og fórn, friðþæging og fyrirgefning krefjast samt sem áður útleggingar og heimfærslu inn í okkar aðstæður.

Í kristninni hefur lengi verið glímt við þessi hugtök og kross Krists gerir rétta túlkun þeirra aðkallandi. Ef til vill gæti sú umfjöllun nýst okkur Íslendingum í leit að trúverðugu svari. 1

Friðþægingarkenningar

Guðfræðilegur vandi

Hugtakið friðþæging snýr að sambandi tveggja sem er í uppnámi. Gefum okkur að orsök þess sé að finna í því að annar aðilinn hefur brotið alvarlega gegn hinum. Brotið er þess eðlis að bæta verður fyrir skaðann. Hægt að ímynda sér friðþægingu, þar sem hinn seki bætir fyrir brot sitt með gjörð sem leiðir til þess að sátt skapast og eðlilegu jafnvægi er aftur komið á. Við getum kallað það hlutlæga friðþægingu.

Það er líka hægt að hugsa sér friðþæginguna á þann veg að sá sem brotið var á tekur á sig skaðann og fyrirgefur hinum seka. Slíkt má kalla huglæga friðþægingu. Þegar ritningin er lesin með þetta í huga er greinilegt að Guð tekur á sig afleiðingar syndarinnar í Jesú Kristi og fyrirgefur mönnum. Friðþægingin, sem fyrirgefningin vex af, er verk Guðs. Og hún kostar Guð mikið. Friðþægingin byggist á boðun, verki og fórn Jesú Krists. Hún hefur því í Nýja testamentinu bæði huglæga og hlutlæga skírskotun. Þetta samhengi reyndi guðfræðingurinn Anselm frá Kantaraborg (1033–1109) að setja upp í kerfi. Að hans mati hafði maðurinn í uppreisn sinni gegn Guði syndgað gegn heilagleika Guðs. Sekt mannsins var svo mikil að honum var ókleift að bæta fyrir brot sitt. Aftur á móti krafðist það lögmál sem alheimurinn laut að úr þessu yrði bætt. Sonur Guðs tók það því að sér að færa þá fórn sem til þurfti. Friðþægingardauði hins syndlausa sonar bætti skaðann og kom á sátt milli Guðs og manns. Þetta er athyglisverð kenning, en hún hefur þó einn galla: Það er búið að setja Guð ásamt öllu öðru undir einhverja heimsskipan sem allt verður að lúta. Slíkt samræmist ekki almætti Guðs.

Mannfræðilegur vandi

Við lendum ef til vill í enn meiri erfiðleikum ef við lítum á krossinn frá mannlegu sjónarhorni. Immanuel Kant (1724–1804) bendir réttilega á að þó að menn geti tekið við peningaskuld fyrir annan, þá eigi slíkt ekki við um siðferðisbrot. Hver og einn verði að bera sína sekt og það sé óþolandi að saklaus þurfi að líða fyrir sekan.2 Maðurinn sem einstaklingur verður að gera upp samband sitt við Guð og hann getur ekki varpað því á annan.3 Krossdauða Krists beri vegna þessa að skilja sem staðfestingu á kenningu Jesú en ekki sem friðþægingardauða.

Siðferðilegur vandi

Í ritningunni er boðað að við eigum að fyrirgefa náunganum án þess að krefjast borgunar, jöfnunar eða leita hefnda. Hvernig getum við þá réttlætt friðþægingu Krists á krossinum siðferðislega? Er Guð ekki kominn í mótsögn við sjálfan sig? Á það sem boðað er í fagnaðarerindinu um kærleika ekki við um Guð? Yfirvinnur Guð ekki illt með góðu?

Íhugun guðfræðinnar dregur fram þessa þrjá gagnrýnisþætti. Það sem einkennir þá gagnrýni er að útgangspunkturinn er einstaklingurinn sem sjálfstæð stærð. En vandi þessara nálgunar er aftur á móti sá að hér er ekki hugað sem skyldi að þeim veruleika sem maðurinn er hluti af, að því þéttofna neti sambanda sem mótar allt líf okkar. Það er gert í Biblíunni. Þess vegna er í Nýja testamentinu bæði áhersla á hið huglæga og hið hlutlæga í túlkuninni á krossdauða Jesú. Í boðskap þess eru myndir sem tengjast báðum nálgunum notaðar til að orða það að Guð sættir mannin við sig í Kristi (2Kor 5.18). Til að skilja þetta betur þarf að huga nánar að hinum hlutlæga skilningi.

Syndin sem sambandleysi

Það snertir við okkur að lesa frásögur guðspjallana af krossfestingunni, skoða listaverk og hlusta á tónverk henni tengd. Það er eins og í þeim séum við komin í miðju veruleikans, sem er mótaður af spennu lífs og dauða. Við skynjum að gjörðir okkar og staða eru hluti af stærra samhengi sem ber í sér glötun. Við höfum þannig meðvitað og ómeðvitað kallað yfir saklausa erfiðleika, fært sekt og skuldir yfir á aðra. Margir saklausir þjást vegna neysluvenja, lífsgæða og lífskrafna okkar. Þetta er staðreynd sem blasir við í uppbyggingu mannlegs samfélags, efnahagskerfi heimsins eða andspænis þeim umhverfisskaða og skuldasöfnun sem það nærist á.

Svipaður veruleiki mætir okkur þegar við lítum okkur nær og hugum að munstrum hegðunar í umgengni okkar við aðra. Þannig reynum við daglega hvernig að lífið helst gangandi, einfaldlega af því að það eru alltaf einhverjir sem taka okkar stöðu, – taka á sig skellinn – og færa fórnir svo við getum lifað. Lífið er sem ein fórn, við gefum eða fórnum til að mynda ómældum tíma, orku, ást og umhyggju, fé og frama til að vera með þeim sem við elskum.

Sú staðreynd blasir við að við erum hluti af veruleika sem er gegnsýrður af þverbrestum, firringu, sekt og synd. Þessi staða lýtur ekki að tilteknum gjörðum eða mannlegri hegðun, heldur er hún það sem kalla mætti tilvistarleg staða allra manna. Það er eins og þverbrestar tilverunnar gangi í gegnum hjarta mannsins og búi um sig sálar sem ótti og óvissa.
Veruleikinn er ekki einungis undir valdi firringar, heldur dauða líka. En samkvæmt ritningunni er dauðinn ekki veruleiki sem mætir okkur fyrst við lok lífsins, heldur umlykur hann lífið allt og mótar það því. Það er ekki sagt út í bláinn að hver andardráttur sé umvafinn dauða.

Í Biblíunni er þessi tilvistarlega staða mannsins í sekt, synd og dauða túlkuð í samhengi tengsla. Maðurinn lifir svo að segja í trufluðu sambandi við sjálfan sig, náungann og Guð. Þetta firringarástand spillir ekki bara lífinu, heldur virðist það stuðla að sambandsslitum mannsins við sjálfan sig, náungann og Guð. Syndin er í ritningunni skilin sem afleiðing þess að maðurinn hefur snúið baki við Guði og þar með lífinu. Og sá sem snýr sér frá Guði hefur snúið sér að dauðanum, en birtingarmynd hans í lífinu er sambandsleysið.

Samkvæmt þessu er maðurinn ekki til einn út af fyrir sig, sjálf hans er að finna í þeim samböndum sem hann á í. Þegar þau spillast, spillist lífið og það verður máttvana. Þess vegna er dauðinn túlkaður sem endanlegt sambandsrof, tengslaleysi og tóm. Andspænis þessum veruleika má huglægur friðþægingarskilningur sín næsta lítils. Það er vissulega huggun að geta deilt einhverjum þjáningum með öðrum, en það er engin lausn, hvað þá endurlausn. Samkennd er góð, en hún nægir ekki, við þurfum endurlausn, skuldabréf tilverunnar, sem þjakar okkur með ákvæðum sínum, þarf að verða afmáð. Það gerði Guð er hann tók það burt með því að negla það á krossinn (sbr. Kól 2.14).

Niðurstaðan er skýr: við þörfnumst lífssambands sem er sterkara en okkar firrti veruleiki. Við þurfum tengsl sem skapar nýja tilvistarstöðu. Við þörfnumst sambands sem sigrast á firringarstöða mannlegs lífs og setur lífi okkar nýjan grundvöll, grundvöll eilífs lífs. Það verður að frelsa okkur frá algjöru sambandsleysi dauðans og tómsins. Og það er gert á krossi Krists. Jesús Kristur gekk þá leið á enda sem manni og heimi er um megn að ganga. Jesús hafði þegar lagt nýjan lífsgrundvöll manna í starfi sínu og boðun en á krossinum er skrefið stigið til fulls. Hann friðþægir fyrir syndir okkar, hann endurleysir manninn. Hann tekur á sig hið algjöra sambandsleysi dauðans og gengur inn í tómið svo að maðurinn þurfi ekki að stíga það skref. Í þessu samhengi er okkur ljóst að kross Krists er merkingarlaus án upprisunnar. Hún er ekki aðeins staðfesting á því nýja samfélagi sem maðurinn á í Guði, heldur nýsköpun og nýr lífsgrundvöllur. Líf mannsins stefnir að vísu áfram í dauðann, en nú í gegnum hann til eilífs lífs.

Friðþæging, fyrirgefning og mannleg samskipti

Við þurfum því að skilja friðþægingardauða Jesú í samhengi fyrirgefningar. Hvað merkir hún? Fyrirgefningin er eina færa leiðin til að taka á því óréttlæti og sekt sem fólk kallar yfir sig og aðra. Aðrar leiðir eins og að láta sem ekkert sé, hatur og langrækni valda ekki verkefninu.

Að láta sem ekkert sé

Það er ekki mögulegt að leggja fyrirgefningu að jöfnu við það að láta eins og ekkert sé. Sá sem þannig bregst við, tekur ekki brotið alvarlega, hann hundsar þann sem braut gegn honum og sjálfan sig. Það sem virðist við fyrstu sýn velgjörð er það ekki þegar nánar er að gætt. Erfiðleika þess uppgjörs sem ranglætið krefst forðast menn með því að sópa öllu undir teppi. Slík afstaða grefur undan sambandi manna og gerir samskipti yfirborðskennd. Fjarlægð og afskiptaleysi verður niðurstaðan. Það er örugglega til fólk sem er okkur bæði framandi og fjarlægt. Við getum látið sem ekkert sé. En þetta á ekki við þá sem við viljum eiga náin samskipti við. Samskipti rofna þegar þessi leið er farin.

Hefnd

Hefndin tekur brotið alvarlega. Sá sem hefnir sín gengst við sásaukanum sem brotið olli og tekur gjörð og geranda alvarlega. Þetta er út af fyrir sig jákvætt. Í hefnd vilja menn láta hinn líða sama órétt eða meiri skaða en þeir og ná þannig jafnvægi. Hefndin getur vissulega veitt stundaránægju og lausn. En það brot sem gjörðin olli í sambandinu er þar með ekki bætt, heldur hafa menn aðeins skapað enn meiri erfiðleika.

Langrækni

Langræknin tekur brotið alvarlega og eykur vægi þess. Ekki með nýrri gjörð, heldur með því að gefa sig misgjörðinni á vald. Hún setur hana í miðju sambandsins og jafnvel lífs síns og unir sér við að rækta minninguna um brotið. Hún verður sem altari sem líf viðkomandi er lagt á. Langræknin eyðileggur þannig ekki aðeins möguleikann að koma á nýju samabandi, heldur mótar öll önnur sambönd sem viðkomandi á í. Hún étur þannig upp líf fólks að innan.

Fyrirgefning

Fyrirgefningin virðist vera eina leiðin sem virðir jafnt brotið og þann sem braut af sér. Sá sem fyrirgefur tekur brotið alveg jafn alvarlega og sá sem hatar og er langrækinn. En í fyrirgefningunni er viðhorfið að sambandið sé mikilvægara en brotið og þar er greint á milli gjörðar og geranda. Í fyrirgefningunni getum við metið brotið eins og það kemur fyrir og látum það ekki móta viðkomandi persónu. Eða eins og sagt er: „Guð elskar syndarann en hatar syndina.“ Fyrirgefningin starfar í kærleika sem breiðir vissulega yfir allt, en fyrst eftir að hann hefur svipt öllu frá svo að veruleikinn sé virtur eins og hann er. Þannig opinberar Guð okkur veruleika syndarinnar sem höfnun á krossinum, maðurinn hafnar kærleika Guðs og lífinu sjálfu. Í kærleika sínum tekur Guð á sig afleiðingar syndarinnar og veitir lífi mannsins nýjan grundvöll. Þetta orðar Páll svo:

Hvað eigum við þá að segja við þessu? Ef Guð er með okkur hver er þá á móti okkur? Hann sem þyrmdi ekki sínum eigin syni heldur framseldi hann fyrir okkur öll, hvort mundi hann ekki líka gefa okkur allt með honum? Hver skyldi ásaka Guðs útvöldu? Það er Guð sem sýknar. Hver sakfellir? Kristur Jesús er sá sem dáinn er. Og meira en það: Hann er upprisinn, hann er við hægri hönd Guðs og hann biður fyrir okkur. Hver mun gera okkur viðskila við kærleika Krists? Mun þjáning geta það eða þrenging, ofsókn, hungur eða nekt, háski eða sverð? Það er eins og ritað er:
Þín vegna er okkur dauði búinn allan daginn
og við metin sem sláturfé.
Nei, í öllu þessu vinnum við fyllsta sigur í krafti hans sem elskaði okkur. Því að ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum. Róm 8.31-39

Ef til vill á þessi boðskapur erindi inn í okkar samfélag í dag, þar sem við glímum við sekt og hatur, reiði og vonleysi og erum að leita leiða sem vekja von, trú og efla samfélag. Það getum við einungis nálgast í ljósi raunhæfrar fyrirgefningar.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 5117.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar