Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Svavar A. Jónsson

Fyrst kemur fagnaðarerindið

Kaffisopi - mynd: Árni Svanur Daníelsson

Ég átti frí í gær. Hóf daginn í ræktinni. Fór svo í bókakaffi og las Spiegel sem ég skolaði niður með tvöföldum espressó.

Mánudagar hafa á sér illt orð en þessi mánudagur hefur svo sannarlega ekki verið mér til mæðu.

Í mörgum dagatölum er mánudagurinn fyrsti vikudagurinn. Fólk byrjar á því að vinna. Endar vikuna á hvíld. Byrjar á hamaganginum en endar í rónni.

Meðan sunnudagurinn fékk að vera fyrsti dagur vikunnar var hugsunin þveröfug.

Þá byrjaði fólk vikuna með því að slappa af og njóta lífsins. Byrjaði á því að hlaða batteríin.

Einhvers staðar las ég að samkvæmt gyðinglegri hefð byrji dagurinn klukkan sex að kvöldi. Þar er sama hugsun. Maður byrjar daginn ekki á því að rífa sig upp úr rúminu, gera á sér morgunverkin, smyrja nesti í krakkana og koma öllum á sína staði, maður byrjar daginn á því að steikja sér fisk og les síðan í góðri bók.

Fyrst kemur fagnaðarerindið. Síðan lögmálið. Fyrst koma góðu fréttirnar. Fyrst finnum við okkur skjól og öryggi. Fyrst endurnærum við okkur og látum uppbyggjast. Fyrst bíðum við róleg og öðlumst en síðan getum við farið að vinna og strita.

Vikan sem er hugsuð sem vika en ekki bara vinnuvika segir að ekki sé hægt að gefa nema hafa öðlast fyrst.

Enginn kunni að gefa nema hann kunni að þiggja.

Mánudagarnir eru ekki til neins nema maður hafi átt almennilegan sunnudag.

Náðin er til alls fyrst.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2576.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar