Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Karl Sigurbjörnsson

Drottinn á drenginn – um börn og sálma

Sálmur

„Drottinn á drenginn, dálítinn piltinn, veri honum vörnin, veiti honum styrkinn. Gættu hans, ó Guð minn, að grand´ honum háskinn enginn. Drottinn á drenginn. Drottinn á drenginn.“

Ein allra fyrsta minning mín tengist þessum gömlu versum. Ég er í fanginu á pabba, hann gengur með mig um gólfið og raular við munn sér. Og eins þetta: „Dagana alla Drottinn minn, dilli þér á örmum, sútargalla sefi þinn, sólarhallar kóngurinn.“
Lag, orð, sefandi rödd, armarnir sterku, allt myndar þetta heildstæðan vef öryggis, trausts, friðar.

Á öllum öldum, um heimskringluna alla hafa foreldrar raulað við börnin sín. Barnið sefast við róminn, sönginn, hrynjandina. Öll þekkjum við muninn á því þegar barn er ávarpað með nafni eða nafn þess er sungið, tónað, raulað, eins og mömmur og pabbar gera einatt. Eitthvað er það við sönginn sem snertir mann dýpra en bein ræða, grípur um innstu hjartastrengi.

Fullyrt er að börnin skynji hljóð þegar í móðurkviði. Þau heyra t.d. vel hjartslátt móðurinnar en einnig utanaðkomandi hljóð, þar á meðal söng og hljóðfæraslátt. Rannsóknir sýna að eftir að barnið er fætt í heiminn hefur tónlist jákvæð áhrif á tilfinninga- og hreyfiþroska þess, að ekki sé talað um áhrif söngiðkunar á málþroska. Söngur og tónlist styrkja líka tengsl foreldris og barns betur og meir en annað.

Í kirkjum er farið að bjóða upp á krílasöng, það er dönsk fyrirmynd að því, Baby-salmesang kallast það, og hefur gefist vel og er áhugaverð tilraun. Þar er sungið fyrir kornabörnin, þeim vaggað og dansað með þau. Ég hef haft af þessu spurnir og þótt gott til að vita, vegna þess hve söngurinn er mikilvægur í uppeldi og menningu, tungu og ekki síst trú. Sálmurinn er ómissandi í trúaruppeldi og trúariðkun okkar allra. Og nú ætla ég að koma með pólitíska yfirlýsingu: Við þurfum að syngja meira, leggja meiri áherslu á að syngja gömlu ættjarðarljóðin okkar og sálmana. Þar er fólginn svo ómetanlegur fjársjóður. Við stöndum okkur skelfilega í skólum landsins hvað söng og tónlist varðar. Ég neita því ekki að ég öfunda frændur okkar Dani af morgunsöngnum í skólum þeirra. Það er ómissandi þáttur í skólastarfi þar í landi, ættjarðarlög, já, og sálmar, þeir komast upp með þetta og þykir styrkur í uppeldi og skólastarfi. Það megum við taka til fyrirmyndar. Tökum að nýju upp morgunsönginn í skólum landsins! Tónlistarstefna kirkjunnar hvetur til þess að aukin áhersla sé lögð á almennan söng, og að börn og unglingar verði handgengin sálmaarfinum. Virkust miðlun tungu og trúar hefur ætíð verið með söng. Og í söngnum eru læknandi lindir lífi og sál.
Ég notaði áðan sögnina að raula. Listrænt gildi söngsins er auðvitað ómetanlegt, og oft er mikið á sig lagt í þeim efnum, með fögrum söng og fáguðum sem gleður eyrun og hrífur jafnvel Guðs engla. Mikið getum við glaðst yfir blómstrandi tónlistarlífi og mennt, kórastarfi á heimsmælikvarða í okkar litla landi. En söngur mömmu og pabba við barnið sitt er annars eðlis, og verður ekki mældur við listrænan mælikvarða, né nokkurn mælikvarða yfirleitt. Í eyrum barnsins er það heimsins fegursti söngur. Af því að hann er kærleikstjáning.

Faðir minn var háaldraður þátttakandi í bænastund þar sem var mikil og hávær tónlist, hróp og köll. Á eftir sagði hann með tvírætt bros á vörum: „Þetta fólk trúir á heyrnarlausan Guð!“

Nei, við trúum ekki á heyrnarlausan Guð. Við trúum á Guð sem heyrir og sér. Mál hans er ekki síst blærinn blíði, röddin milda, raulið lágmælta þar sem hjartað hrærir varirnar og tjáir sig í söng.

Engel Lund, söngkonan, danska, sem hér ól aldur sinn og lést fyrir ekki svo löngu í hárri elli, hún var hámenntuð söngkona og vel kunnug þjóðlagaarfi Evrópu. Hún safnaði íslenskum þjóðlögum á fyrri hluta aldarinnar og var söngur hennar gefinn út á hljómplötu. Hún sagði að það væri merkilegt við íslenskar barnagælur og vögguvísur hve textar þeirra væru trúarlegir. Í þeim efnum skera íslenskar barnagælur sig úr.

Kvöldbænirnar hennar mömmu skipa stóran sess í trúarlegri mótun minni. Hún fór með bænirnar með okkur bræðrunum og það var löng romsa af versum, alltaf í sömu röð. Þetta var eins og þula, eða bænaband. Byrjað á signingu og versunum „Guð geymi mig og varðveiti mig…..“ og: „Vertu, Guð faðir, faðir minn….“ síðan Faðir vor. Stundum sofnaði maður í miðjum klíðum, eða sveif einhvern veginn milli svefns og vöku meðan versin bærðust á vörum. Ég man að það var svolítið truflandi þegar pabbi fór með bænirnar með okkur, þá voru bænirnar ekki alveg þær sömu eða í sömu röð og hjá mömmu, það voru fleiri vers á milli signingarinnar og Faðir vors. Mamma hafði lært þuluna af mömmu sinni, sem aftur hafði lært hana af sinni móður austur á Síðu. Pabbi hafði lært sín vers af ömmu sinni í Meðallandinu. Það er músík í þessum versaröðum og þulum, taktföst hrynjandi og safarík orð. Mörg hver langt utan við reynsluheims barnsins: „Þótt ég skál dauðans drekki, Drottinn slepptu mér ekki fyrr en ég fæ með sanni fögnuð í himnaranni.“ Ég á í fórum mínum uppskriftir af bænum frá ýmsum, og sé að þetta hefur verið algilt form á trúariðkun með börnum á fyrri tíð. Og ég veit dæmi til þess að börn hafi kunnað ógrynni af versum, miklu fleiri en voru í bænunum hennar mömmu.

Bóndi vestan úr Breiðafirði skrifaði upp bænaversin sem hann var látinn læra og fara með á kvöldin. Það var mikill fjöldi. Hann sagði: „Til þess að ruglast ekki í röðinni fann ég upp hentugt kerfi: Ég raðaði bænunum í huganum á ákveðna staði í túninu, við hús og önnur mannvirki, á hóla og túnbletti ofl. Þar gat ég síðan gengið að þeim í réttri röð.“ (Eysteinn í Skáleyjum)
Ég hef stundum velt því fyrir mér, hvort bænaversin hafi hugsanlega verið sungin, tónuð, rauluð eins og rímur. Það er nefnilega afar stutt bil milli rímunnar og messutóns. Voru versaþulurnar ef til vill raulaðar eins og stemmur? Þetta verður sennilega aldrei upplýst, það eru nefnilega afar takmarkaðar heimildir til um bænalestur á fyrri tíð. Eins og td signingin, sem hefur verið algild í trúarháttur Íslendinga frá öndverðu, það er ekkert um hana skrifað á fyrri tíð, svo sagnfræðingar og þjóðháttarfræðingar hafa ekki af miklum heimildum að moða. Mæðurnar signdu börnin sín kynslóð eftir kynslóð í þúsund ár, feðurnir kenndu þeim að signa sig móti dagsbrúninni og sækja þannig daginn, hvergi er þetta skráð og útlistað, vafalaust af því að þetta var svo sjálfsagt að ekki þurfti að gera neitt sérstaka grein fyrir því.

Mamma söng fyrir okkur bræður sálma, og maður lærði þetta eiginlega fyrirhafnarlaust, Guð gaf mér eyra og Ó, Jesú bróðir besti, Ó, faðir gjör mig lítið ljós, komu snemma inn í líf og vitund, sitja síðan í blóðinu.

Eins er um jólasálmana sem maður fékk svona inn í sig áreynslulaust, eins og jólasveinavísur Jóhannesar úr Kötlum. Ég skildi ekki textana, ég man að mér stóð stuggur af þessari meinvillu kind sem í myrkrunum lá. Ég skildi ekki heldur helminginn af Jólavísunum. Aldrei hef ég heyrt neinn menningarvita lýsa því yfir að það væri óhæfa að kenna börnum þær þar sem þau skilji ekki orðin. Guði sé lof fyrir að við fengum að læra eitt og annað sem við ekki skildum. Hjartað skildi bænaversin og sálmana, og það var nóg, mál og rómur fékk að tjá það. Svo kom skilningurinn smám saman, og á sumu af því eflaust aldrei – fyrr en í eilífðinni. Þá lýkst allt upp.

Svo kom skólinn og þar var okkur gert að læra sálma. Ekki get ég sagt að það hafi verið mér neitt sérstakt yndi. Fremur sóttist mér það einatt erfiðlega, sennilega vegna þess að þeir voru ekki sungnir. Það var enginn morgunsöngur í Miðbæjarskólanum, og söngtímarnir einhvern veginn ekki sérlega vel lukkaðir.

Mér er afar minnistætt þegar ég átti að læra sálminn, Á hendur fel þú honum. Þetta er ein perla okkar sálmaarfs. Ég var þetta tíu ára, og streittist við heima í stofu. Amma sat þarna og hlýddi mér yfir og ég rak sífellt í vörðurnar, eitthvað illa upp lagður, geðvondur yfir þessu, og endaði með því að ég henti frá mér bókinni og tautaði: Afhverju voru þessir kallar að yrkja! Og amma fór að hlægja sínum sérstaka, hvella, smitandi hlátri. Og ég fór líka að hlæja og amma endurtók innan um hláturrokurnar: „Afhverju voru þessir kallar að yrkja! Það er spurningin!“ Og svo tókum við til við sálminn, og allt gekk miklu betur. Sem sagt, ég lærði hann hlæjandi, þennan huggunarríka, vonarríka sálm, sem fæddur er úr miklum þrautum og þjáningu. Það er reyndar eitt sem er svo merkilegt við sálmasönginn, að hann nær að halda í senn utan um gleði og sorg, dýpstu neyð og dýpsta fögnuð og undursamlegustu fegurð. Af því að góður sálmur víkkar og göfgar lífsreynslu okkar og ber í sér von.

Ég rakst ekki alls fyrir löngu á minningabók úr Miðbæjarskólanum, 11. ára bekk. Þið munið þessar: „Mundu mig, ég man þig…..“ „Njóttu lífsins í ríkum mæli en lentu samt ekki á fávitahæli…“ æ, þessar hallærislegu klissjur. Einn bekkjarfélagi minn var pólskur, sonur pólska sendifulltrúans sem hér var, Bogdan hét hann og hann hafði skrifað sálmsvers í bókina: „Faðir andanna,“ fyrsta versið og svo það þriðja: „Sælu njótandi, sverðin brjótandi, faðmist fjarlægir lýðir….. “

Í fermingarfræðslunni var talsvert lagt upp úr sálmalærdómi. Séra Jakob Jónsson var enginn afsláttarmaður í þeim efnum. Og samtímis fermingarundirbúningnum, sem almennt nefndust spurningar í den, þá var kristinfræði kennd í skólanum. Það gerði séra Árelíus. Hann lagði mikla áherslu á hverskyns utanbókarlærdóm aragrúa ritningarstaða og sálma. Ég er honum þakklátur fyrir það, þó svo að manni hafi þótt þetta fullmikið af svo góðu þá. Svo hlógum við krakkafíflin að honum fyrir viðkvæmni hans og tilfinningasemi, hans sem alltaf stóð með þeim veikburða okkar á meðal.

Á stúdentsárum mínum varð ég hilltur inn í hamra þeirrar hugmyndafræði sem þá var efst á baugi varðandi kennslu að utanbókarlærdómur væri hið versta mál, sem ætti ekki heima. Öll áherslan var á mótivasjón nemendanna, áhuga þeirra, huga og heim. Öll ítroðsla var sett á bannlista. Ég játa þá synd mína sem ég fyrirverð mig fyrir nú að hafa átt þátt í því sem ungur prestur að slakað var umtalsvert á kröfum um að læra sálma. Á sama tíma hurfu sálmarnir smám saman úr barnaguðsþjónustunum og æskulýðsstarfi, í stað þess komu innihaldslausir frasar og bull, svo sem Tikki tikki ta…. Og Djúp og breið… Við sáum ekki fyrir það hefðarrof sem af þessu leiddi. Uppskeran varð meira ólæsi á hið kristna málfar. Vegna þess sem við sáum ekki fyrir, að skólarnir tóku jafnframt allan sálmalærdóm út úr sinni kennslu. Og því er tómarúm sem ekkert getur komið í staðinn. Hér er afar mikilvægt að reyna að snúa við blaðinu. Að prestar og fræðarar og okkar vel menntaða, frábæra kirkjutónlistarfólk taki höndum saman um sálmasönginn, sálmaarfinn.

Söngur og kristni hafa alltaf haldist í hendur. Leyndardómar trúarinnar verða aldrei tjáðir að neinu marki nema í söng. Ekki aðeins vegna þess að söngurinn hrífur hjartað. Nei, þar þarf höfuðið líka að vera með, vitið og skynsemin. Músikin er vissulega vísindi, ljóð og lag tjáir gegnum þróað og fínstillt kerfi það sem hvorki mál vísindanna né hversdagsins megnar að segja. Ljóð og lag virkja skynjunina með allt öðrum hætti. Þegar saman fara gott lag og góður texti færist það frá tíðnisviði tilfinninganna og verður áþreifanlegt, og unnt að endurtaka og endurlifa, og tjá saman. Saman getum við með orðum og tónum gefið róm skynjun og tilfinningum, sem við héldum að væru aðeins okkar einka-upplifun: efi, sorg, von og trú. Ljóðið og lagið ná með formum sínum og hrynjandi að setja okkur í samhengi sem er okkur æðra og meira. Því er sálmurinn samfélagsbyggjandi umfram annað. Hreyfiafl ljóðsins og listarinnar er verk heilags anda, sem byggir upp samfélag lifandi fólks svo það verði bygging af lifandi steinum.
Það er auðveldara að syngja um upprisu Jesú og eilífðarvonina, en játa hana og útlista í mæltu máli og rökstyðja fyrir öðrum. Upprisutrúin er alltaf játuð og borin uppi af lofgjörð og bæn, ljóði og söng, - og umhyggju um lífið og náungann. Trúarjátning er nefnilega ekki skoðun á kennisetningum, þó að það sé þáttur í henni, heldur kærleikstjáning og þakklætis sem orðin ein ná aldrei að tjá til fulls. Sköpunarsagan er ljóð, undrunarandvarp: Lífið er gott, allt er í góðri reglu! Guð er góður! Trúarjátningin er framar öllu ljóð, sálmur.

Játning trúarinnar er svar, andsvar við ávarpi: „Frelsarinn er fæddur!“ „Syndir þínar eru fyrirgefnar!“ „Hinn krossfesti er upprisinn!” Og svarið við þessu ótrúlega, undursamlega, þarfnast hljóma og hrynjandi svo það endurómi í sálinni og hræri hjarta og tungu, taug og æð. Að tileinka sér sannindi trúarinnar er ekki að eiga svör við öllu heldur að biðja og syngja, og það varpar nýrri sýn, nýju ljósi yfir allt. Það er þetta ljóðræna tungutak sem varnar því að við festumst í þráhyggju bókstafseinsýninnar. Og þetta þurfum við að miðla börnunum okkar.

Lúther sagði: „Fyrir utan guðfræðina er engin list til sambærileg tónlistinni, því hún ein, næst guðfræðinni, kemur því til leiðar sem guðfræðin er annars ein um að geta: Að gefa rósamt og glatt geð.. Djöfullinn flýr hljóma tónlistarinnar nærri því eins og hann flýr orð guðfræðinnar. Þess vegna hafa spámennirnir ekki notað neina list svo sem tónlistina. Guðfræði sína túlkuðu þeir ekki með rúmfræði, ekki með stærðfræði heldur með tónlist. Þeir tengdu þannig saman guðfræðina eins náið og verða má, með því að tjá sannleikann í sálmum og söngvum.“

Svo að lokum þetta: Sálmurinn gleður Guð. Sérstaklega þegar börnin syngja. „Ef þessi þegðu myndu steinarnir hrópa!“ sagði Jesús, þegar smekkmenn vildu þagga niður í söng barnanna, og sögðu við Jesú: „Heyrir þú hvað þau segja?“ Jesús svaraði þeim: „Já, hafið þið aldrei lesið þetta: Af munni barna og brjóstmylkinga býrð þú þér lof?“

Að lokum get ég ekki stillt mig um að segja gamla sögu. Hún er svona:

Einu sinni var afskekkt klaustur þar sem munkarnir helguðu líf sitt Drottni með reglulegu bænalífi. Dag nokkurn kom þar ferðamaður sem fékk að gista tvær nætur. Um kvöldið heyrði hann söng munkanna Guði til dýrðar. Kvöldið eftir bað hann um að fá að taka þátt í bænagjörðinni með þeim. Það var auðsótt mál. Hann hóf þá upp raust sína og söng svo fagurlega að munkarnir áttu ekki orð af hrifningu. Þeir fundu sárlega til þess hve þeirra söngur hafði verið fátæklegur, hreint út sagt lélegur í samanburði við þennan himneska söng gestsins. Svo þeir ákváðu að hætta að syngja. Nokkru síðar birtist annar gestur á heimili þeirra. Það var Frelsarinn sjálfur. Hann spurði þá hverju það sætti að þeir væru hættir að syngja í guðsþjónustum sínum. Þá sögðu þeir honum frá því hvernig þeim hefði þótt söngur þeirra sjálfra verða lítilfjörlegur í samanburði við glæsilegan sönginn þegar gesturinn hóf upp sína fögru rödd. En Kristur sagði alvarlegur í bragði:„En þá heyrði ég engan söng.”

„Guð virðir mig er ég vinn, en hann elskar mig þegar ég syng.” (Rabindranath Tagore)

Fræðsluerindi í Hallgrímskirkju, 27. sept. 2009.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3710.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar