Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfundLeita

Karl Sigurbjörnsson

Friður og von

Samtrúarleg friðarstund

Friður sé með yður.

Yðar heilagleiki, Dalai Lama. Hjartanlega velkominn! Hér eru saman komnir fulltrúar þeirra trúfélaga sem mynda Samráðsvettvang trúarbragðanna á Íslandi. Hann var stofnaður til að stuðla að skilningi og virðingu milli trúfélaganna, hinna mismunandi trúarbragða sem hér eru að starfi, og þannig stuðla að friði og von í landi okkar og heiminum öllum til handa.

Okkur er vel ljóst að við erum rétt að byrja á langri leið.

Yðar heilagleiki. Við komum hér saman til samtrúarlegrar friðarstundar í Hallgrímskirkju til að heiðra þig, friðarverðlaunahafann og trúarleiðtogann, og votta virðingu fyrir þrautseigju þinni og einbeitni í því að tala máli friðar og vinna að sátt og friði milli manna.
Þjáning þjóðar þinnar, Tíbet, sem þú varst hrakinn frá fyrir réttum fimmtíu árum, hefur snert djúpan streng í brjóstum okkar allra. Við Íslendingar erum lítil þjóð sem hefur fagnar frelsi og friði, við finnum til með ykkur í sársauka og fjötrum kúgunarinnar. Í heimi stigvaxandi ofbeldis, haturs og hefnda hefur vitnisburður þinn um friðsamlega lausn ágreiningsefna verið okkur öllum áhrifarík áminning.

Við viljum hér votta þér virðingu og þakkir fyrir þrotlausa baráttu og öflugan vitnisburð um skilning, umburðarlyndi og kærleika í samskiptum manna, þjóða og trúarbragða. Það er boðskapur sem heimurinn þarf að heyra og taka mark á.
Samvera okkar hér er vitnisburður um vilja okkar sem stöndum að Samráðsvettvangi trúarbragðanna á Íslandi til að vinna að skilningi og friði milli trúarbragða, og þannig leggja okkar litla lóð á vogaskál frelsis og friðar í heiminum og stuðla að lækning sára jarðar og mannlífsins.

Eins og Yðar heilagleiki hefur þráfaldlega minnt á þá er mannkyn allt ein fjölskylda. Sá boðskapur á sér hljómgrunn með okkur öllum, hverrar trúar sem við erum. Við erum systkin, líf okkar allra er af sömu jörðu runnið, við eigum hlutdeild í sömu mennsku, jarðarbörn. Þótt ótal margt greini að þá er sameiginlegt tungumál okkar allra gráturinn þegar við fæðumst inn í þennan heim, og andardrátturinn sem dregur til sín lífsloftið, brosið og hláturinn – sem yðar heilagleiki er svo örlátur á!- eigum við sameiginlega og skiljum öll, og viðmót og handtak umhyggjunnar þarfnast engra orða.

Trúin sækir styrk og viðmið til æðri máttar og visku. Við þörfnumst öll þess máttar og visku til að leiðbeina okkur á vegi hins góða. Allt góðviljað fólk þarf að taka höndum saman um það.

Við stöndum hér fulltrúar trúarbragða á Íslandi. Við erum að feta okkur fram á vegi virðingar og gagnkvæms trausts. Öll erum við þess meðvituð að það er vilji þess æðri máttar sem við leitum og treystum.

Við nemum staðar á þessum helga stað til að hlusta eftir rödd friðar og vonar í helgum ritum og helgum trúarhefðum, og ávarp þitt, sem við höfum öll beðið eftir að fá að heyra, kæri bróðir.

• • •

Þéttsetin kirkja

Lokaorð

Yðar heilagleiki, Dalai Lama. Þakka þér fyrir komuna, þakka þér fyrir boðskap þinn hér.

Og þið, fulltrúar og leiðtogar trúarbragðanna á Íslandi, þakka ykkur fyrir að deila með okkur helgum texta trúararfs ykkar, þakka ykkur, tónlistarfólk, fyrir tónlistina, fegurðina, voninn og friðinn sem hún flytur.

Við erum öll kölluð til að vera friðflytjendur og verkfæri friðar. Mættum við öll styrkjast í þeirri köllun.

Förum í friði og von.

Megi friðurinn ríkja og réttlætið blómgast að við megnum að yfirvinna ranglæti og illvilja, svo börn vor og niðjar megi með reisn lifa í tryggum heimi og góðum. Megi andi friðar og umhyggju sýna okkur friðinn sem við getum án verið, og þann frið sem oss ber að leita, friðinn sem oss ber að halda, frið umhyggju og miskunnsemi, trúar, vonar og kærleika

Verði friður á jörðu og í hjörtum okkar allra.

Ávarp og lokaorð flutt á samtrúarlegri friðarstund í Hallgrímskirkju, 1. júní 2009.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3201.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar