Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Þorvaldur Karl Helgason

Trúaruppeldi kynslóðanna

Ef við værum spurð hvað hefði haft mest áhrif á okkur hvað varðandi trúarlíf og trú á Guð kæmi upp hjá flestum einhver manneskja, afi okkar, amma, mamma, oftast einhver okkur nákominn.

Beðið

Afi minn sat með mér á hnjánum með dagblað í hönd og benti mér á stafina og orðin. Þá var ég fimm ára að mig minnir. Ég veit ekki hvort ég lærði að lesa hjá honum en þetta hefur eflaust hjálpað til og í endurminningunni voru þetta ljúfar stundir með afa mínum. Amma mín sem líka var inn á heimili okkar alla tíð lét mig fylgjast með í Passíusálmunum þegar þeir voru lesnir í útvarpinu. Þetta var henni og mér heilög stund. Sjálf var hún alin upp við húslestur og bar ámælda virðingu fyrir Passíusálmunum og þurfti ekki bók til að fylgjast með. Hún kunni þá vel flesta eða í það minnsta kannaðist við þá þegar þeir voru heyrðust lesnir í útvarpinu.

Við bræðurnir fórum með pabba í barnaguðsþjónusturnar þar sem hann spilaði á orgelið í kirkjunni og við sungum af kappi eins og allir aðrir sem troðfylltu safnaðarsalinn. Börnin mín voru líka dugleg að koma með mér í sunndagaskólann þegar ég var sóknarprestur og kunna efalítið marga barnasálma og bænir. Ég treysti á að í hjörtu þeirra hafi verið sáð frækorni tilbeiðslu og lotningar við skapara allra góða hluta og löngun til að feta í fótspor frelsarans. Lengra getur maður ekki gengið eða hvað?

Ég hef ekki sama aðgang að barnabörnunum mínum og amma mín gagnvart mér. Þau eru öll á sínu heimili og í umsjón foreldranna. Amma þeirra signir þau ævinlega þegar hún klæðir þau í hrein nærföt eins hún var ólst upp við og gerði við börnin okkar. „Förum saman með Faðir vor,“ segir hún þegar ef þau dvelja yfir nótt hjá okkur og þau taka öll undir sem hafa þroska til þess. Þau fara líka í sunnudagaskólann með mæðrum sínum og eru dugleg að syngja með.

Vertu nú yfir og allt um kring
með eilífri blessun þinni,
sitji Guðs englar saman í hring
sænginni yfir minni.

Þetta fallega blessunarvers eru einföld innihaldsrík orð til að segja og leyfa litla barni að heyra sem leggst á koddann sinn og sofnar út frá þeim. Við getum sagt og kennt og sungið saman með börnum okkar og barnabörnum þetta kvöldvers, Faðir vor og sungið með þeim vers og sálma sem við þekkjum úr okkar uppeldi.

Orðin fylgja þeim áfram og veita þeim öryggi, auðmýkt, styrk og trú. Nærvera okkar við þessa látlausu samveru verður mynd sem gleður þau í endurminningunni um hlýju og ástúð sinna nánustu. Meiri blessun er vart hægt að hugsa sér fyrir komandi kynslóðir.

Um höfundinn13 viðbrögð við “Trúaruppeldi kynslóðanna”

 1. Irma skrifar:

  ..bænarorðin sem veit öryggi börnunum okkar -
  Kærar þakkir fyrir góð orð

 2. Bernhardur Gudmundsson skrifar:

  Svona á að skrifa um bænalífið, persónulega , af reynslu með látleysi og hlýju. Það er mikil nærvera í þessum pistli Þorvaldur Karl og hafðu sæll gjört ! Skrifaðu oftar um þetta brýna málefni, miðlun reynsluarfsins

 3. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  Þakka þér fyrir pistilinn Þorvaldur Karl. Ég tek undir þetta og mig langar líka til að nefna hina hliðina, nefnilega það hversu dýrmætt þetta er fyrir okkur sem uppalendur. Bænastundirnar kvölds og morgna og við borðið eru gæðastundir sem skipta heilmiklu máli!

 4. Matti skrifar:

  Gaman að segja frá því að þeir sem ekki aðhyllast þessi tilteknu hindurvitni eiga samt ekki í vandræðum með að eiga “gæðastundir” með börnum sínum kvölds og morgna. Þá er hægt að ræða það sem er framundan eða það sem gerðist um daginn.

  Bænin er algjörlega óþörf.

  Eini raunverulegi tilgangurinn er sá að gera blessuð börnin háð tilteknum hindurvitnum.

 5. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  Ekki held ég að nokkur haldi því fram að guðleysingjar geti ekki átt gæðastundir með börnunum sínum. Um leið er ég viss um að þú sem guðleysingi sérð ekki tilganginn með bæninni og ert fullkomnlega einlægur í þeirri afstöðu þinni.

  Að þessu sögðu verð ég að vera algjörlega ósammála þér varðandi gildi bænarinnar. Sigurður Árni fjallar reyndar ágætlega um bænina í prédikuninni sinni á Bænadeginum. Lestu hana.

 6. Matti skrifar:

  Ég las hana. Varð engu nær.

  Það sem ég er að reyna að benda á að þið trúmenn virðist hafa sannfært ykkur um að ýmis ritúal séu nauðsynleg svo hægt sé að lifa góðu lífi. Þannig sýnist mér á athugasemd þinni (nr. 3) að án bænastunda væri samband þitt við börnin síðra.

 7. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  Ég er sannfærður um að ýmsir siðir, ritúöl, tengjast hinu góða lífi. Og ég er sannfærður um að bænin skiptir heilmiklu máli í því sambandi.

  Þótt ég hafi ekki sagt það berum orðum hér að ofan þá held ég að bænastundirnar okkar geri gott samband betra. Þar mætumst við í trú og undrun og lotningu fyrir því heilaga, leggjum dagana, áhyggjurnar, vonirnar fyrir Guð.

  Annað mál. Það er fjallað um bænina á nokkrum stöðum í bænabókinni hér á vefnum. Kannski getur það gagnast þeim sem vill fræðast nánar.

 8. Matti skrifar:

  Þótt ég hafi ekki sagt það berum orðum hér að ofan þá held ég að bænastundirnar okkar geri gott samband betra.

  Nú ætla ég að vitna í ágætan mann. Þarf þetta að vera annað hvort eða? Bænastundin er ekkert annað en samverustund. Samverustundir eru góðar fyrir öll sambönd.

  Bænin hefur ekkert með þetta að gera.

 9. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  Bænastundin er vissulega eitt dæmi um samverustund foreldris og barns. Það eru til margar aðrar tegundir af samveru. Að fara niður að Tjörn og gefa öndunum. Að sitja saman og horfa á bíómynd. Að borða saman. Að ganga saman. Allt eru þetta dæmi um samverur foreldra og barna. En formið og innihaldið er ekki það sama.

  Ég get tekið undir að kvöldbænastundirnar okkar séu samverustundir, en mér finnst of mikil einföldun að afgreiða þær með því að segja að þær séu bara samverustundir – eða að halda því fram að það eina jákvæða við þær sé fólgið í því að þar eiga börn og foreldri samverustund.

  Inntak og form samverustunda skiptir líka máli. Og eiginlega líka líðan þeirra sem eru saman. Ég myndi til dæmis ekki leggja að jöfnu það að foreldri og barn horfi saman á barnatímann og það að foreldri og barn horfi saman á barnatímann og ræði um efnið sem þau horfa á. Annað er „passíft“, hitt „aktíft“.

  Það er með öðrum orðum nauðsynlegt að stíga einhver skref til viðbótar og skilgreina hvað það er sem er jákvætt við þessar stundir: Virk samvera, miðlun gilda, miðlun vonar, iðkun trúar …

  Til viðbótar vil ég nefna að ég er ekki alveg sannfærður um að rétt sé að segja að „samverustundir [séu] góðar fyrir öll sambönd.“ Nema auðvitað að við skilgreinum „samverustund“ sem góða og uppbyggilega stund foreldris og barns.

 10. Matti skrifar:

  Ertu semsagt að halda því fram að trúaðir (kristnir) foreldrar geti átt nánari samverustundir með sínum börnum heldur en aðrir foreldrar þar sem þeir geti beðið bænir með þeim?

 11. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  Ég myndi ekki nota það orðalag svo ég verð að svara þessari spurningu þinni neitandi.

  En ég myndi taka undir það að bænastundirnar kvölds og morgna væru dæmi um nánar og innilegar og góðar samverustundir.

 12. Matti skrifar:

  Myndir þú ekki nota það orðaleg vegna þess að þú ert ekki sammála því eða vegna þess að þú þorir ekki að nota það af ótta við móðga fólk?

 13. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  Ég myndi ekki nota það orðalag af því að það lýsir ekki afstöðu minni.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4197.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar