Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Þórhallur Heimisson

Þjónandi þjóðkirkja

Ég var á siglingu í aftakaveðri með Herjólfi milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur hér um daginn, þegar ég rakst á enn eina greinina í Fréttablaðinu þar sem sótt var harkalega að Þjóðkirkjunni. „Ríkiskirkjunni“ eins og hún þar var kölluð, „hugsjónalausu kirkjunni“, „embættismannakirkjunni“ og „peningakirkjunni“. Slíkar greinar eru nokkuð algengar. Ég hafði sem sagt verið staddur í Vestmanneyjum í boði sóknarprestsins og sóknarinnar þar á bæ en á vegum Kjalarnessprófastsdæmis. Við höfðum verið að halda námskeið um hamingjuna á vegum kirkjunnar. Presturinn hafði undirbúið allt vel og af kostgæfni enda fullt hús eins og venjulega á slíkum kvöldum. Nú var ég á leiðinni heim.

Þetta ferðalag mitt var ekkert einsdæmi. Ég hef ferðast vítt og breitt um landið og haldið hjónanámskeið og fjölskyldukvöld að frumkvæði sóknarpresta og sóknarnefnda í litlum og stórum söfnuðum, fólks sem lætur sér annt um íbúana í sinni heimabyggð. Í vor hef ég verið með hamingjunámskeið um allt Kjalarnessprófastsdæmi. Hvarvetna þar sem ég hef komið hef ég hitt fyrir kirkjufólk sem leggur sig fram um að þjóna fólkinu í sínum söfnuði, hlustar á áhyggjur, sorgir, vonir og vonbrigði þeirra sem tilheyra söfnuðunum, fólksins í landinu, þjóðarinnar í Þjóðkirkjunni. Einhvernvegin kom ég þessari kirkju ekki heim og saman við hina hugsjónalausu ríkiskirkju sem lýst var í greininni í Fréttablaðinu. Kannski er ég bara orðinn svona blindur. Kannski hef ég starfað allt of lengi í Þjóðkirkjunni, búinn að vera í þessu harki í 20 ár – gott betur ef allt er talið til.

Eða kannski er þetta ekki blinda hjá mér. Kannski er um að kenna blindu og sinnuleysi þeirra sem stýra umræðunni í þjóðfélaginu, þögn þeirra sem vilja Þjóðkirkjuna burt í núverandi mynd. Já, hvers vegna er annars svona lítið talað um allt það mikla starf sem fram fer í Þjóðkirkjunni, kirkju þjóðarinnar, kirkju fólksins í landinu?

Um allt land starfar Þjóðkirkjan við sálgæslu, áfallahjálp, andlegan stuðning, handleiðslu og huggun. Þúsundir sækja til prestanna í einkaviðtöl um sín persónulegu málefni. Þúsundir treysta djáknanum sínum fyrir innstu hjartans málum. Þúsundir leita til annarra starfsmanna Þjóðkirkjunnar í gleði og sorg með margvísleg málefni lífsins, lítil og stór. Tugþúsundir eiga sitt besta samfélag í starfi sem fram fer á vegum kirkjunnar. Hjón sem geta ekki lengur talað saman fá stuðning og styrk til að leita nýrra leiða hjá starfsmönnum Þjóðkirkjunar. Einmana og sorgmæddir fá huggun og samfélag, sjúklingar eru sóttir heim, öldruðum veitt andleg aðhlynning, börnum og unglingum veitt leiðsögn og athvarf á tímum hraða, og félagslegs kulda. Fræðsla í forvörnum er sett á oddinn í unglingastarfinu. Fjölmargt starfsfólk með margskonar menntun og lífreynslu leggur sig fram um að þjóna þjóðinni í Þjóðkirkjunni. Enn fleiri vinna sjálfboðaliðastörf, vilja ekki einu sinni láta þakka sér fyrir heldur starfa í leynum. Og aldrei er sá sem til kirkjunnar leitar spurður um trúfélagsaðild. Þjóðkirkjan þjónar öllum. Á spítulunum fara fram þúsundir viðtala milli sjúklinga, aðstandenda, starfsmanna og presta eða djákna. Þjónusta Þjóðkirkjunnar sem fram fer í leynum, fjarri kastljósi fjölmiðlanna, það er sálgæsla í sinni víðustu mynd, sálgæsla við heimilin, sálgæsla á sjúkrastofnunum, sálgæsla í skólum og á elliheimilum, sálgæsla við leik og störf. Þetta er hin þjónandi Þjóðkirkja, kirkjan sem er jafn virk á Suðureyri og Selfossi, Akureyri og Akranesi, Raufarhöfn og í Reykjavík.

Þegar Herjólfur kom í land hélt ferðalagið áfram í slagviðrinu í rútu yfir Þrengslin og heim á leið. Í fréttum útvarpsins var haldið áfram að tala um enn eina ágjöfina á „ríkiskirkjuna“. Ég hætti að hlusta, mátti ekki vera að því að velta mér upp úr þessu lengur. Heyrði hér um daginn af styrktarnámskeiði fyrir konur sem haldið hefur verið á vegum Þjóðkirkjunnar um allt land. Þúsundir kvenna hafa sótt sér endurnýjun og nýja lífsorku þar.

Um höfundinn16 viðbrögð við “Þjónandi þjóðkirkja”

 1. Matti skrifar:

  Var allt þetta starf þitt unnið í sjálfboðavinnu?

 2. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  Þakka þér pistilinn Þórhallur. Það er full ástæða til að minna á hið góða starf sem fer fram í kirkjum landsins og líka til að bregðast við skrifum sem draga upp villandi mynd og/eða bera vott um fordóma.

 3. þórhallur heimisson skrifar:

  Matti - ég fæ laun sem prestur við kirkjuna og námskeiðahald og fræðslukvöld held ég án þess að fyrir það sé borgað - og öll viðtöl kosta að sjálfsögðu ekkert fyrir þau sem eftir slíku óska, hvorki hjá mér né öðrum prestum.

 4. Matti skrifar:

  Mér finnst áhugavert að sjá fólk hreykja sér af því að það vinni vinnuna sína (sem það fær borgað fyrir) og að stofnunin sem það starfar fyrir geri eitthvað fyrir fjóra til fimm milljarða á ári. N.b. eitthvað sem aðrir gætu gert án tengsla við hindurvitni. Semsagt, sömu þjónustu væri hægt að inna af hendi án þess að mismuna fólki á grundvelli trúar.

  Hvaða grein í Fréttablaðinu er þetta sem þú nefnir í upphafi?

 5. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  Ég held að það sé full ástæða til að vekja athygli á góðu starfi almennt, hvort sem það er unnið af sjálfboðaliðum eða fólki sem þiggur laun fyrir starfið.

  Þeir sem vilja fræðast nánar um fjármál kirkjunnar geta lesið um þau á vef kirkjunnar.

  Þjóðkirkjan er öllum opin og vill þjóna fólki vel. Mér finnst það skipta höfuðmáli.

 6. Matti skrifar:

  Ég held að það sé full ástæða til að vekja athygli á góðu starfi almennt, hvort sem það er unnið af sjálfboðaliðum eða fólki sem þiggur laun fyrir starfið.

  Það getur þó skipt máli að hér er ekki um sjálfboðastarf að ræða.

  Það skiptir einnig miklu máli að Þjóðkirkjan er fyrst og fremst boðandi. Eiginlega skiptir það höfuðmáli.

  Það eru útúrsnúningar að halda því fram að gagnrýnendur ríkiskirkjunnar séu á móti öllu góðu starfi. Kjarninn í gagnrýninni felst í því að þetta snýst um boðun kristinnar trúar (eða tiltekins afbrigði af kristinni trú).

 7. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  >Og aldrei er sá sem til kirkjunnar leitar spurður um trúfélagsaðild.

  Samkvæmt heimasíðu Þjóðkirkjunnar, þá er þetta rangt:

  >Þessvegna verður amk annað brúðhjónanna að tilheyra Þjóðkirkjunni…a

 8. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  Það er rétt að láta samhengið fylgja með Hjalti Rúnar, það skýrir þetta:

  Það sem greinir kirkjulega hjónavígslu frá borgaralegri er fyrst og fremst ákveðin afstaða brúðhjónanna til kristinnar trúar . Þetta er kristin hjúskaparstofnun. Þessvegna verður amk annað brúðhjónanna að tilheyra Þjóðkirkjunni og gert er ráð fyrir því að ef hjónin eignast börn að þau verði alin upp í kristinni trú.

  Að sama skapi held ég að samhengi þeirra orða Þórhalls sem þú vitnar til skýri þau ágætlega.

 9. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Samhengið breytir því ekki að það er spurt um trúfélagsaðild þegar þú leitar til Þjóðkirkjunnar til þess að fá hjónavígslu. Það nægir ekki einu sinni að annað brúðhjónanna tilheyri kristnu trúfélagi. Setningin hans Þórhalls er röng.

 10. Matti skrifar:

  Ég ítreka spurningu mína:

  Hvaða grein í Fréttablaðinu er þetta sem þú nefnir í upphafi?

 11. Þórhallur Heimisson skrifar:

  Til upplýsingar fyrir lesendur hér á tru.is. Matti sá sem hér skrifar er Matthías nokkur Ásgeirsson. Hann hefur skrifað mikið um kirkju og trúmál, meðal annars þetta:

  “Þjóðkirkjan fær gríðarlegt fjármagn á hverju ári til þess að troða sínum hindurvitnum út um allt þjóðfélagið. Heljar bransi er í kringum allskonar kukl og fjöldi fólks hefur atvinnu af því að selja öðrum kjaftæði. Vantrúarsinnar láta það ekki trufla sig þó margt fólk hafi kjánalegar hugmyndir. Við gerum okkur grein fyrir því að það er ekki raunhæft markmið að allir hætti að trúa öllu kjaftæði. Markmið Vantrúar er ekki að binda enda á trúarbrögð, banna fólki að dýrka sinn gvuð eða leita til uppáhalds skottulæknis síns - það er augljóslega ekki mögulegt”.

  Eins og lesendur sjá er hér á ferð maður sem haldinn er fordómum í garð kirkju og trúar.

  Við hann hef ég lítið að segja, hvorki hér né á öðrum vettvangi, fyrr en hann lætur af slíkum skrifum og biður trúað fólk afsökunar á fordómum sínum.

 12. Hjalti Rúnar Ómarsson skrifar:

  Eins og lesendur sjá er hér á ferð maður sem haldinn er fordómum í garð kirkju og trúar.

  Og hvaða fordómar eru það?

  Síðan er til siðs að linka á það sem maður vitnar í, hvar skrifaði Matti þetta?

  En í ljósi þess að þú spyrð um trúfélagsaðild þegar fólk leitar til þín um hjónavígslu, viltu þá ekki viðurkenna að setningin sem ég vitnaði í úr greininni þinni sé röng?

 13. Matti skrifar:

  Til upplýsingar þá fer ég ekki leynt með nafn mitt, fólk endar á bloggsíðu minni ef það smellir á nafn mitt.

  Eins og lesendur sjá er hér á ferð maður sem haldinn er fordómum í garð kirkju og trúar.

  Hvernig er hægt að lesa það úr þeim texta sem Þórhallur vísar í?

  Annars er Þórhallur vanur að saka mig um fordóma án þess að styðja það dæmum. Þetta er ódýrt skot rökþrota manns.

  Hvenær biður Þórhallur trúlausa afsökunar á sínum fordómum og hatursáróðri kirkjunnar í þeirra garð?

  Mér þykir merkilegt að séra Þórhallur getur ekki sagt okkur hvaða grein er um að ræða. Var hann hugsanlega að skálda þetta dæmi?

 14. Matti skrifar:

  Tilvitnunina tók Þórhallur úr vantrúargreininni Gegn boðun hindurvitna.

 15. Þórhallur Heimisson skrifar:

  Til skýringar fyrir lesendur:

  Samkvæmt Orðabók Menningarsjóðs (1985) og Íslenskri samheitaorðabók (1985) merkir orðið fordómur það sama og hleypidómur, sleggjudómur eða ógrundaður dómur. Í sömu bókum kemur einnig fram að orðið sleggjudómur merkir órökstuddur dómur og að fordómalaus maður sé frjálshuga, kreddulaus og umburðarlyndur.

  Að lýsa lífsskoðunum annarra með orðum eins og “hindurvitni, kukl, kjaftæði, kjánaskapur” sýnir fordóma, sleggjudóma og ógrundaða dóma þess sem pennanum stýrir eins og Vantrúarmannsins hér að ofan- en þó umfram allt kreddum hans og umburðarleysi gagnvart öðru fólki.

 16. Þórhallur Heimisson skrifar:

  Grein sú sem var kveikjan að þessum pistli birtist sem sagt í Fréttablaðinu í maí og var eftir Guðmund Guðmundsson. Pistillinn er þó á engan hátt svar við þeim skrifum - heldur viðbrögð við þeim fordómum sem margar aðrir slíkir greinar setja á oddinn.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4878.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar