Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Árni Svanur Daníelsson

Öflug þjónusta um land allt

Í Morgunblaðinu í gær birtist pistill eftir Bergþóru Jónsdóttur blaðamann þar sem hún spyr „Höfum við efni á þjóðkirkju?“ Í pistlinum ræðir hún framlög ríkisins til Þjóðkirkjunnar og sér þar fé sem nota mætti með öðrum hætti þegar kreppir að í samfélaginu.

Helstu tekjustofnar Þjóðkirkjunnar eru tveir. Annars vegar greiðslur (laun o.fl.) á grundvelli samkomulags frá 1997 um afhendingu á miklum kirkjueignum til ríkisins. Hins vegar innheimtir ríkið sóknargjöld fyrir öll skráð trúfélög, kristin sem önnur. Þar er um að ræða félagsgjöld en ekki bein framlög ríkisins.

Það er því ekki rétt að segja að „ríkið standi straum af kostnaði við rekstur trúfélags.“ Ríkið leggur öllum trúfélögum til þá þjónustu að innheimta sóknargjöld og ríkið greiðir Þjóðkirkjunni endurgjald vegna kirkjujarða og annarra jarðeigna. Þetta kom ekki fram í pistli blaðamannsins og er það miður því án þessa samhengis fæst ekki rétt mynd.

Eftir stendur spurningin um hlutverk Þjóðkirkjunnar og þá þjónustu sem hún veitir, ekki síst nú á þessum mikla krepputíma í okkar samfélagi. Fyrst má nefna þjónustu Hjálparstarfs kirkjunnar, en gríðarleg fjölgun hefur orðið á beiðnum um aðstoð. Sú aðstoð er fólgin í mataraðstoð, aðstoð við að leysa út lyf, fatnaður og persónulegri ráðgjöf. Sérstaklega er reynt að mæta þörfum barnafjölskyldna.

Í annan stað má nefna sálgæslu og stuðning sem starfsfólk Þjóðkirkjunnar veitir. Þjóðkirkjan hefur á að skipa víðtæku þjónustuneti og starfsfólki sem hefur mikla reynslu af því að styðja fólk í erfiðleikum. Þessi þjónusta er veitt án endurgjalds um land allt.

Í þriðja lagi má nefna barna- og unglingastarf og starf kirkjunnar með foreldrum ungra barna. Þar fer fram mikilvægur stuðningur við uppeldi og öflugt forvarnarstarf. Aukin aðsókn hefur verið að þessu starfi í vetur. Þessi þjónusta er veitt án endurgjalds um allt land.

Grundvallarþjónusta Þjóðkirkjunnar birtist jafnframt í helgihaldi sem nærir og byggir upp og í blómstrandi menningarstarfi.

Þjóðkirkjan heldur úti á þriðja hundrað starfsstöðvum og býður upp á fjölbreytt starf og góðan stuðning á krossgötum lífsins. Þjóðkirkjan vill mæta þörfum fólks í ólíkum aðstæðum lífsins út um allt land. Það er dýrmætt á tímum sem þessum að geta leitað til kirkjunnar og mjög margir gera það. Ef eitthvað er væri ástæða til að styðja enn betur við kirkjuna, nú þegar treysta þarf siðferðislegar undirstöður samfélagsins og marka heilbrigt lífsviðhorf til framtíðar.

Birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. maí 2009.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3310.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar