Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Kristín Þórunn Tómasdóttir

Hvar er græna kirkjan?

Nú er mikið rætt um breytt gildi og ný viðhorf í íslensku þjóðfélagi. Innan þjóðkirkjunnar hefur í ræðu og riti mikið og vel verið fjallað um hvernig samfélagið þurfi að hefja til vegs og virðingar hugsanahátt velferðar og samhjálpar í stað gróða og samkeppni. Nægir að benda á fjölmarga pistla og prédikanir sem birst hafa á trú.is og samþykkt nýliðinnar prestastefnu um velferðarmál og íslenskt samfélag. Ekki veitir af að brýna stjórnvöld og okkur sjálf í þessum efnum.

En eitt er það málefni sem á heima í umræðunni um ný gildi og betri siði en sést þó ekki í málflutningi kirkjunnar. Umhverfismálin – eða hin grænu gildi. Á heimasíðu þjóðkirkjunnar vottar ekki fyrir því að kirkjunnar fólk sé yfirhöfuð meðvitað um að jörðin okkar gengur ekki síður í gegnum kreppu en efnahagslífið. Og að sú kreppa hefur víðtækari, langvinnari og alvarlegri áhrif á lífið á jörðinni en fjármála- og bankakreppa dagsins í dag.

Ekki báru umhverfismálin heldur á góma á prestastefnu í ágætum prédikunum, stefnuræðum eða ályktunum, sem lesa má á vef stefnunnar. Hverju sætir þetta? Vissulega eru þau mál sem þar voru til umfjöllunar ekki ómikilvæg – en algjör þögn um umhverfið og ábyrgð okkar er umhugsunarverð. Og sorgleg.

Getur verið að fjarvera umhverfismálanna á kirkjulegum vettvangi segi okkur eitthvað um þá guðfræði og þá kirkjusýn sem þjóðkirkjan nærir við brjóst sér – að ábyrgð okkar nái ekki til lifnaðarhátta sem styðja við sjálfbæra þróun og náttúruvernd? Getur verið þetta eigi að hringja bjöllum um að grænni guðfræði, sem sér manneskjuna sem hluta af heildar sköpunarverkinu en ekki ofar því og utan við það, beri meira svigrúm í þjóðkirkju Nýja Íslands?

Eftir rúman mánuð byrjar það tímabil í kirkjuárinu sem er kennt við þrenningarhátíð. Litur þess er grænn eins og sjá má á skrúða prestanna í helgihaldinu. Þessi græni litur vísar til vaxtar guðsríkisins hið innra og hið ytra með manneskjunni en er vitaskuld sóttur í náttúruna sem vex og dafnar á þessum tíma allt í kringum okkur. Og nú er lag að kirkjan taki alvarlega að guðsríkið er ekki bara innri veruleiki heldur holdgerist og birtist í náttúrunni sem okkur er gefin til að lifa í og lifa með. Ábyrgð okkar nær til umhverfisins og náungans og slíkur er boðskapur kristinnar trúar.

Guð, allur heimur, eins í lágu’ og háu,
er opin bók, um þig er fræðir mig,
já, hvert eitt blað á blómi jarðar smáu
er blað, sem margt er skrifað á um þig.
(Sálmur 22, Valdimar Briem)

Gerum græna kirkju sýnilega!

Um höfundinn11 viðbrögð við “Hvar er græna kirkjan?”

 1. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  Takk fyrir að vekja athygli á þessu mikilvæga máli.

  Það er gaman að segja frá því að unnið er að uppsetningu á undirsíðu um umhverfismál á kirkjan.is. Hún ætti að vera tilbúin á næstu dögum og mun vonandi nýtast vel.

 2. Guðrún skrifar:

  Þörf og góð áminning! Ég held að áhugi Þjóðkirkjunnar á þessum málum endurspegli áhuga Íslendinga yfirleitt. Við erum frekar aftarlega á merinni í umhverfis málum yfirleitt, þótt svolítil vakning hafi orðið síðustu ár og þá kannski sérstaklega í skólum landsins.

 3. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  Þýðir þetta ekki að það getur verið heilmikið sóknarfæri fyrir kirkjuna á þessu sviði, hvað segið þið um það?

 4. Elínborg Sturludóttir skrifar:

  Kæra Kristín.
  Umhverfismál og umhverfisguðfræði hafa verið mín hjartans mál. Það vill svo til að á vegum biskupsstofu hefur verið starfandi umhverfishópur sem hefur einmitt verið að undirbúa það að þjóðkirkjan okkar verði “grænni”. Ég get glatt þig með því að verið er að ljúka þeirri vinnu sem síðan þarf að sjálfsögðu að fylgja eftir. Ég ætla að taka þátt í að gera það… og vonandi miklu fleiri.

 5. Kristín Þórunn skrifar:

  Takk fyrir þessi viðbrögð og góða punkta. Mjög gaman að heyra af umhverfishópi kirkjunnar - og tilhlökkunarefni að sjá nýja vefsvæðið.

  Græn kirkja byggir ekki bara á góðri guðfræði og bregst siðferðilega við umhverfiskreppu dagsins, heldur getur hún orðið vettvangur góðra verka í samfélagi sem tekur smá en örugg skref í átt að umhverfisvænni lífsháttum. Þess vegna er sýnileikinn svo mikilvægur. Að ég, sem vil láta mig varða velferð jarðarinnar minnar, þekki mig í orðum og myndum þjóðkirkjunnar og skynji hana sem samferðarmann í umhverfismálum.

  Getum við ekki notað momentið þegar græni liturinn tekur við í kirkjuárinu og vakið góða athygli á umhverfisstefnu kirkjunnar og nýja vefsvæðinu?

 6. Árni Svanur Daníelsson skrifar:

  Svo sannarlega. Við getum notað græna litinn, sumarið og þann almenna áhuga á umhverfinu sem fylgir þessum árstíma.

 7. Sigríður Guðmarsdóttir skrifar:

  Góð græn áminning Kristín Þórunn!

 8. Ragnheiður Jónsdóttir skrifar:

  Meira af þessu, meira af efni og umræðu um græna kirkju og græna guðfræði. Fagna pistli þínum Kristín. Við eigum fallegt og gjöfult land og öfluga kirkju. Margar af byggingum hennar eru staðsettar í umhverfi sem hefur verið þjónum hennar til innblásturs í boðun sinni gegnum tíðina og til dagsins í dag. Það er einnig öflugt hvernig pílagrímsgöngur, útiguðsþjónustur, göngumessur, kyrrðardagar/göngur í fögru umhverfi eru orðin hluti af “grænni” þjónustu kirkjunnar okkar.

 9. Halldór Reynisson skrifar:

  Mæltu manna heilust Kristín Þórunn! Auðvitað er eitt og annað í gangi hjá okkur - en græna skepnan mætti vera gangmeiri!

 10. Sigrún Óskarsdóttir skrifar:

  Takk fyrir þarfan pistil Kristín Þórunn, auðvitað eigum við að gang á undan með góðu fordæmi. Ég held að það sé rétt sem fram kom að áhugaleysi þjóðkirkjunnar endurspeglar þjóðarsálina. Þá er að bretta upp ermar og vera leiðandi, í fararbroddi! Sóknarfæri eins og Árni Svanur orðaði það svo prýðilega.

 11. Torfi Stefánsson skrifar:

  Tek undir þetta með Kristínu Þórunni um þörf á grænni kirkju. Það er reyndar ótrúlegt hversu aftarlega á merinni íslenska þjóðkirkjan er ef við berum hana saman við nágrannakirkjurnar - og alþjóðakirkjuna reyndar einnig.
  Það er langt síðan að kirkjan byrjaði að berjast fyrir umhverfismálum. Þegar á allsherjarþingi Alkirkjuráðsins í Vancouver 1983: Justice, Peace and Integrity of Creation, var fjallað um þessi mál og einnig á þingi Lútherska heimssambandsins árið 1990.
  Í Noregi hafa biskuparnir og kirkjuþingin verið duglegt að álykta um þessi mál og er svo komið að í nýrri stefnu kærleiksþjónustunnar (frá 2007) eru umhverfis- og réttlætismál tveir af fjórum hornsteinum hennar.
  Þar segir m.a. “De diakonale utfordringene sammenfattes nå i nestekjærlighet, inkluderende fellesskap, vern om skaperverket og kamp for rettferdighet”.
  Þar í landi er talað um Økoteologi, Økodiakoni og Økokateketisk, þ.e. umhverfisguðfræði, umhverfiskærleiksþjónustu og umhverfiskirkjufræðslu.
  Samanborið við Norðmenn er við Íslendingar varla komnir á blað. Mér skilst að á biskupsstofu sé nú verið að vinna að nýrri námskrá fermingarstarfanna og líklega einnig að nýrri fræðslustefnu. Þar er mikilvægt að umhverfismálin fái mikla umfjöllun og að sett verði fram ítarleg áætlun um fræðslu í þeim málum. Hægt er að horfa til norsku kirkjunnar þar, sjá til dæmis í klimakirken.no.
  Í Noregi er hafður sá háttur á að prestar hafa með sér mánaðarlega fundi þar sem þeir fjalla um umhverfismál út frá kirkjulegri sýn, sjá t.d. eitt upplegg þar um: http://www.klimakirken.no/index.php/skaperverk-miljo-og-diakoni
  Þetta er einnig hægt að gera hér heima.

  Fleiri síður er að finna inn á kirken.no svo sem á kirken.no/miljo.

  Hér heima má nefna grænfánann sem dæmi um umhverfisvitund - og sem íslenska kirkjan getur vel tekið þátt í en hefur ekki gert til þessa.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4718.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar