Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfundLeita

Karl Sigurbjörnsson

Dalai Lama um kristni og samfélag

Dalai Lama er staddur í Danmörku og kemur til Íslands í dag og mun taka þátt í samtrúarlegri friðarstund í Hallgrímskirkju á morgun. Á námskeiði sem hann hélt í Kaupmannahöfn um kærleika Búddismans, umhyggju og samlíðan, hvatti hann Dani til að varðveita sínar kristnu hefðir.

– Ég hika eilítið þegar ég fræði um Búddismann í Danmörku og Vesturlöndum, sagði hann, af því að þið búið yfir kristinni hefði. Það er betra að varðveita hina kristnu hefð en að yfirgefa hana og ganga Búddismanum á hönd. En það er mikilvægt að skilja önnur trúarbrögð til að mynda samhljóm á jörðu. Í dag þegar samskiptin eru svo greið um allan heim er mikilvægt að halda fast í gildin. En jafnframt muna að það eru fleiri trúarbrögð, sagði Dalai Lama.

Þessi frásögn danska dagblaðsins, Kristeligt Dagblad, minntu mig á orð sem hann lét falla þegar hann var í Finnlandi fyrir nokkrum árum. Hann var spurður: „Hvað hefur kristindómurinn að gefa?“

Hann svaraði: „Það sem hefur mest áhrif á mig í kristindóminum eru áhrif hans á samfélagið. Það er augljóst hér á Norðurlöndum þar sem áhrif hans hafa verið svo sterk. Þess vegna verð ég að segja að ég er hrifinn af því hverju kristindómurinn hefur komið til leiðar hvað varðar fræðslu, heilsuvernd og umönnun sjúkra og réttlæti.

En ég sé líka gjá í þesum löndum. Það er gjá milli boðskaparins og breytni hversdagslífsins. Ef kristindómurinn á að verða trúverðugur þá verður hann að virka í hversdeginum með því að vera lifaður í kærleika, bræðralagi, umhyggju og sáttargjörð.“

Dalai Lama bætir við: „Það sem ég tel að kristindómurinn geti kennt Búddismanum er ný sýn á þjáninguna. Það stendur í Biblíunni að slái einhver þig á hægri kinn skulir þú snúa hinni vinstri að honum. Að gera það er að hindra deilur í að vaxa og valda klofningi.“ Þessi orð Dalai Lama ættu að vera okkur hvatning, hvatning til kirkjunnar að vera það sem hún segist vera.

Gleðilega hvítasunnuhátíð!

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3149.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar