Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

G8 hópurinn

Upprisa réttlætis – Í krafti vonar

G8 hópurinn

Íslenskt samfélag hefur á liðinni föstu verið í sannkölluðum föstuhugleiðingum. Í nokkrum greinum sem við undirrituð höfum birt hér á vefnum hefur verið leitast við að skoða aðstæður okkar Íslendinga um þessar mundir út frá sjónarhóli fræðigreinar okkar, guðfræðinnar. Með skrifunum höfum við viljað koma á framfæri því sem við höfum til málanna að leggja til lausnar á þeim vanda sem þjóð okkar hefur ratað í.

Á síðustu mánuðum hefur þjóðin smám saman gert sér grein fyrir geigvænlegum afleiðingum ábyrgðarlausrar og óréttlátrar fjármálastefnu. Mótmæli við ranglætinu sem grafið hefur um sig hafa vakið þjóðina af andvaraleysi. Ótvíræð krafa um framgang réttlætisins ásamt iðrun og yfirbót hinna seku gegnir mikilvægu hlutverki í því ferli sem hafið er. Framundan er tími sem á eftir að ganga nærri mörgum. Við eigum langt í land með að byggja upp traust á grundvallarstofnunum samfélagsins og við þurfum að læra að treysta hvert öðru á ný. Í þessu ferli þarf markmiðið að vera skýrt: þjóðfélag vonarinnar byggt á félagslegu réttlæti, virðingu fyrir öllum þátttakendum í samfélaginu, samábyrgð, samvinnu og samstöðu gegn ranglæti.

Stefnum að sáttargjörð

Nauðsynleg forsenda þess að við náum þessu markmiði er að sáttargjörð eigi sér stað í samfélaginu. Það verður að afhjúpa ranglætið. Sannleikurinn verður að koma fram í dagsljósið. Til þess að svo verði þarf þöggunin sem viðgengist hefur að víkja fyrir virkri tjáningu. Eins og komið hefur fram í skrifum okkar er munur á sáttargjörð og fyrirgefningu. Sáttargjörð er alltaf gagnkvæm og felur í sér að allir sem í hlut eiga taki þátt í að bæta úr þeim aðstæðum sem upp eru komnar. Fyrirgefning getur aftur á móti verið einhliða. Fyrirgefningin er takmark en undanfari hennar er iðrun, sinnaskipti, sem koma fram í orðum og bótagerðum. Þá fyrst er möguleiki á fyrirgefningu. Öðru máli gegnir um afsökunarbeiðni þeirra sem hlut eiga að máli. Hún tryggir ekki að fólk hafi séð að sér og getur verið hreint formsatriði. Í sáttaferlinu er lágmarkskrafa til þeirra sem brugðist hafa að þau biðjist afsökunar. En almenningur þarf ekki að sitja og bíða eftir viðbrögðum þeirra sem brugðust. Mótmæli og gagnrýnin umfjöllun hafa nú þegar skilað okkur nær settu marki.

Ábyrg afstaða

Framundan eru kosningar. Í lýðræðissamfélagi eru þær eitt mikilvægasta tækið sem borgurunum er gefið til þess að tjá afstöðu sína. Þann 25. apríl höfum við tækifæri til að segja álit okkar á stjórnmálaflokkunum og aðkomu þeirra að því ástandi sem við búum við. Samfélagsleg ábyrgð okkar felst meðal annars í að nýta kosningaréttinn og tjá vilja okkar varðandi stjórn samfélagsins. Virkjum lýðræðið og kjósum þau sem við treystum til þess að leiða okkur að settu marki. Í kosningunum getum við látið í ljós skoðun á einstökum stjórnmálamönnum með því að strika þá út eða færa þá til á listum. Samfélagsleg ábyrgð okkar felst í að nýta kosningaréttinn og tjá vilja okkar varðandi stjórn samfélagsins. Það er síðan stjórnmálamannanna sem við kjósum að sjá til þess að þeir embættismenn sem brugðust axli ábyrgð eða víki. Þau sem brotið hafa gegn lögum og reglum samfélagsins verða að gangast við brotum sínum og taka út refsingu.

Í krafti vonar

Við uppbyggingu hins nýja, réttláta samfélags þurfum við að hafa sátt, traust og von að leiðarljósi. Við þurfum að sættast sem þjóð þannig að við getum lært að treysta sameiginlegum stofnunum okkar en umfram allt treysta hvert öðru. Þetta traust er forsenda þess að hér „upp rísi” heilbrigt þjóðlíf og farsælt mannlíf blómstri. Slíkt gerist ekki í einni svipan. Reynslan kennir okkur að sannleikurinn kemur ekki alltaf í ljós. Réttlætið nær ekki alltaf fram að ganga. Því reynir á vonina. Hún gerir það að verkum að við missum ekki móðinn þó að raunveruleikinn sé annar en við vildum. Vonin gerir það að verkum að þrátt fyrir himinhrópandi ranglæti erum við tilbúin til að halda áfram að vinna að framgangi réttlætisins. Þó að árangurinn sé ekki alltaf eins mikill og við óskuðum, höldum við í vonina um að barátta okkar sé ekki til einskis, að ranglætið muni að lokum lúta í lægra haldi.

Upprisa réttlætis

Kristin trú er upprisutrú. Á páskum, stærstu hátíð kristinnar kirkju, minnumst við upprisu Jesú Krists. Saga dymbilvikunnar, píslarsagan, hefst á pálmasunnudegi. Þá fagnaði mannfjöldinn leiðtoga, sem framtíðarvonir voru bundnar við. En það stefndi fljótt að sögulokum á Golgata. Á föstudaginn langa, varð vonin um betri framtíð, betra líf, að engu. Sá sem fáeinum dögum fyrr var hylltur sem konungur lét nú lífið á krossi. Á páskum gerist síðan hið óvænta. Með upprisu Krists er vonin endurvakin, von þeirra sem harmi lostin höfðu horft á hann deyja á krossi, von allra sem treysta því að upprisa Krists sé til vitnis um að kærleikurinn og lífið sigri að lokum.

Vonin vaknar um leið og lífið sjálft. Hún býr djúpt í sálinni þar sem grátur og hlátur eiga upphaf. Vonin varðar trú á lífið og er náskyld traustinu, grundvallartraustinu, og kærleikanum. Vonin snýst um mikilvæga og áþreifanlega þætti sem koma okkur við og skipta öllu máli: Von um frið, öryggi og sátt við Guð og menn. Við verðum hennar vör þegar við horfum í augu nýfædds barns og við verðum hennar vör þegar börnin okkar halda út í lífið sjálfstæðir einstaklingar. Vonin bendir fram á við. Hún vísar til þess sem kemur, ekki til þess sem var eða er.

Vonin skapar nýjan heim

Von er helsti drifkraftur mannsins, von um betra hlutskipti, von um betri heim, von um réttlæti, von um sigur lífsins yfir dauðanum. Reginmunur er á von og bláeygðri bjartsýni. Vonin horfir ekki framhjá raunveruleikanum. Hún gerir heldur ekki lítið úr honum. Vonin horfist óhikað í augu við veruleikann, en lítur um leið lengra. Hún heldur ótrauð áfram og skapar nýjan heim.

Upprisuvon kristinnar trúar er engin töfralausn. Um leið og upprisuvonin vísar til framtíðar varðar hún sannarlega líf okkar hér og nú. Af biturri reynslu vitum við að sannleikurinn kemur ekki alltaf í ljós, réttlætið fær ekki alltaf framgang. Þrátt fyrir það er markmið okkar að sannleikurinn nái fram að ganga, að ranglætið víki fyrir réttlætinu og að við öll getum byrjað að nýju.

Lífið er margbrotið. Saga kynslóðanna kennir okkur að á öllum tímum hafa skipst á skin og skúrir í lífi einstaklinga og þjóða. Frásögn páskanna um tóma gröf og sigur lífsins yfir dauðanum er saga um von. Krossinn minnir okkur á sársauka okkar og skömm, en einnig á baráttu okkar. Hvernig sem líf okkar og líðan kann að vera þörfnumst við páskasólar. Gleðilega hátíð.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4116.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar