Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Skyldar færslurLeita

Steinunn Jóhannesdóttir

Þrjátíu skrilljón silfurpeningar

Júdas í girndar gráði
af Gyðingunum fyrst
þrjátíu peninga þáði,
þá sveik hann herrann Krist.
Ljóst þegar líta vann,
drottinn var nú til dauða
dæmdur og þungra nauða,
iðraðist eftir hann.

Í ár eru 350 ár liðin frá því Hallgrímur Pétursson lauk við Passíusálmana og tók að senda handrit nokkrum vinkonum sínum að gjöf. Þegar kom að prentun sálmanna fáum árum síðar segir hann í formála: “Þeim sem herrans Jesú pínu jafnan elska, mun ekki þykja í ótíma gjört; sérdeilis nær þeir rannsaka þessa yfirstandandi eymdanna öld, “
Hallgrímur talaði umbúðalaust við samtímamenn sína og hitti þá beint í hjarta- og heilastað. Og síðan kynslóð eftir kynslóð. Í hálfa fjórðu öld hefur þetta einstæða bókmenntaverk haldið gildi sínu og kannski hefur erindi þess aldrei verið brýnna en á okkar dögum þegar hver nefndin á fætur annarri er sett til þess að “rannsaka yfirstandandi” áratug og skáldið talar beint inn í Hrunið. “Júdas í girndar gráði…. þrjátíu peninga þáði.” Og:

Undirrót allra lasta
ágirndin kölluð er.
Frómleika frá sér kasta
fjárplógsmenn ágjarnir,
sem freklega elska féð,
auði með okri safna
andlegri blessum hafna,
en setja sál í veð.

Skáld og rithöfundar dagsins í dag fara ekki mikið nær því að lýsa því andlega eða siðferðislega hruni sem varð undanfari hruns efnahagslífsins á Íslandi. Falskenningin um að græðgi væri góð náði hylli margra en altók nokkra sem tóku stefnu á óendanleikann, 30 skrilljón silfurpeninga. En svo háa upphæð lætur ekki Andskotinn sjálfur í té nema gegn veði.
Þar fór sálin. Svo þjóðin.
Upphæðin sem Júdas þáði fyrir það að svíkja meistara sinn virðist ekki há í samanburði við þær stjarnfræðilegu upphæðir sem fjárplógsmenn okkar daga fengu í sinn hlut fyrir Hrunið. En þrjátíu silfurpeningar eru ævarandi tákn um allan hinn kristna heim fyrir stærstu svik, Drottinsvik
Íslenska þjóðin verður svipt ýmsum efnahagslegum gæðum á komandi árum. En hún er enn rík að andlegum gæðum, m.a. sem handhafi Passíusálmanna.
Fastan er tími íhugunar og iðrunar. Passíusálmarnir eru óþrjótandi íhugunarefni um þjáningu guðs og manns, mannlegan breiskleika og sviksemi, dramb og oflæti, iðrun og fyrirgefningu. Iðrun begður fyrir í mörgum sálmum og þrír hafa iðrunina í yfirskriftinni: 12. sálmur Um iðrun Péturs, 16. sálmur Um Júdasar iðrun og 39. sálmur Um ræningjans iðrun. Meginþemað er þó fórnandi kærleikur, von og trú. Á föstudaginn langa mun fólk flykkjast í kirkjur landsins til þess að lesa, syngja og hlýða á Passíusálmana. Við þá iðju gefst hverjum manni gullið tækifæri til þess að íhuga og endurmeta líf sitt, þakka, harma, iðrast, fagna. Að því búnu bjóðast öllum gleðilegir páskar. 
 
 

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3021.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar