Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Ursula Árnadóttir

Líf í gnægð

„Ég er kominn til þess að þeir hafi líf, líf í fyllstu gnægð.“ Jh 10:10

Þessi orð hefur guðspjallamaðurinn Jóhannes eftir Frelsaranum þegar hann útskýrir hirðishlutverk sitt fyrir lærisveinunum sínum og tortryggnum gyðingum. En er hægt að tala um líf í gnægð núna 2000 árum síðar, hér norður við heimskautsbaug í skelfilegri kreppu sem ekki sér fyrir endann á. Getur Kristur lofað okkur gnægð inní líf okkar hér og nú og hvaða gnægð er hann að lofa? Sannarlega er það ekki ofgnótt veraldlegra verðmæta sem taumlaust flæddu yfir ákveðna þjóðfélagshópa til skamms tíma. Ekki er það flatskjáir, sem virðast ætla að verða táknmynd eyðslu og taumleysis.

Líf í gnægðum á sér stað þegar manneskjan nær að upplifa snertingu heilags anda inn í eigið líf. Þegar manneskjan samsamar sig sköpun Guðs í öllum sínum myndum. Finnur til samkenndar, finnur tilgang og markmið með lífi sínu. Ótti hverfur og fullvissa og fullnægja fyllir sál viðkomandi. Kirkjan þín er staður til að finna og rækta líf í gnægðum. Er það ekki dásamlegt til þess að vita að um allt land hafa verið reist sérstök hús, sem við köllum kirkjur, til að upplifa og finna líf í gnægð, rækta sjálfan sig, skoða sinn innri mann og upplifa samfélag við þá sem eru í sömu erindargjörðum, sömu leit. Þessi hús hafa verið reist á liðnum öldum, af forfeðrum okkar, öfum og ömmu, þrátt fyrir skort og fátækt. Þau vissu að í neyðinni eru þessi hús nauðsynleg og í daglegu hversdagslegu lífi, þegar allt leikur í lyndi er gott að eiga þau vís í næsta nágrenni, hvar sem þú ert staddur.

Þegar hið veraldlega bregst og þegar heimurinn bregst þér þá máttu vita að þú getur leitað til hans sem aldrei bregst og kirkjan hans stendur þér opin.

– Leitaðu sannleikans um Guð og þú upplifir kyrrð og innri frið.
– Leitaðu sannleikans um náungann og þú finnur til samúðar.
– Leitaðu sannleikans um sjálfan þig og þú fyllist auðmýkt. Bernharður af Clairvaux

Kristin trú snýst um velferð mannsins í heild sinni, andlega og líkamlega. Um samfélag okkar hér og nú. Um samskipti okkar við annað fólk og samtal okkar við okkur sjálf. Kristin trú skoðar alltaf lífið í heild sinni og miðar að því að styðja fólk til lífs í fullri gnægð, bæði andlega og veraldlega. Trúin er stöðugt samtal einstaklingsins við sinn innri og ytri veruleika. Í hinum ytri veruleika dagsins í dag, hér á Íslandi, birtist óréttlætið, spillingin og ójöfnuðurinn. Félagslegt réttlæti er grunngildi í kristinni trú. Að því verðum við alltaf að stefna að og markmið kristinnar kirkju hlýtur alltaf, á öllum tímum að snúast um réttlæti og jöfnuð.

Um höfundinn2 viðbrögð við “Líf í gnægð”

 1. Guðbjörg Ólöf Björnsdóttir skrifar:

  Þakka þér fyrir þessi mjög svo góðu orð og mikilvægu!
  Til hamingju, Úrsúla!
  Guð blessi þig í lífi og starfi!
  Guðbjörg

 2. Ursula skrifar:

  Takk fyrir kæra Guðbjörg.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3907.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar