Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

G8 hópurinn

Þöggun í málfrelsi — Krafa um heiðarleika

G8 hópurinn

Að undanförnu höfum við orðið vör við höft og hindranir af ýmsu tagi. Til dæmis kvarta margir sáran undan gjaldeyrishöftunum. Í umróti síðustu mánaða er þó eitt haft sem hefur rofnað hjá fjölda fólks. Það er tunguhaftið. Í kreppunni vöknum við til vitundar um mikilvægi málfrelsis — formlegs og óformlegs til að tjá hugmyndir, hugsjónir og gagnrýni.

Þúsundir hafa tjáð sig í mótmælum, á fundum og með blaðaskrifum. Mikilvægt er að þessi skoðanaskipti haldi áfram og verði ríkulegur þáttur í samfélagi okkar. Það er grundvallaratriði farsællar þróunar að fólk haldi áfram að tjá sig og hafi til þess margvíslega möguleika.
Þessi kraftmikla tjáning er mikil breyting frá því sem var á útrásartímanum. Þá var ákveðið frelsi lofsungið, frelsi viðskipta og markaðar sem birtist í óheftu flæði fjármagns frá þjóðinni til hinna fáu. Gagnrýni var aftur á móti ekki alls staðar velkomin. Almenn skoðanaskipti voru ekki nægilega ríkuleg. Opinberri umræðu var stýrt af valdamiklum en oft ósýnilegum aðilum. Ákveðin pólitísk átakamál voru „ekki á dagskrá“. Ekki var tekið mark á sjálfsögðum varnaðarorðum. Í öllu frelsinu ríkti í raun og veru ekki frelsi.

Hornsteinn lýðræðissamfélags

Málfrelsi er frelsi manns til að tjá skoðanir sínar í orðum eða verkum, í ræðu, riti, myndlist, með ýmis konar táknrænum gjörningum eða á annan hátt. Málfrelsi er einn af hornsteinum lýðræðissamfélags og er lykilatriði í Mannréttindasáttmála Evrópu og Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna en í 19. grein hennar segir svo: „Allir skulu frjálsir skoðana sinna og að því að láta þær í ljós. Felur sá réttur í sér frelsi til að hafa skoðanir óáreittur og að leita, taka við og miðla upplýsingum og hugmyndum með hverjum hætti sem vera skal og án tillits til landamæra.“
Tjáningarfrelsi eru ætíð settar skorður og í lýðræðisríkjum eru þær oftast hugsaðar til verndar einstaklingum eða minnihlutahópum. Fyrst og fremst er um að ræða bann við hatursáróðri í garð þjóðfélagshópa vegna uppruna, litarháttar, trúar eða af öðrum sambærilegum ástæðum.
Í mörgum löndum Evrópu er til dæmis refsivert að afneita helförinni. Þá er meiðyrðalöggjöf við lýði meðal annars hér á landi sem setur málfrelsi vissar skorður. Víða liggur líka bann við því að hæðast að trúarbrögðum eða öðru sem fólki er heilagt. Flestir eru á því að málfrelsi verði að setja slíkar hömlur en menn greinir á um hvar draga skuli mörkin.

Átök um hvað megi í þessu efni eru jafngömul þekktri sögu okkar. Sókrates hélt fram málfrelsi og benti á að valdið væri ekki rétturinn. Hann hafnaði þar með gagnrýnislausri hlýðni við lög og þjónkun við hinn sterka og volduga. Jesús Kristur var talinn vanvirða guðstrú með orðum sínum og athæfi. Hann hikaði ekki við að ganga gegn valdi sem hefti og kúgaði fólk. Hann frelsaði fólk undan ósýnilegu þöggunarvaldi síns tíma. Þar sem hann var fengu raddir fólks að hljóma.

Þöggun

Tæpast er það samfélag til þar sem þeir sem tjá sig opinskátt um það sem kemur valdhöfum illa gjaldi ekki fyrir. Gagnrýnin tjáning getur til dæmis skert möguleika fólks til starfs en einnig eðlilegan framgang fólks í starfi. Af þeim sökum er nauðsynlegt að samfélagið sé opið og gagnsætt sem og að ráðningar í störf séu faglegar. Heilbrigðu samfélagi er nauðsyn á að tryggja að hinn veiki geti gagnrýnt hinn sterka, hinn valdalausi hinn valdamikla án þess að þurfa að óttast um hag sinn og sinna.

Í flestum samfélögum gætir bælingar á frjálsri tjáningu sem komið getur fram í sjálfsritskoðun einstaklinga eða því að utanaðkomandi aðilar gefa þeim merki um að gæta sín, hugsa sig um, þegja. Slíkt kallast þöggun. Þöggun er ekki aðeins bæling heldur einnig frelsisskerðing og kúgun. Í henni felst að einstaklingar fá ekki notið stjórnarskrárbundins tjáningarfrelsis síns sem er grundvallarþáttur mannréttinda. Á útrásartímanum varð þöggun hluti af daglegum veruleika. Sjónarmið sem brutu í bága við heimsmynd hagvaxtar og neyslu voru bæld. Vald þöggunarinnar smitaðist einnig um stofnanir samfélagsins — jafnvel þær sem leita eiga sannleikans, afhjúpa ranglæti, veita aðhald og leggja grunn að frelsi, verja það, efla og viðhalda. Má þar nefna menntakerfið, réttarkerfið og fjölmiðla. Kirkjan er þar heldur ekki undan skilin.

Ranglæti þöggunarinnar verður að afhjúpa og vinna gegn því. Mikilvægt er að muna að þjóðfélag þöggunar verður þjóðfélag spillingar. Þjóðfélag spillingar viðheldur þöggun og finnur upp reglur sem koma í veg fyrir gagnsæi.

Róttækara uppgjör

Eitt af mikilvægustu hlutverkum okkar á þeim umbrotatímum sem þjóð okkar lifir er að verja tjáningarfrelsi og nýta það til góðs. Við eigum að beita frelsi okkar gegn valdinu svo vitnað sé til Sókratesar en virða tilfinningar annarra ekki síst þeirra sem teljast minnimáttar.

Til þess að íslenskt samfélag komist á réttan kjöl þarf róttækara uppgjör en við höfum séð hingað til. Virkt tjáningarfrelsi er lykilatriði í því sambandi. Krafan um heiðarleika er orðin svo sterk að spillingaröfl geta ekki lengur athafnað sig í friði og ró. Spurningin er bara hve mikið þau skemma út frá sér áður en þau verða endanlega rekin út úr helgidóminum.

Við verðum að tryggja gagnsæi og upplýsta umræðu um þann vanda sem við glímum við. Ljósið sem lýsir okkur fram á veginn þarf þó fyrst að ná inn í öll skúmaskot. Við verðum að geta treyst því að umræðan haldi áfram þangað til því marki er náð.

Anna Sigríður Pálsdóttir
Arnfríður Guðmundsdóttir
Baldur Kristjánsson
Hjalti Hugason
Pétur Pétursson
Sigrún Óskarsdóttir
Sigurður Árni Þórðarson
Sólveig Anna Bóasdóttir

Um höfundinn2 viðbrögð við “Þöggun í málfrelsi — Krafa um heiðarleika”

  1. Lena Rós Matthíasdóttir skrifar:

    Hjartans þakkir fyrir þessa hugleiðingu. Hef nú tilfinningu fyrir því að þessi hugsun og ósk um gagnsæi, sé afar ríkjandi hjá fólki. Fjöldinn er ekki eins heimskur og gjarna af er látið. Vonandi mun héðan í frá ekki gagnast að hamra bara nógu vel á vitleysunni til að fjöldinn trúi og fylgi. Við neitum að trúa því að við munum þannig láta fífla okkur á ný. Ákveðin lífsstefna hefur siglt í strand, við vitum það. Við þegjum ekki yfir því, við tölum um það yfir kaffibollanum, í biðröðinni, í saumaklúbbum og heita pottinum. En hvað gerist þegar við síðan finnum okkur leidd af nýjum öflum, nýrri hugsun. Leggjumst við aftur í doða og látum hina hugsa fyrir okkur og tala fyrir okkur? Eða er þessi kreppa nógu djúp til að við gefum fjöldanum framvegis rými fyrir röddu sína? Það verður að koma í ljós, en þangað til treystum við á raddir eins og ykkar. Takk, takk!

  2. Sigríður Guðmarsdóttir skrifar:

    Kæru guðfræðingar, ég vil nú bara segja amen á eftir þessu efni og öðru því sem þið hafið skrifað um undanfarið í kjölfar bankahruns og kreppu. Það er mikilvægt að tala um þöggun í samfélaginu, og ekki síður að tala um birtingarmyndir valds og valdvensla, hver tekur sér vald, hver eignar sér vald, hver stjórnar orðræðu með réttu og röngu og hvernig getur kristin trúfræði og guðfræði varpað ljósi á þessi valdvensl?

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4809.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar